Bæjarhátíðin og veðurguðirnir

Stemningin var góð á Vallarbrautarróló þar sem bæjargrillið fór fram.

Bæjarhátíð Seltjarnarness var að þessu sinni haldin dagana 26. ágúst til 3. september þar sem fjölmargir viðburðir voru á dagskrá. Það fór hins vegar svo að veðurguðirnir voru ekki alveg með okkur í liði þetta árið og reyndist t.a.m. nauðsynlegt að fella niður hinn árlega Fjölskyldudag í Gróttu með öllum sínum fjölbreyttu viðburðum vegna slæms veðurs. Veðrið var hins vegar misgott eða vont þessa vikuna eftir því hvernig á það er litið og þrátt fyrir allt náðist að halda flesta viðburðina í samkvæmt skipulagi og voru þeir vel heppnaðir. 

Í úrhellis rigningu opnuðu þau Pétur og Rut dyrnar að bílskúrnum sínum og flykktist fólk á staðinn til að skoða hið einstaka LEGO safn sem Pétur hefur sett saman og safnað. Eftir mikinn  rigningardag stytti svo mátulega upp þegar að bæjarbúar byrjuðu að streyma á Vallarbrautarróló þar sem að bæjargrillið var haldið á bæjar­hátíðinni. Stemningin þar var afar góð að vanda og ekki væsti um neinn enda var allt þurrt og gott í stóra partý­tjaldinu auk þess sem íbúar höfðu það gaman saman. Seltjarnar­neskirkja bauð upp á óhefðbundnar messur í tilefni bæjarhátíðarinnar, bæði var þar stiginn vals og ferskt íslenskt grænmeti var selt til styrktar hjálparstarfi kirkjunnar. Góður hópur mætti í sjóbað með þeim Maju og Gróu, gerði æfingar í fjörunni og dansaði sér til hita eftir sjóbaðið. Afar áhrifarík leiksýning var svo haldin á torginu við hjúkrunarheimilið Seltjörn en þar flutti Hólmfríður Hafliðadóttir einleikinn Flokkstjórinn og hlaut mikið lof fyrir í lok sýningar. Það þótti skemmtilegt og gott að vera inni í fjölskyldugolfi þegar að veðurviðvaranir, hvassviðri, öldugangur og rigningin dundu á Nesinu auk þess sem bæjarbúar fjölmenntu á markaðinn á Eiðistorgi og margir hverjir kíktu í listamannaspjall í Gallerí Gróttu. Þrátt fyrir að veður hafi vissulega sett strik í reikninginn þetta árið þá var engu að síður líf og fjör og margt í gangi á bæjarhátíðinni 2023 eins og myndirnar bera með sér. Vonandi heiðrar sólin Seltirninga nú samt á næsta ári!

Atriði undir berum himni í haustveðrinu.
Vel sóttur markaður á Eiðistorgi. Skemmtileg nýbreytni að endurvekja þann sið.

You may also like...