Mikill áhugi fyrir íbúðum fyrir eldri borgara
Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri Félags eldri borgara segir mikinn áhuga fyrir íbúðum sem félagið er að byggja. Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum í Mjóddinni en búið sé að samþykkja deiliskipulag þar sem hægt verður að byggja þau fimm hæða.
„Við fundum strax fyrir miklum áhuga á þessum íbúðum og leituðum því eftir leyfi frá borgaryfirvöldum til þess að fjölga þeim. Þetta gerðum við án þess að draga úr gæðakröfum. Allar íbúðirnar eru með sama sniði eða í sama stíl eins og sagt er en við tókum ákvörðun um að setja ekki neinar smáíbúðir inn á milli annarra stærri til þess að fjölga búsetumöguleikum heldur halda þeim stærðum sem þegar var búið að ákveða.“
Höfum áhuga á að byggja 100 íbúðir í Mjóddinni
Á árinu 2008 eða fyrir níu árum var samþykkt að byggðar yrðu 100 íbúðir í Suður Mjódd fyrir eldri borgara þar sem ljóst var að mikil þörf væri fyrir húsnæði fyrir eldri borgara. Nú þegar er hafinn bygging húsnæðis fyrir 68 íbúðir en félagið er að leita eftir því hvort hægt verði að fjölga þeim á þessu svæði eða í næsta nágrenni og ná þannig 100 íbúða markinu eins og gert hafi verið ráð fyrir með skipulaginu frá 2008. „Við höfum bent á ákveðnar lausnir í því sambandi og málið er í vinnslu eins og sagt er. Gísli segir mikinn misskilning að tekið hafa verið land frá ÍR eða þrengt að ÍR svæðinu eins og stundum hafi komið fram. Þetta hafi allt verið unnið samkvæmt skipulagi en vissulega verði eldri borgararnir næstu nágrannar ÍR-inga. Hann segir ástæður þess að horft hafi verið til Mjóddarinnar í þessu sambandi einkum þá hversu staðsetningin sé góð með tilliti til samgangna og þjónustu. „Árskógarnir eru í næsta nágrenni við Mjóddina þar sem fjölda verslana er að finna, einnig banka og heilsugæslustöðva og ógleymdir Þjónustumiðstöð Breiðholts. Mjög góðir göngustígar eru á milli Árskóganna og Mjóddarinnar og auðvelt fyrir eldra fólk sem aðra að komast á milli án þess að þurfa að nota vélknúin ökutæki. „Þetta er svona léttur göngutúr fyrir þá sem eru sæmilega á sig komnir,“ segir Gísli.