Ég byggi þetta á minni reynslu
– segir Bragi Ólafsson rithöfundur um nýútkomna bók sína Stöðu pundsins –
Í nýútkominni bók Braga Ólafssonar Stöðu pundsins, sem nýlega var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, segir frá mæðginunum Möddu og Sigurvin sem ákveða að heimsækja gamlan vin látins fjölskylduföðurins sem er búsettur á Englandi. Í fjörunni við Ægisíðu átti sér stað mikilvægur atburður í sögu Braga. Bragi segir að í grjótinu þar hafi vendipunktur sögunnar átt sér stað. Faðirinn í þessari litlu fjölskyldu hafi ákveðið að koma þangað til þess að enda líf sitt. Bragi hefur skrifað fjölda skáldsagna og smásagna, en einnig ljóð og leikhúsverk. Í Stöðu pundsins birtast ásamt aðalpersónunum nokkrar persónur sem lesendur Braga þekkja úr fyrri verkum hans. Meðal annarra má nefna Níels Pietur og Ármann Val Ármannsson, og tónskáldið Markús Geirharð, sem segja má að hafi sigrað hjörtu margra lesenda fyrri skáldsagna Braga. Vesturbæjarblaðið settist niður með höfundinum á Kaffivagninum að morgni til nú á dögunum.
Bragi neitar ekki að atburðir úr eigin lífi endurgerist í sögunni. „Ég byggi þetta mikið til á eigin reynslu og atburðum í fjölskyldu minni, aðallega móðurfjölskyldu, en hnika öllu til og sný á haus. Þetta er skáldsaga, en hefur undirtitilinn „sjálfsævisaga, en ekki mín eigin“. Þess má geta að móðir Braga er Soffía Mary Sigurjónsdóttir, fyrrum bankastarfsmaður sem nú býr á Seltjarnarnesi og hefur lagt listmálun fyrir sig eftir að hún fór á eftirlaun. Faðir Braga var Ólafur Stefánsson, lögfræðingur, sonur Stefáns Jóhanns Stefánssonar frá Dagverðareyri við Eyjafjörð, alþingismanns og forsætisráðherra um skeið. Ríkisstjórn hans var gjarnan nefnd eftir honum og kölluð Stefanía.
Ég er enn Vesturbæingur
Eftir að hafa gætt sér á Kaffi Ameríkanó var Bragi inntur eftir tengslum sínum við Vesturbæinn fyrr og síðar. “Ég er enn Vesturbæingur. Alla vega að hluta enda nýlega fluttur austur yfir læk. Ég hafði áður búið við Suðurgötuna í 12 ár, í húsi þar sem leikarahjónin Helgi Skúlason og Helga Bachmann bjuggu lengi. Við erum nú flutt í Túnin, sem áður töldust til Austurbæjarins, en eru þó líklega hluti af miðbænum í dag. Ég er þó mikið með annan fótinn í Vesturbænum. Yngri dóttir mín er nýbyrjuð í Hagaskóla og ég er mikið á ferðinni á mínum gömlu slóðum. Ég gekk sjálfur í þessa grónu skóla í Vesturbænum, Melaskóla og Hagaskóla. Fór síðan í Versló, þótt ég hefði í raun ekkert að gera þangað. En það var einhver uppreisn í mér gagnvart MR í þessum tíma, eins og hjá fleiri vinum mínum. Eftir á finnst mér þó ágætt að hafa lokið verslunarprófi, því það skilaði mér góðri vélritunarkunnáttu, auk þess sem ég lærði að setja upp verslunarbréf, sem nýttist mér vel við að skrifa Stöðu pundsins. Ég lauk aftur á móti stúdentsprófi úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, frá nýmálasviði. Sá skóli átti betur við mig.”
