Jákvæð rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar
Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar var jákvæð um 70 m.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 68 m.kr. Nýir kjarasamningar og hækkanir vegna starfsmats á liðnu ári urðu til þess að laun og tengd gjöld hækkuðu á árinu og endurmat á lífeyrisskuldbindingum hækkaði einnig verulega milli ára. Rekstrartekjur jukust frá fyrra ári um 10,6% en laun og launatengd gjöld að meðtalinni hækkun vegna lífeyrisskuldbindinga um einungis 2% og annar rekstrarkostnaður um rúm 9%. Hluti af rekstrartekjum er framlag Jöfnunarsjóðs sem hækkar um rúm 22% á milli ára.
Heildarniðurstaða ársins er því sú að reksturinn, fyrir utan afskriftir, fjármunatekjur og fjármunagjöld, skilar rúmlega 160 milljóna króna afgangi í stað rúmlega 27 milljóna króna rekstrarhalla árið 2015. Sé aðeins horft til aðalsjóðs þá er rekstrarniðurstaða hans um 62 milljónir í stað 127,6 milljóna króna halla árið 2015. Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs er neikvæð sem nemur rúmlega 48 milljónum á móti rúmlega 19 milljónum króna árið 2015.
Sveitarfélagið stendur vel
Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kemur fram að þótt launaútgjöld bæjarins hafi orðið nokkru hærri en gert var ráð fyrir tókst að draga úr öðrum rekstrarútgjöldum á móti. Meirihlutinn leggur áherslu á að ársreikningur fyrir árið 2016 sýnir góða fjárhagsstöðu jafnframt því að álögum á íbúana er haldið í lágmarki eins og áður. Í bókuninni segir að ársreikningurinn sýni ábyrga fjármálastjórn, gott innra eftirlit sem þakka megi starfsmönnum bæjarins. Þar kemur einnig fram mikilvægi þess að lögð sé fram vönduð fjárhagsáætlunargerð og eftirlit með þróun raunkostnaðar sé mjög virkt, en það er eitt áhrifamesta stjórntæki í rekstri hvers bæjarfélags. Þá er bent á að óhjákvæmilegt geti orðið að gera viðauka við fjárhagsáætlun innan ársins. Slíkir viðaukar á liðnu ári voru fáir, samþykktir samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn. Í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar segir m.a. að sé litið til gjaldaliða einstakra málaflokka sjáist að almennt hafi gengið vel að halda fjárhagsáætlun. Því ber að fagna og þakka beri öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstaklega fyrir vel unnin störf. Í bókun Neslistans segir m.a. að samkvæmt ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 standi sveitarfélagið vel fjárhagslega. Skuldir séu litlar fyrir utan lífeyrissjóðsskuldbindingar sem ekki verða til innan hefðbundins reksturs. Vaxtakostnaður sveitarfélagsins sé þess vegna afar lítill og kemur sér vel fyrir reksturinn. Þetta sé ánægjulegur viðsnúningur.