Gamli Vesturbærinn er minn Vesturbær

– segir Magnús Skúlason arkitek –

Magnús Skúlason arkitekt.

Magnús Skúlason arkitekt spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Magnús hefur sterkar skoðanir á byggingum og borgarumhverfi og hefur staðið vörð um menningararfleifð og hlúð að gæðum í borgarlandslaginu í áratugi. Þá hefur hann einnig gagnrýnt ýmislegt sem hefur verið gert í uppbyggingamálum og skipulagsmálum í Reykjavík. Oftar en ekki hefur aðhald og gagnrýni snúið að því hversu hátt byggingar hafa risið. Húsvernd og byggðamynstur hafa lengi verið Magnúsi hugleikin. Hann var einn af þeim sem stóð að stofnun Torfusamtakanna og endurreisn Bernhöftstorfunnar þegar til stóð að rífa húsalengjuna við Lækjargötu og rýma til fyrir nýjum hábyggingum. Bernhöftstorfan stendur enn í dag en önnur hús sem Torfusamtökin reyndu að fá skipulagsyfirvöld til að hætta við að rífa á þessum tíma eins og til dæmis Fjalakötturinn er horfinn. Magnús var einn af einn af stofnendum Íbúasamtaka Vesturbæjar árið 1977 og varð síðar fyrsti formaður íbúasamtaka Miðborgarinnar 2008. Hann átti sæti í byggingarnefnd Reykjavíkur árin 1974 til 1988 og var formaður árin 1979 til 1982. Hann sat einnig í umferðarnefnd Reykjavíkur árin 1986 til 1990.

„Þótt ég búi nú í miðborginni er ég rakinn Vesturbæingur. Fæddur 1937 og uppalinn á Bakkastíg 1 í húsi sem fósturafi minn byggði árið 1919.  Sigvaldi Thordarson arkitekt teiknaði viðbyggingu við húsið 1952 og ég bætti síðan við byggingu við suðurgafl þess um 1980. Það var nú fyrst og fremst til að setja svalir út frá rishæðinni. Húsið hefur verið í eigu fjölskyldunnar alla tíð síðan og tvö börn mín af fjórum eiga húsið í dag.“ Magnús segir leiksvæði bernsku sinnar hafa verið ásamt götunni sjálfri Héðinsplanið og Danílelsslippurinn og umhverfið við sjóinn. „Margt var öðruvísi í þá daga og borgir eru eins og lífverur sem mótast með tímunum, en segjast verður eins og er að mér finnst ekki allt til bóta. Oft er eins og halli á gæði hönnunarinnar, manneskjan sjálf týnist. Í gamla daga var líka oft mikil natni lögð í handverkið og stundum voru almenningsrými og byggingar kannski hugsaðar af meiri stórhug“.

Hjólaði í Melaskólann

Magnús gekk í Melaskólann eða réttara sagt hjólaði þangað. „Ég eignast reiðhjól þegar ég var tíu ára svo ég gat því hjólað í skólann. Svo gekk ég í  Gagnfræðaskólann við Hringbraut sem var fyrirrennari Hagaskóla, en landsprófi lauk ég í gamla Stýrimannaskólanum þar sem var Gaggó Vest. Síðar var þar til húsa nýstofnaður Vesturbæjarskóli. Mér kemur í hug að síðar þegar ég var búinn að stofna fjölskyldu og eignast börn vorum við að skoða hugmyndir af nýjum skóla í Vesturbænum – Vesturbæjarskólanum því ég var formaður foreldrafélags á þeim tíma. Sá skóli náði þó ekki mínum börnum sem komin voru af aldri þegar fyrsti hluti hans var tekinn í notkun en afabörnin hafa verið það og eru sum enn þar. Að landsprófi loknu lá leiðin í MR. Þaðan fór ég fyrst til Skotlands en fljótlega til Englands. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á umhverfinu í kringum mig og einn hluti þess er byggingalist. Arkitektinn var farinn að blunda í mér en ekkert nám var í boði hér á landi í arkitektúr. Ég stundaði nám við Strathclyde University í Glasgow 1961 til 1962 en lauk prófi frá Oxford School of Architecture í Englandi 1968.“

Magnús ungur fyrir framan bifreið af gerðinni Buick árgerð 1953. 

Stofnuðum Torfusamtökin

Áhugi Magnúsar á húsvernd hófst snemma. „Já – upphafið að verndun húsa kemur að einhverju leyti frá námsárum mínum í Englandi. Þar er mikið af gömlum húsum sem móta umhverfið. Sjálfur bjó ég síðasta árið mitt í 400 ára gömlum Tudor cottage. Á þessum tíma voru að verða til hreyfingar um húsvernd og breytt skipulag borga bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og ekki má gleyma bókinni Livet mellem husene eftir danska arkitektinn Jan Gehl sem kom út 1971 og varð nánast okkar biblía. En sú bók kom einmitt loksins út á íslensku í fyrra sem minnir okkur á að skilaboðin og erindið eiga ennþá við. Svo hafði auðvitað bernskuumhverfið áhrif, öll bárujárnsklæddu timburhúsin sem ég ólst upp á meðal.