Í Purrki Pillnikk og Sykurmolunum
Svo fórstu að skrifa? „Ég var í raun farinn að skrifa um fermingaraldurinn. Við Friðrik Erlingsson rithöfundur vorum nánir vinir á þessum tíma og fylgdumst að í tónlist og textagerð. Við sendum hvor öðrum þykk og mikil bréf með sögum og ljóðum. Fyrsta ljóðabókin mín, Dragsúgur, kom út 1986, sama ár og ég tók þátt í að stofna útgáfufyrirtækið Smekkleysu og hljómsveitina Sykurmolana. Ég hafði áður spilað með Purrki Pillnikk, með þeim Friðriki og Einari Erni.“ Of langt mál yrði að rekja sögu þessara hljómsveita en þar starfaði Bragi með Björk Guðmundsdóttur, Einari Erni Benediktssyni, Þór Eldon, Sigtryggi Baldurssyni, Margréti Örnólfsdóttur og fleirum. Sykurmolarnir voru brautryðjendur á sviði íslenskrar tónlistar á sínum tíma, og Smekkleysa á sér langa og merkilega útgáfusögu. „Já. Smekkleysa er reyndar enn til, þótt útgáfan sé orðin minni. Við höldum úti lítilli plötubúð á Óðinsgötunni. Reksturinn hefur þó á síðustu árum verið nokkuð erfiður. Árið 2006 var fjárhagsstaðan orðin slík að við brugðum á það ráð að endurlífga Sykurmolana fyrir eina tónleika í Laugardalshöll, og reistum þannig við fjárhag Smekkleysu – að minnsta kosti í bili.”
Fannst Magnús Tómasson lifa draumalífi
“Ég bjó um tíma í rauðu timburhúsi við Vesturgötu 53B sem stóð á horni Vesturgötu og Framnesvegar, húsi sem löngu er búið að rífa. Ég var í sumarvinnu í Daníelsslipp á þeim tíma, og gekk niður Bakkastíginn í vinnuna, frá Vesturgötunni niður á Mýrargötu. Við Bakkastíginn bjó Magnús Tómasson myndlistarmaður, og mér er það mjög minnisstætt að hafa oft séð hann fyrir utan húsið sitt klukkan hálfátta á morgnana með logandi Pall Mall sígarettu, væntanlega að undirbúa listsköpun dagsins, á meðan ég var á leiðinni í einhverja leiðinda útivinnu. Ég sá þetta fyrir mér sem draumalífið: að vera sjálfstæður listamaður. En það var oft fjör á Vesturgötunni. Ásmundur Jónsson, eða Ási í Gramminu, var þá búinn að stofna Grammið með Einari Erni og var með reksturinn í kjallaranum undir hæðinni þar sem ég bjó. Það var mjög mikið að gerast í kringum Grammið, mikil gróska, alveg ógleymanlegur tími. Grammið fluttist síðan upp á Laugaveg þar sem gamla Plötuportið var. Plötuportið kemur reyndar fyrir í nýju bókinni minni, enda gerist sú saga að mestu leyti árið 1976, og fjallar að stórum hluta um popptónlist. Og það að kaupa sér plötur, meðal annars frá Englandi.”
Á stúdentsprófið Megasi að þakka
Einhverra hluta vegna víkur talinu að Megasi, en Bragi kynntist honum um tvítugsaldurinn, og spilaði á bassa með honum um tíma, meðal annars á tveimur plötum með hljómsveitinni Íkarus. “Það má eiginlega segja að Megas hafi komið mér í gegnum stúdentsprófið,“ segir Bragi brosandi. „Ég átti bara einn stærðfræðiáfanga eftir í MH, til að klára skólann, og hafði fallið í þeim áfanga tvívegis. Ég var eitthvað að barma mér yfir því við Megas, og þá datt honum í hug að gefa mér lítið kver sem heitir að mig minnir Stærðfræðileg formúluljóð, sem innihélt vísur og stökur með stærðfræðiformúlum. Ég las þetta kver áður en ég fór í prófið, þriðju tilraunina, og flaug í gegnum áfangann, fékk meira að segja hæstu einkunn. Ég efast reyndar um að formúluljóðin hafi í raun komið að einhverju gagni, en um svipað leyti hafði Megas gefið mér nokkrar mjög þunnar bækur með örleikritum Samuels Beckett, og eftir á að hyggja finnst mér skemmtileg tilhugsun að þær bækur hafi frekar en formúluljóðin nýst mér í stærðfræðinni, þótt áhrifa Becketts gæti mjög lítið í því sem ég hef skrifað síðan. Held ég.”
