Fjölmenningin skapar margvísleg tækifæri

— segir Óskar Dýrmundur Ólafsson framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar —

Óskar Dýrmundur Ólafsson.

Breiðholt er fjölmenningar­samfélag sem skapar tækifæri. Hverfið er suðupottur allskonar stefna og strauma þar sem ólík viðhorf og stefnur mætast. Útkoma úr slíku er alltaf áhugaverð. Hér er fólk af ýmsu þjóðerni og í raun er þetta ekki ólíkt því sem var á uppvaxtarárum mínum hér, nema hvað þá voru krakkar utan af landi í aðalhlutverki. Þau höfðu – rétt eins og útlendingar nú – ólíkan bakgrunn og því fylgdi margt skemmtilegt, segir Óskar Dýrmundur Ólafsson framkvæmdastjóri Suður­mið­stöðvar og áður hverfis­stjóri í Breiðholti sem spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Óskar er Breiðhyltingur sonur Ólafs Dýrmundssonar búfjárræktar- og síðar ráðunautar lífræns búskapar og landnýting­ar og Svanfríðar Óskarsdóttur bókasafnsfræðings.  

Talið barst fyrst að fjölmenningar­samfélaginu. „Ég réð mig til starfa hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts eins og hún hét þá árið 2012 sem hverfisstjóri í Breiðholti en kallast nú framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar. Þessi nafnbreyting er liður í að færa þau verkefni sem unnið hefur verið að í Breiðholti til fleiri byggða og tengja þjónustunetið betur saman. Allir eiga rétt á hliðstæðri þjónustu burt séð frá búsetu.“ Óskar tók að sér að leiða Breiðholtsverkefnið. Hvað fólst í því. „Þetta verkefni snerist í grunnin um að endurskoða þá þjónustu sem Reykjavíkurborg er að veita í Breiðholti og fjalla um það út frá þeirri þróun sem varð orðin í samfélaginu. Þeir sem eru að skipuleggja þjónustu þurfa að taka sérstaklega mið af því að hér býr fjöldi fólks með margvíslegan menningarbakgrunn. Fólkið er frá ýmsum menningarsvæðum og tala margvísleg tungumál. Við höfum verið að vinna að þessu í rúman áratug. Þetta er stöðug þróun og við störfum undir því kjörorði að taka vel á móti fólki. Við bjóðum fólk velkomið og reynum að veita því þá bestu þjónustu sem við getum.“

Flókið tungumál

Óskar segir ætíð flókið fyrir fólk að flytja á milli landa og gerast innflytjendur á nýjum slóðum, nýju búsvæði. Við finnum þetta sjálf sem höfum flutt og búið annars staðar um tíma. Þá er auðveldara að setja sig í spor þeirra sem eru að koma hingað til að hefja búsetu. Fólk flytur jafnan ekki með stór­fjölskyldu með sér og þarf einnig að kynnast nýjum háttum. Fólk þarf að læra nýtt tungumál. Tungumál sem fyrir mörgum er flókið. Alls ekki er auðvelt að skilja hvernig allt virkar hér. Þetta er búið að vera eitt af höfuðverkefnunum.“

Breiðholtsbylgjan

Óskar segir að annað verkefni sem byrjað hafi verið á 2012 sé að finna hvernig þróa mætti það góða samstarf sem verið hafi á milli allra aðila í Breiðholti. Bæði þeirra sem veita þjónustu og íbúanna. „Við settum af stað viðamikla samstarfsáætlun sem við kölluðum Breiðholtsbylgjuna. Við vorum með starfsdaga á hverju ári í nokkur ár. Þar buðum við öllum starfs­mönnum á vegum Reykjavíkur­borgar og ríkinu í Breiðholti að koma saman og deila þekkingu sín á milli. Þetta byggðist strax í upphafi á góðum grunni en hefur þróast betur og betur í mikilvægt samstarf. Eitt af því sem við erum að vinna með er verkefni sem við köllum betri borg fyrir börn. Þetta verkefni byggir á nýjum lögum um farsæld barna. Þetta samstarf sem við höfum þróað markvisst í Breiðholti hefur orðið fyrirmynd annarra hverfa um vinnulag um farsæld barna.“

Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi

Óskar segir að strax þegar farið var af stað árið 2012 hafi verið ákveðið að beita aðferðum félagslegrar nýsköpunar. Þessi aðferð hafi nú getið af sé tugi verkefna þar sem hafi verið farnar nýjar leiðir til að veita þjónustuna. „Stærsta verkefnið sem varð til er menntun núna. Unnið með með Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og starfsmenntasetrinu Iðunni. Við studdumst við raunfærnismat þar sem unnið var gegn brotthvarfi nýbúa úr skóla. Verulega var hert á íslenskukennslu. Eitt af því sem þróað var er fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi. Þar hafa orðið til félagsleg verkefni eins og Tinna sem ég tengi við félagslega nýsköpun. Ákveðin lægð myndaðist um tíma í félagsstarfinu í Gerðubergi en það fór aftur af stað í tengslum við fjölskyldumiðstöðina og verkefni tengt félagslegri nýsköpun. Þannig höfum við verðið frumkvöðlar og sambærileg verkefni farið af stað á fleiri stöðum.“

Frá hinni vinsælu félagsvist í fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi. Þar koma margir heldri borgarar saman og spila.