Á þessum tíma var ætlun yfirvalda að rífa Bernhöftstorfuna elstu götumynd borgarinnar sem var þá í mikilli niðurníðslu og talin nánast ónýt en þar átti að byggja stærðar stjórnarráðshús. Þá tókum við okkur til hópur fólks með áhuga á húsvernd og stofnuðum Torfusamtökin en fyrsti formaður samtakanna var Guðrún Jónsdóttir arkitekt. Á stofnfundinum flutti Megas kvæði sitt við eigin undirleik sem byrjaði svona:

Óli með ýturnar

afmá vill spýturnar

danskar fúnar og ljótar.

Eitt fyrsta verk okkar var að  mála framhlið allra húsanna. Litina valdi Magnús Tómasson myndlistarmaður sem stjórnaði aðgerðum. Þetta var heilmikil aksjón á fögrum laugardegi að vori. Lögreglan var í vafa um hvernig bregðast átti við en lét okkur í friði. Framhald þess máls þekkja allir. Hætt var við að rífa Torfubygginarnar, þær friðaðar, hafist handa við endurbyggingu þeirra og viðgerðir og þeim fengið hlutverk. Ég held að engum hafi komið til hugar á síðari árum að ráðast í nýbyggingar á þessum stað.“ Við héldum þá að við hefðum unnið stórsigur, að niðurrifi húsa yrði hætt en ballið var bara að byrja og stendur enn. Þótt skilningur á varðveislu húsa hafi stóraukist eru enn öfl sem meta  byggingararfleifðina lítils. Það eru helst peningaöflin.“

30 kílómetra götur og hraðahindranir

Svo stiklað sér á stóru í starfsævi Magnúsar þá rak hann eigin teiknistofu  í Reykjavík 1968 til 1970. Starfaði í Ósló á árunum 1970 til 1972. Rak síðan teiknistofu með Sigurði Harðarsyni frá 1974 til 1990. Magnús starfaði fyrir Húsafriðunarnefndar ríkisins 1993 til 2007 síðari árin sem forstöðumaður. Magnús fór snemma að huga að húsvernd í Vesturbænum. “Við, hópur áhugafólks um velferð hverfisins stofnuðum Íbúasamtök Vesturbæjar árið 1977. Hlutverk þeirra samtaka var m.a. að sporna gegn niðurrifi húsa, fella tré til að gera bílastæði og bætts umhverfis. Og einnig að vinna að öryggi barna en slys á gangandi börnum voru allt of tíð. Við beittum okkur fyrir að settar voru upp hraðahindranir og að 30 kílómetra hámarkshraði yrði settur á íbúðagötur. Fyrsta 30 kílómetra hverfið í Reykjavík var Gamli Vesturbærinn og þar með fyrstu hraðahindranirnar. Ég hannaði þær fyrstu minnir mig í Garðastræti en þær voru þannig gerðar að gangstéttin var framlengd þvert yfir götuna sem auðveldar umferð fólks með barnavagna og hjólandi eða gangandi. Þannig vil ég enn hafa hraðahindranir en ekki ljótar malbiksklessur eins og sjást of víða. Þótt ég sé yfirleitt á móti einstefnum gatna reyndist nauðsynlegt að setja einstefnu á vestasta hluta Vesturgötu vegna þess að ökuhraði þar náði ekki ósjaldan allt að 70 km hraða, fólk á leið í bæinn eins og það var kallað. Þá voru kortlagðar gönguleiðir skólabarna og þveranir gatna ákvarðaðar eftir þeim. Þessar aðgerðir höfðu fljótt góð áhrif, hægðu á bílaumferðinni og slys á börnum nánast hættu. Áhuginn á íbúamálum í Vesturbænum hefur líka erfst á milli kynslóða því Ásta Olga dóttir mín er nú formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar.“

Hækka gatnamót og lýsa gangbrautir

Magnús segir að umferðarmálin í Vesturbænum séu sér ofarlega í huga einkum Hringbrautin. “Hringbrautin sker í sundur Vesturbæinn eins hann er í dag. Hún er önnur umferðargatan af einungis tveim til að komast út á Granda og Seltjarnarnes. Umferð er því gríðarleg og of hröð og á eftir að aukast því mikið stendur til að byggja út við sjó. Yfir þessa götu þurfa börnin úr gamla Vesturbæ að fara til að sækja m.a. íþróttir, tónskóla og Hagaskóla svo eitthvað sé nefnt. Hér áður var þetta leyst að hluta með strætó sem hét Austurbær-Vesturbær hraðferð og Seltjarnarnes vagninum sem gekk eftir Vesturgötu, Bræðraborgarstíg og út Kaplaskjólsveg. Strætisvagna af minni gerð sárvantar bæði í Vesturbæ og Miðborgarsvæði. Vagnar sem fara í gegnum hverfin.“

