Ósáttur við gönguþverun

— Breytingar við Hringbraut og Eiðsgranda —

Á myndinni má sjá hvar gönguljósin við Eiðsgrandi munu verða staðsett.

Breytingar eru nú hafnar við gatnamót Hringbrautar og Eiðsgranda. Í tillögu frá skrifstofu samgöngustjóra í Reykjavík sem lögð er til grundvallar breytingum kemur fram gerir sé ráð fyrir nýjum gönguljósum á Eiðsgranda, vestan við innkeyrslu að Hringbraut 121. Samhliða því að komið verði fyrir gönguljósum er gert ráð fyrir að akreinum vestur Eiðsgranda sé fækkað þannig að núverandi vinstribeygjuvasi verði fjarlægður og í staðinn verði núverandi vinstri akrein gerð að beygjuakrein.

Þessar framkvæmdir hafa ekki vakið hrifningu á Seltjarnarnesi þar sem talið er að væntanlegar breytingar muni tefja og hefta umferð af Nesinu til og frá Reykjavík. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi segir þessa hugmynd algjörlega galna og sé gerð á mjög undarlegum stað. Hann segir fyrirhuguð gangbrautarljós allt of stutt frá hringtorgi við JL-húsið. Mun eðlilegri staður fyrir ljósin væri að sínum dómi á horninu á Grandavegi og Eiðsgranda. Hann telur að þetta sé bein ávísun á umferðarvandræði þótt vissulega þurfi að koma fólki yfir götuna. Þór segir að Seltirningar geti lítið gert í þessu máli annað en að benda það og vekja athygli á því í fjölmiðlum og með viðtölum við borgarfulltrúa á fundum. “Þessi nýja gönguþverun við JL-húsið er á slæmum stað,” segir Þór.

You may also like...