Námsárin hafa breytt okkur mikið
Amanda Ósk Min og Svanur Þór Þorsteinsson útskrifast frá FB undir lok maí-mánaðar. Þau hófu nám að nýju með óhefðbundnum hætti. Höfðu bæði hætt í skóla eftir grunnskólanám en ákváðu að hefja nám að nýju nokkrum árum síðar. Þau hófu nám í átakinu „Menntun núna“ sem haldið var í Breiðholti á árunum 2013 til 2014 og var hugsað fyrir fólk sem ekki hafði mikla formlega menntun. Þau komu inn á námskeið sem var keypt af Mími og haldið í FB. Síðan tóku þau framhald og hófu nám í FB haustið 2015. Svanur er nú 29 ára að aldri og Amanda er 25 ára. Þau eru par í dag. Kynntust í náminu og eitt hefur leitt af öðru. Þau búa í Grafarvogi og eru farin að huga að kaupum á íbúð.
Amanda er ættuð frá Thailandi. Hún kom hingað til lands fimm ára gömul nokkru eftir að móðir hennar fluttist hingað. Hún byrjaði fljótt í leikskóla og fór að læra íslensku. “Það var sungið mikið í leikskólanum og það hjálpaði mér mikið að ná tökum á tungumálinu sem er mjög ólíkt móðurmáli mínu. Ég byrjaði líka fljótt að leika við aðra krakka og þetta fór að koma. Við mæðgurnar töluðum thailensku heima en svo kynntist móðir mín íslenskum manni. Þau hófu sambúð og eignuðust dreng þannig að ég á hálfíslenskan bróður sem er fimm árum yngri en ég.”
Sesselja ráðlagði mér að fara í Mími
Svanur er íslenskur í húð og hár og ættaður úr Árbænum en ólst upp í Breiðholti og einnig í Vesturbænum. Hann segir að sér hafi ekki liðið nægilega vel í skóla og það hafi komið niður á námsárangri. “Ég eignaðist dóttir þegar ég var 19 ára en hafði ekki pælt í hvað mig langaði að gera. Ég var búinn að vera á atvinnuleysisbótum og var boðið að fara á námskynningu. Ég fór í FB og talaði við Sesselju Pétursdóttir námsráðgjafa. Hún ráðlagði mér að fara í Mími og byrja að taka þá áfanga sem ég hafði klúðrað í 10. bekk. Hún fann auðvelda leið fyrir mig til þess að koma mér að framhaldsskólanum. Mímir var þá með aðstöðu í FB og ef maður átti lögheimili í Breiðholt var hægt að stunda námið þar.”
Allt gert til að gera veru okkar ánægjulega
Amanda ákvað að taka sér hlé frá námi eftir 10. bekk en var búin að hugsa um að hefja nám að nýju þegar vinkona hennar lét hana vita af þessum möguleika. “Við Svanur byrjuðum nánast á sama tíma í námi. Held að það hafi liði vika á milli. Svo kynntumst við fljótlega og urðum síðan par þótt við færum ekki að búa strax. Það tók svolítið lengri tíma.” Þau Amanda og Svanur segja bæði að ákaflega gott hafi verið að vera í Mími. “Við vorum hvött áfram og allt gert til þess að gera þessa veru okkar þar ánægjulega enda hugsað til þess að laða fólk að námi á ný sem hafði hætt í skóla.”
Húsasmiður og stúdent
Svanur tók húsasmíðabrautina og mun útskrifast sem húsasmiður en stefnir að frekara námi. “Ætli ég haldi mig ekki við fagið og fari í byggingameistarann í framhaldinu frekar en að stefna á stúdentsprófið þótt maður viti ekki hvað síðar verður. Þetta er alla vega planið í dag.” Amanda stefnir á nám í háskóla að hausti. “Ég er á opinni braut í FB því ég er ekki alveg ákveðin í hvað ég mun fara. Þetta er nokkuð fjölþætt sem hægt er að læra í FB þannig að möguleikarnir eru ýmsir. Ég hef áhuga á félags-ráðgjöf en er ekki alveg ákveðinn hvað ég geri. Er enn aðeins að hugsa málið.”
Finnst að allir þurfi að læra ensku
Þau Amanda og Svanur hafa stutt hvort annað í því átaki sem oft er að hefja nám að nýju eftir nokkurt hlé. Svanur segir aldurinn hafa hjálpað sér. “Ég var orðinn eldri og þroskaðri og þekkti heldur ekki marga í skólanum. Það varð til þess að ég einbeitti mér betur að náminu. Það fór lítill tími til spillis fyrir félaga og vini. Við lukum við flesta grunnáfangana í Mími – til dæmis ensku og dönsku og svo vorum við Amanda saman í stærðfræði. “Ég hafði ekki lært mikla ensku þótt ég komi frá öðru landi,” segir Amanda. “Ég fór strax í íslenskuna sem krakki og mamma sótti einhverja tíma í málaskóla og þetta kom hjá okkur. Mér finnst að allir þurfi að læra ensku hvaða móðurmál sem þeir hafa. Það er tungumálið sem veitir aðgang að umheiminum.” Þau segjast ekki sjá eftir að hafa valið Mímí. “Þetta kom betur út en við þorðum að vona,” segir Amanda og Svanur bætir við að hann hafi ekki hugsað um að fara út í nám fyrr en honum hafi boðist námskynningin.
Námsárin hafa breytt okkur mikið
“Við erum bjartsýn. Námsárin hafa breytt okkur mikið. Ég á ömmu og frænku í Thailandi og fór oft út áður. Nú hef ég ekki farið út síðan 2011. Þá var ég byrjuð að vinna til að farin að safna fyrir íbúð.” Ætlið þið byggið ekki bara. “Svanur lítur upp. “Kannski maður fari í það þegar ég verð búinn að læra. Við horfum björtum augum fram á við og staðan væri önnur hefði ég aldrei farið í Mími. Það var ákveðin hræðsla að byrja aftur í námi en þetta fór allt vel. Og svo mundum við ekki þekkjast hefðum við ekki farið þangað.” Og Amanda bætir við. “Við eigum Mímí tvennt að þakka. Námið og ástina.”