Framkvæmdir hafnar við nýja tilraunaborholu
Eins og margir vegfarendur um Norðurströndina hafa án efa rekið augun í þá eru nú hafnar framkvæmdir við nýja tilraunaborholu við Bygggarðatanga á Seltjarnarnesi. Undirbúningur hefur staðið yfir í nokkur ár en nú er tilraunin sjálf hafin og binda menn vonir við að þar sé að finna eina heitustu uppsprettuna á Nesinu. Í framhaldi verður svo önnur tilraunaborhola boruð en það verður í nágrenni við Nesstofu þar sem jafnframt eru taldar vera vísbendingar um heitt vatn.
Seltjarnarnesbær býr yfir eigin hitaveitu og getur með því móti boðið bæjarbúum þjónustuna fyrir afar sanngjarnt verð. Fyrstu tilraunir við að bora fyrir heitu vatni á Seltjarnarnesi fóru fram árið 1965 og þó grunnt væri borað kom hátt hitastig vatnsins mönnum strax á óvart. Síðan þá hafa fleiri holur verið boraðar. Nú eru vinnsluholurnar alls fjórar, allar norðan megin á Nesinu og borholurnar átta. Það verður því afar spennandi að fylgjast með því hvort að tilraunaborunin muni skila árangri íbúum til hagsbóta.