Átjándi íbúðakjarninn

— nýr og glæsilegur íbúðakjarni tekinn í notkun í miðborginni —

Dagur óskar tilvonandi íbúa til hamingju.

Dagur B. Eggertsson borgar­stjóri, afhenti á dögunum sex tilvonandi íbúum nýs íbúðakjarna að Vestur­götu 67 lykla að íbúðum sínum. Íbúðirnar í kjarnanum eru allar rúmgóðar og bjartar, með svölum sem snúa í suðvestur og fallegu útsýni. Íbúar og aðstand­endur þeirra, starfsfólk, fulltrúar Reykja­víkur­­borgar og Félagsbústaða, hönnuðir hús­sins og aðrir velunnarar voru viðstaddir hátíðlega athöfn þegar íbúða­kjarninn var formlega tekinn í notkun. 

Íbúðakjarninn er í nýju steinsteyptu húsi með lyftu sem nýtur sín vel í götumyndinni. Húsið er 530  fermetrar og íbúðirnar eru 60  fermetrar að stærð. Auk íbúða fyrir íbúa er í húsinu rúmgóð starfsmanna­aðstaða sem stuðlar að því að unnt sé að veita íbúum þjónustu á þeirra forsendum.

Húsið er hannað af Páli Hjalta­syni og Haraldi Ingvarssyni og Jónas Bjarni Árnason hjá Afltaki var verktaki við byggingu þess. Heildar­kostnaður við bygginguna nam um 340 milljónum króna. Þetta er átjándi íbúðakjarninn sem Félagsbústaðir hafa ýmist byggt eða keypt í Reykjavík frá árinu 2018. 

You may also like...