Ég hef gaman að hafa fjölbreytni í verkum mínum

— segir Ninný myndlistarkona á Eiðistorgi —

Ninný við nokkur verka sinna á vinnustofunni á Eiðistorgi.

Ninný fullu nafni Jónína Magnúsdóttir mynd­listarkona á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi spjall­ar við Nesfréttir að þessu sinni. Ninný var með opið hús á vinnu­stofu tilefni bæjarlistahátíðar Seltjarnarness 2023. Hún kveðst stundum hafa verið með opið hús hjá sér þegar menningardagar hafi verið á Seltjarnarnesi þá hafi sér gefist tækifæri. Hún sýndi einnig i Gallerí Gróttu i október á liðnu ári. Á menningardögum fyrir tveimur árum var Ninný einnig með opið hús og málaði af því tilefni stóra mynd af Gróttu sem hangir uppi á vegg á vinnu­stofunni. Þegar komumaður spurði hvort þessi mynd ætti ekki heima á bæjar­skrifstofunni kvaðst hún ekki vilja láta myndina fara á safn, þar sem hún færi síðan í geymslu. Hugmyndin um bæjarskrif­stofunum hitti greinilega í mark hjá listakonunni.

Ninný hefur starfað á Eiðistorginu í um tvö og hálft ár en var áður með vinnustofu á Korpúlfsstöðum. Hún kveðst kunna vel við sig á Nesinu þar sem rúmt er um hana og frábært útsýni úr vinnustofunni vil vesturs. Þegar Ninný hafði rennt sterku kaffi í bolla fyrir komumann var hún innt eftir því af hverju hún hafi vali sér stað á Seltjarnarnesi. „Ég missti vinnustofuna sem ég var með á Korpúlfsstöðum. Ég fór því að líta í kringum mig og sá þetta pláss auglýst til sölu. Ég vildi komst á stað þar sem ég gæti verið í friði og rólegheitum. Þyrfti ekki að vera að flytja mig um set. Ég slóg til og bauð í þetta húsnæði og fékk það keypt fyrir um þremur árum og byrjaði að vinna hér nokkrum mánuðum síðar eftir að hafa lagað aðeins til og breytt. Opnaði rýmið ekki síst til þess að auðveldara væri fyrir mig að taka á móti fólki á vinnustofunni því ég er gjarnan með opið þegar ég er á staðnum og að vinna þótt ég sé ekki með fastan opnunartíma. Ég er með aðra vinnustofu í Kiðabergi í Kjósinni og vinn oft þar á sumrin. Ég kann vel við mig þar í nátturinni með útivistina allt í kringum mig.

Mætti vera meira líf hér á torginu

Mér fannst ekkert tiltökumál að flytja mig hingað. Hér er gott umhverfi. En það mætti vera meira líf hér á torginu. Að fólk sinni erindum, hittist og komi og fari. Ég dáist að Irisi hárgreiðslukonu sem hefur lagt í að endurvekja markaðstemmniguna hér á torginu. Markaðurinn á dögunum gekk vel og ég held að hún ætli að endurtaka hann laugardaginn 7. október. Geri aðrir betur.“ Ninný hefur nýtt sér möguleika á Eiðistorginu því hún hélt myndlistarsýninguna Fjölbreytileika í Gallerí Gróttu við hlið bókasafnsins. 

Fjölbreytni í myndverkum

Á sýningunni í Gallerí Gróttu gætti mikilli fjölbreytni í vali myndverka hennar enda um fjölhæfan myndlistarmann að ræða. Ninný kveðst hafa gaman af að hafa fjölbreytni í verkum sínum og vinnur í ýmsa miðla, olíu, vatnsliti og blandaða tækni. Í verkunum finnst henni skipta máli litaflæðið, ljósið og andstæðurnar. Hún málar bæði fígúratíf málverk og afstrakt og finnst gott að breyta um mótíf. Náttúran hafi sterk áhrif á sig og stundum segi verkin einhverja sögu, sýni oft nánd við eina eða fleiri manneskjur. Ninný kveðst ekki bundin af litavali, heldur teflir saman litum eins og tilfinningin segi henni.