Skjólsæl og upphituð strætóskýli

„Ég sé fyrir mér að þetta verði leyst með sjálfakandi nettum rafmagnsvögnum í framtíðinni. En það þarf líka að grípa til aðgerða strax. Þær gætu falist í að gatnamótum Hringbrautar yrði upp í gangstéttarhæð með breyttu yfirborði þar sem væru gönguleiðir með alveg sérstakri lýsingu. Þetta er meðal tillagna sem hafa komið frá Íbúasamtökum Vesturbæjar um bætt öryggi barna. Hvað varðar hina miklu bílaumferð um götuna er vonast til að hún minnki með bættum almenningasamgöngum sem ganga að vísu hægt. Til gamans get ég rifjað upp að á árunum 1978 til 1982 þegar við komum að stjórn borgarinnar lögðum við til bætt strætisvagnakerfi með aukinn tíðni og upphituðuð biðskýlum. Það var blásið á þá hugmynd því þá var bara einkabíllinn í forgangi. Í vændum er að bæta strætókerfi en því ekki að hafa skjólsæl og upphituð skýli í stað þeirra skjóllitlu sem nú eru.”  

Háhýsavæðingin – ekki til að auka gæði

Annað sem veldur Magnúsi áhyggjum eru of háar byggingar sem hafa verið og eru að rísa og eru enn á teikniborðunum. “Háar byggingar mynda skugga, magna upp vind og taka oft útsýni frá öðrum. Hér hefur þróunin orðið sú að reisa háar byggingar yst við sjóinn en byggja lægra baka til. Þannig er verið að skerma sjóinn af með háhýsum. Þetta er að mínu mati ekki til að auka gæðin í borgarrýmunum. Því þarna er ekki verið að byggja manneskjulegt umhverfi þar sem gott er að ganga, hjóla eða bara vera, heldur þveröfugt. Á okkar norðlægu slóðum verður ekkert líf á milli hús ef byggt er þannig að skuggavarp sé í hámarki. Eins og skuggavarp getur verið notalegt í heitu loftslagi, þá er það jafn ónotalegt hér hjá okkur. Ég tel því að hámarkshæðir í íbúðarhverfum eigi að vera þrjár hæðir. Það skiptir líka máli hversu langir veggir eru, hvor sól og birta kemst inná milli.

Kannanir sýna að börn verða frekar veik ef sólar og birtu nýtur ekki við. Um það skrifaði m.a. Guðmundur Hannesson læknir fyrir 100 árum. Með rangri byggingarstefnu í borginni mætti jafnvel segja að byggt hafi verið heilsuspillandi húsnæði, a.m.k. að hluta til. Það er líka heilsuspillandi að búa til bílaborg eða umhverfi sem hvetur fólk ekki til þess að hreyfa sig. Sem betur fer er mikil umræða um lýðheilsu og breyttar samgöngur í dag en við þurfum að gera miklu betur til þess að sýna að vilji sé í alvöru fyrir hendi. Vilji til þess að búa til borg fyrir fólk og láta peningaöflin lúffa. Stór hluti vandans eru ofurbyggingarheimildir í deiliskipulagi frá því eftir 2000. Fjárfestar sem telja sig eiga þann rétt gefa lítið eftir og borgaryfirvöld hafa ekki treyst sér til að minnka þann rétt nema að hluta vegna ótta um fébætur. Mikil vinna hjá starfsfólki borgarskipulags hefur farið í að leiðrétta þessi mistök og hefur töluvert áunnist eins og varðveisla húsa við Laugaveg eða Alliance hússins. Enn er samt tekist á um niðurrif á því svæði og nú síðast við Vatnsstíg. Það er gamla sagan að slagurinn stendur um úreltar heimildir í skipulagi.“

Vandi að byggja inn í eldri byggðir

Mikil þétting byggðar hefur átt sér stað að undanförnu í Reykjavík. Hvað segir Magnús um hana. Hann segir þetta hugtak megi rekja allt aftur til áranna frá 1978 til 1982. Þá hafi verið skipulögð byggð og byggt á auðum svæðum eins og t.d. Ártúnsholti og Suðurhlíðum.  Lág og þétt byggð. “Á þeim tíma lá fyrir frábær tillaga Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts að þéttingu byggðar frá Laugavegi niður að sjó sem tók mið af þeirri byggð sem fyrir var. Þeirri tillögu var hafnað af nýrri borgarstjórn sem tók við árið 1982 og byrjað var síðan að byggja háhýsin við Skúlagötu ofan í lágreistri byggð við Lindargötu ásamt niðurrifi á stórmerkilegum húsum úr atvinnu- og byggingarsögunni. Sennilega mesti skaði sem hefur verið unnin í Reykjavík frá upphafi. 

