Þúsundasti rafvirkinn útskrifaðist frá FB
Að lokinni vorönn útskrifaði Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 153 nemendur við hátíðlega athöfn í Silfurbergi Hörpu. Þar af útskrifuðust 83 nemendur með stúdentspróf, 12 sjúkraliðar, 20 húsasmiðir, 24 rafvirkjar, 11 nemendur af snyrtibraut og 10 nemendur af starfsbraut. Þá má geta þess að þúsundasti rafvirkinn úr FB var útskrifaður við athöfnina.
Dúx skólans var Guðmundur Freyr Gíslason, stúdent af náttúruvísindabraut með einkunnina 9,49. Fékk hann verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum, stærðfræði og spænsku, auk menntaverðlauna Háskóla Íslands.
Semídúx var Ásta Kristín Marteinsdóttir stúdent að loknu sjúkraliðanámi með einkunnina 9,43 og yngsti stúdentinn sem útskrifaðist var Erla María Theódórsdóttir af náttúruvísindabraut, en hún er aðeins 17 ára og lauk stúdentsprófi á tveimur árum.