Leitar að nýjum þjónustuaðila fyrir skiptistöð Strætó
Reykjavíkurborg leitar nú að rekstraraðila fyrir Þönglabakka 4 í Mjódd. Gert er ráð fyrir að nýr rekstraraðili muni taka þátt í að skipuleggja breytingar á hlutverki húsnæðisins í samvinnu við Reykjavíkurborg og aðra sem eru með starfsemi í Mjódd. Jón Halldór Jónasson verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg segir að Reykjavíkurborg vilji bæta þjónustu, verslun og veitingaaðstöðu í Mjódd þar sem nú er biðstöð fyrir notendur Strætó.
Jón Halldór telur að í Mjóddinni séu áhugaverð tækifæri fyrir veitingarekstur sem falli vel að hlutverki húsnæðisins sem þjónustustöð Strætó. Stöðin gegni mikilvægu hlutverki innan leiðakerfis Strætó og fari rúmlega þrjú þúsund manns um hana daglega. Nýr rekstraraðili mun velja verslanir og veitingastaði til samstarfs, afli tilskilinna leyfa, sjái um kynningar- og markaðsmál og annast allan daglegan rekstur hússins, þar með talið rekstur á salernum og öryggisvörslu. Jón Halldór segir að gerð verði krafa um að opið verði frá kl. 8 til 22 alla daga og að aðgengi verði að salernum á þeim tíma. Við val á rekstraraðila verður nýnæmi hugmynda, verðtilboð, hönnun og útlit, tenging við anda skipulags á svæðinu, þekking, reynsla og fjárhagsgeta hans ásamt viðskiptahugmynd metin.