Svo tók við önnur borgarstjórn í öðrum lit árið 1994 og þá var bætt í hæðina við Skúlagötu með árangri sem flestir þekkja. Ég held að flestir geti verið sammála um að þétta eigi byggð. En það er ekki sama hvernig það er gert. Það á ekki að þétta þar sem hún er þéttust og lóðaverð hvað hæst. Árangur af því sjáum við í dag með íbúðum sem ekki er markaður fyrir. Það virðist sem hugmyndin um fallega sýn um þéttingu byggðar hafi þynnst út og farið var að nota þéttingu byggðar yfir allskonar útfærslur sem unnu gegn upphaflegu hugmyndafræðinni.“

Hugmyndir að byggingum við Mýrargötu. Á gamla leiksvæði Magnúsar Skúlasonar.

Lítið hlustað á athugasemdir

“Þegar ég horfi til æskustöðva minna í Vesturbugtinni og míns gamla leiksvæðis þar sem var Danielsslippurinn niður af Bakkastíg verður mér hugsað til nýsamþykkts deiliskipulags þar sem eiga að koma of háar byggingar og úr takti við hin fíngerða mælikvarða byggðarinnar fyrir ofan. Reykjavíkurborg á þetta landsvæði og því þarf ekki að semja við lóðareigendur um nýtingu. En um það eru skýrar reglur í menningarstefnu í mannvirkjagerð og aðalskipulagi hvernig eigi að byggja í eldri hverfum: Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Íbúasamtökin og íbúar hverfisins hafa gert athugasemdir við þetta en það er lítið á það hlustað.

Hábyggingar og lúxusíbúðir

Nú stendur til að byggja á fjörum reitum vestast í borginni við Ánanaust, Bykoreit, Landhelgisreit og Héðinsreit. “Ég óttast mjög að þar muni bygginnar rísa hátt og við eigum eftir sjá auglýstar lúxusíbúðir með frábæru útsýni, sem að hefur verið tekið frá öðrum, og verðlagið verður eftir því. Stígurinn með fram sjónum sem er sameiginleg eign borgarbúa verður líklega ennþá meira í skugga alla morgna vegna þessara bygginga. Þétting má því ekki ekki fara úr böndum þannig að hún komi niður á þeim íbúum sem fyrir eru. Það virðist því miður stöðugt vera gerast. Það er raunalegt að íbúar þurfi að standa í stappi við borgaryfirvöld sem eiga að gæta hagsmuna þeirra. Munum sjá það m.a. á Bykoreitnum á horni Hringbrautar og Ánanausta þar sem nú er verið að auglýsa nýtt deiliskipulag. Þar er fyrirhuguð byggð langt úr takti Gamla Vesturbæjarins og vísað til þegar byggðra blokkabygginga sem verða að skoðast sem skipulagsmistök. Síðan er bætt duglega við. Deiliskipulagið er greinilega einnig í andstöðu við gildandi markmið Aðalskipulags 2010 til 2030 sem eru að borg fyrir fólk sé leiðarljós aðalskipulagsins. Í stað höfuðáherslu á aukið byggingamagn er sjónum beint að hinu smáa og fíngerða í borgarumhverfinu. Æskilegt er að til verði þétt, fjölbreytt og skjólsæl byggð í manneskjulegum mælikvarða. Markmið aðalskipulagsins er að skapa borg þar sem húsið, gatan og opna rýmið er myndar órofa heild. Það eru líka skýr markmið í Menningarstefnu í mannvirkjagerð hvernig byggja á nýtt í eldri hverfum: Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.” Magnús bætir við í lokin að fræðsla um hönnun og gæði borgarumhverfis skipti líka gríðarlegu máli og bót sé í máli að komin sé arkitektadeild í Listaháskólanum hér.” Magnús hefur sjálfur kennt smiðum í áraraðir aðferðir við viðhald og uppbyggingu gamalla húsa sem og veitt ráðgjöf á Árbæjarsafninu til almennings sem er að gera upp húsin sín. Þá er Magnús þekktur um allt land vegna ráðgjafar um viðhald og endurgerðir gamalla kirkja sem prýða sveitir okkar og skipa svo stóran sess í menningarsögu og byggingarlist Íslendinga.

Tillaga að byggingum á Héðinsreit. Magnús segir þessa tillögu aldrei koma til framkvæmda enda um skelfilega hugarsmíð peningaafla að ræða.


You may also like...