Lærði að vinna á daginn
Fórstu eftir þetta út á ritbrautina? “Ég var alltaf með annan fótinn þar þótt tónlistin hafi verið fyrirferðarmeiri á þessum tíma. En eftir að Sykurmolarnir hættu fór ég að vinna á auglýsingastofu, við textagerð og prófarkalestur, og var þar í fimm ár með hléum. Þar vandist ég hefðbundnum vinnutíma, að vinna frá níu til fimm. Sem hefur nýst mér vel æ síðan, enda krefjast ritstörf ákveðinnar reglu, að minnsta kosti í mínu tilviki.”
Í nálægð við anda Laxness
Bragi kveðst hafa búið á nokkrum stöðum í Vesturbænum áður en hann flutti í hús Helgu og Helga við Suðurgötuna. „Ég bjó meðal annars við Hagamel, Grenimel, Kvisthagann og Fálkagötuna. Á Fálkagötunni, í hinni svokölluðu Hollywoodblokk, bjuggum við í sama stigagangi og Halldór Laxness hafði átt íbúð á efstu hæð. Eftir það fluttum við í hús á Laufásvegi 25, en þar hafði Halldór Laxness líka búið, á efstu hæð, með fyrri konu sinni, Ingibjörgu Einarsdóttur. Og Kristmann Guðmundsson reyndar líka, en hann og Laxness áttu sama tengdaföður um tíma, Einar Arnórsson. Af Laufásveginum fórum við síðan beint í vestur, yfir Tjörnina, á Suðurgötuna, þar sem Halldór Laxness kom enn og aftur við sögu.” Bragi segir að nokkuð sérstök tilfinning hafi fylgt því að flytja inn í þetta hús. „Ég hafði alveg frá því ég mundi eftir mér tekið eftir þessu sérstaka húsi við kirkjugarðinn. Og í endurminningunni var það fyrsta sem vakti athygli mína þegar ég kom inn í húsið ein lítil, ryðguð nál, eða nagli, í ramma á veggnum í forstofunni. Sagan á bakvið þann hlut var sú að Helga og Helgi höfðu sýnt Halldóri Laxness nálina einhverju sinni þegar hann kom í heimsókn, þau höfðu fundið hana í garðinum, og Halldór hafði strax þóst vita hvað þetta væri. Þetta kæmi frá Magnúsi í Melkoti, bænum sem var fyrirmyndin að Brekkukoti Björns í skáldsögu Halldórs. Melkot hafði staðið rétt hjá húsinu við Suðurgötuna, á lóðinni þar sem Ráðherrabústaðurinn stendur. Magnús hefði líklega notað nálina við að riða net.”
Á „beinu brautinni“ frá 2001
Bragi segist hafa farið á beinu brautina árið 2001. „Þá fékk ég full rithöfundalaun í fyrsta skipti og gat leyft mér að yfirgefa auglýsingastofuna. Og í vissum skilningi má segja að lífið hafi verið tíðindalítið síðan, hafi meira átt sér stað í höfðinu.” Bragi glottir eilítið að þessum orðum sínum, en frá því hann sagði skilið við hinn almenna vinnumarkað hefur hann gefið út fjölda bóka og leikrita. Og hann er enn að. Situr við skriftir í Miðborginni eða Austurbænum, og heimsækir Vesturbæinn nær daglega. “Hér hefur ansi margt breyst og flest til batnaðar. Þótt auðvitað sé það synd að rauða húsið við Vesturgötuna hafi verið rifið.” Hann lítur út um gluggann á Kaffivagninum. Örfiseyjan og Grandinn eru orðin allt önnur. „Hér hefur orðið til mjög skemmtilegt umhverfi með fyrirtækjum, verslunum og veitingastöðum.” Það líður að hádegi og svanga ferðamenn drífur að. Matarlykt er að fylla vitin en við Kaffi Ameríkanómennirnir göngum út í góða veðrið. Jólafastan orðin að öfugmæli og bókavertíðin í fullum gangi.