Fór á sýningar með pabba

Hvaðan sækir Ninný áhuga sinn á listum. Hún kveðst alltaf hafa haft mikinn áhuga á þeim. Allt frá bernsku. Faðir sinn hafi verð listelskur og duglegur að fara með sig á sýningar. Þetta hafi eflt áhugann og hún því snemma stefnt á listanám. Hvatningin hafi skipt sig miklu. Hún hafi fengið vítamínsprautu þegar þau fóru að skoða myndverk á sýningum. „Ég var sautján ára þegar ég byrjaði í Myndalista- og handíðaskólanum eins og hann hét þá og útskrifaðist sem kennari. Ninný kenndi við Sérkennslumiðstöð Kópavogs þar sem viðfangsefni hennar voru einkum börn sem áttu við ýmsa erfiðleika. Eftir það flutti hún til Danmerkur, stundaði og fór síðan ég að kenna í kvöldskóla þar sem ég kenndi myndlist og handmennt. Ninný hefur auk þess sótt sér meiri menntun víðar í Danmörku, á Ítalíu, í Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Spáni. Eftir að ég kom heim stofnaði ég minn eigin skóla og hélt námskeið. Þegar eiginmaður minn veiktist fyrir fertugt og féll síðan frá langt um aldur fram ákvað ég að taka mér hlé frá kennslu og hef bara unnið við listina síðan.

Ninný við málverk sitt af Gróttu á Seltjarnarnesi.

Í stjórn Norræna Vatnslitafélagsins

Ninný hefur tekið nokkurn þátt í félagsmálum. Hún sat í stjórn Norræna Vatnslitafélagsins í sex ár sem fulltrúi Íslands en auk þess hefur hún tekið að sér ýmis verkefni tengd myndlist. Hún hefur haldið Fri Akademi á Íslandi fyrir listamenn frá öðrum löndum, staðið fyrir námskeiðum með erlendum listamönnum og var í forsvari fyrir stórri vatnslitasýningu í Norræna húsinu þar sem norrænir listamenn sýndu auk breskra listamanna. Ninný hefur hlotið ýmsar viður­kenningar fyrir verk sín og var valin listamaður Garðabæjar árið 2000. Ninný hefur haldið yfir tuttugu  einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis. 

Ólst upp í náttúrunni í Vatnagörðum

Ninný er uppalin í Kleppsholtinu þegar öðru vísi var umhorfs þar en nú. „Heiman frá mér var stutt að hlaupa niður í fjöru og við vorum oft að leika okkur í Vatnagörðum. Þar var yndisleg að vera. Í fjörunni og veiða síli. Þarna var mikil náttúra áður en að Sundahöfn var byggð en ég fylgist síðan með fram­kvæmdum þegar ég var aðeins eldri Ég er þannig innfæddur Reykvíkingur þótt ég hafi búið síðustu árin í Kópavogi með smá millilendingu í Garðabæ og síðan fimm árin mín í Danmörku. Ég hafði mjög gott af því að breyta um umhverfi. Ég varð líka altalandi á Dönsku þeim tíma og ég held að danskan hafi leitt mig í stjórn Norræna Vatnslitafélagsins. Á fundum töluðu norðurlanda­búarnir hvert sitt tungumál en flestir skyldu hvorir aðra. Ég var lengst að venjast sænskunni. Ninný segir að í gegnum þetta félagsstarf hafi sér verið boðið að taka þátt í sýningum og það hafi leitt til kynna við ýmsa flotta listamenn á Norðurlöndunum. Kaffið er búið og tíminn líka og Ninný hyggst snúa sér að penslinum innan stundar. 

You may also like...