Aldurssamsetningin að breytast

Óskar segir hraðar beygingar á samfélaginu ástæðu þess að farið var í nýsköpunarstarfsemi. „Við þurfum að fylgja því eftir og þróa þjónustna í takt við þær. Við verðum að horfa heildstætt á þessar breytingar. Við verðum að horfa til allra íbúa ungra sem eldri.“ Óskar bendir á að margir íbúar í Breiðholti séu að eldast. Hann segir að margir af frumbyggjum hverfisins búi þar enn. Því þurfi að aðlaga þjónustuna með tilliti til breytinga í aldurssamsetningu. „Þróunin er í þá átt að eldra fólk flytur úr stórum eignum í minna húsnæði og velur sér þá gjarnan staði sem eru í meiri nálægð við þjónustu.“ Hann bendir á Gerðuberg og Árskóga í því efni og segir að uppbygging sé einnig að eiga sér stað í Breiðholti. Verið sé að byggja Mjóddina upp. Þar sé uppbygging í kringum ÍR í fyrirrúmi og nú standi til að endurbyggja kjarnana við Arnarbakka og Völvufell. „Þar er verið að vinna í takt við nýtt hverfisskipulag sem unnið var í samráði við íbúa. Í þeirri vinnu var farið inn í grunnskólana með líkön þar sem bæði börn og foreldrar fengu að koma með ábendingar um hvað þeim fyndist að ætti að koma fram í nýju hverfaskipulagi. Þessa dagana er verið að hefja framkvæmdir við Vetrargarðinn efst í Seljahverfinu. Þar var skíðasvæði en nú á að stækka það og bæta og auka möguleika íbúanna og annara sem vilja notfæra sér vetraraðstöðu.“

Fjölskyldumiðstöðin og Borgarbókasafnið Gerðubergi bjóða upp á lestraraðstoð fyrir börn í 4., 5. og 6. bekk í Fellaskóla undir yfirskriftinni Krakkanám þar sem sjálfboðaliðar aðstoða börnin við heimalesturinn.  

Verið dugleg að kynna starfsemina

Þjónustumiðstöðin í Breiðholti nú Suðurmiðstöð hefur oft verið meira í umræðu en aðrar sambærilegar stofnanir í Reykjavík. Hverju svarar Óskar því. „Við höfum verið dugleg að kynna það sem við höfum verið og erum að vinna að. Einkum aðferðir okkar og þar kemur þessi félagslega nýsköpun við sögu. Við þurfum að vera í góðu sambandi við þá sem nota þjónustu okkar. Við höfum verið með upplýsingar á facebook og einnig á síðum Breiðholtsblaðsins. Hluti af stefnu okkar er að segja frá og að hlusta á fólk. Stundum vill gleymast að ekki er nóg að miðla upplýsingum. Heldur þarf líka að hlusta og vita hvað fólk hefur að segja. Við höfum notið góðs af samstarfi við íbúaráð Breiðholts.“   

Sendiherrarnir eru að virkja okkur

Óskar víkur að sendiherrum Breiðholts. „Sendiherrarnir sem starfa á vegum Suðurmiðstöðvar eru af ólíkum þjóðernishópum. Þeir eru í tengslum við fólk sem flutt hefur eða er að flytja erlendis frá í Breiðholt. Þar höfum við átt mjög góð samtöl. Ekki aðeins um þjónustuna heldur margt annað sem varðar líf fólks í nýju umhverfi. Hluti af verkefni er að láta raddir innflutts fólks heyrast betur þannig að þarfir þess verði sýnilegri.“ Óskar segir tvennt hafa gerst með sendiherraverkefninu. „Sendiherrarnir eru að virkja okkur í að ná betur til barna og fá þau í frístundastarfið. Einnig að koma upplýsingum inn í þá þjóðfélagshópa sem þeir tilheyra og að koma upplýsingum til okkar þannig að starf þeirra virkar gagnkvæmt. Þau eru ekki aðeins fulltrúar einstakra mál- og menningarhópa heldur mynda þau eina heild. Það er fyrirbæri sem við köllum inngildingu. Þetta samrýmist stefnu sem Reykjavíkurborg hefur verið með sem kallast Intercultural á ensku og gæti útlagst fjölmenningarleg þar sem fólk frá ólíkum mál- og menningarhópum er að tengjast í eina heild. Ég sé að í löndunum í kringum okkar hafa menn verið að glíma við þetta en ekki tekist nægileg vel. Verið of fastir í fjölmenningarhugmyndunum en síður horft á nauðsyn á þörfinni fyrir að mynda eina heild. Ná ekki að tengja þetta allt saman. En þegar við horfum á þarfir fólks hefur það áhrif á þjónustu. Til dæmis heimaþjónustu eða þarfir fólks sem býr við fátækt svo dæmi sé tekið. Einnig hvernig við vinnum með börnum og ungmennum í frístund. Kjarninn í þessu er að þjónusta fer fram þar sem fólk hittist og mætist.“  

Fólk verði virkir þátttakendur

Óskar lýkur spjalli sínu með því að minnast á öfluga starfsemi í Breiðholti. Hann segir mikla aðsókn í tónlistarskólana enda sé tónlistin alheims tungumál. Öflugur rótarýklúbbur starfi í Breiðholti sem láti margt gott af sér leiða. Hann nefnir Soroptimista og Rauða krossinn. Fjölbreytt trúarlíf því fólk komi úr ýmsum trúfélögum og kirkjudeildum. Pólska bókasafnið hafi verið opnað í fjölskyldumiðstöðinni Gerðuberg og ýmislegt fleira mætti nefna. Nauðsynlegt sé að fólk lendi ekki utangarðs í samfélaginu heldur verði virkir þátttakendur í því. 

Frá 15 ára afmæli Pólska skólans í Austurbergi.

You may also like...