Hjúkrunarheimili með 40 íbúðum að rísa
Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi eru á fullri ferð um þessar mundir og ganga afar vel, húsið rís hratt en stefnt er að því að heimilið verði tekið í notkun um næstu áramót. Heildarbyggingartími var áætlaður um 18 mánuðir og standast þær áætlanir eins og staðan er nú.
Seltjarnarnesbær annast eins og áður hefur komið fram alla hönnun og byggingu heimilisins í samráði við Velferðarráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins. Forsendur byggingarinnar grundvallast á stefnu og viðmiðum Velferðarráðuneytisins í öldrunarmálum.
Hjúkrunarheimilinu var fundinn staður á einum rómaðasta útsýnisstað á Nesinu, við norðurtún Nes II, þar sem nú heitir Safnatröð og markar bygging þess tímamót í byggingarsögu bæjarfélagsins. Heimilið á að bjóða upp á aðstæður sem stuðla að vellíðan þeirra sem þar dvelja, jafnt heimilismanna sem starfsfólks og aðstandenda. Fjörutíu íbúðir verða í hjúkrunarheimilinu þar sem umhverfið og aðbúnaðurinn mun líkjast hefðbundnum einkaheimilum. Öll hönnunin hefur miðast við að mæta þörfum fólks með skerta getu til athafna. Byggingin er á einni hæð, án stiga og allt aðgengi að henni verður mjög gott auk þess sem bílastæði og aðstaða til útiveru verða einnig opin og afar aðgengileg. Sameiginlegt markmið allra sem að málinu koma og án efa Seltirninga allra er að íbúum hjúkrunarheimilisins muni líða þar vel og að þeir geti notið síðustu æviáranna við bestu aðstæður á dásamlegum stað.