Undirskriftasöfnun samþykkt
– Hollvinasamtök Elliðaárdalsins vilja að deiliskipulag verði endurskoðað –
Borgarráð hefur samþykkt erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga með þeim fyrirvara að undirskriftasöfnunin og íbúakosningin fjalli ekki um lögformlegt gildi deiliskipulagsins fyrir Stekkjarbakka Þ73, þar sem slíkt stenst ekki lög.
Erindi stjórnar Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í Reykjavík barst Reykjavíkurborg desember sl. Í tilkynningu samtakanna kemur fram að ætlunin sé að knýja fram íbúakosningu um deiliskipulagið fyrir Stekkjarbakka, sem borgarstjórn samþykkti 19. nóvember s.l. og auglýst var í Stjórnartíðindum 25. nóvember sl.” Í erindi Hollvinasamtakanna kemur fram að hugsun samtakanna sé sú að deiliskipulag Stekkjarbakka verði fellt úr gildi í íbúakosningu. Eins og fram kemur í umsögn skrifstofu borgarstjórnar stenst það ekki lög. Deiliskipulag verður ekki fellt úr gildi með íbúakosningu. Deiliskipulagið hefur þegar öðlast lögformlegt gildi og verður aðeins breytt með endurskoðun á því í samræmi við málsmeðferðarferla í skipulagslögum og að viðlagðri bótaábyrgð Reykjavíkurborgar. Atkvæðagreiðsla gæti hins vegar snúist um það að Reykjavíkurborg myndi hefja endurskoðun á deiliskipulagi að virtum þessum málsmeðferðarreglum og hugsanlegri bótaábyrgð. Ekkert er því til fyrirstöðu að fram fari undirskriftasöfnun og íbúakosning án þess að hún sé beinlínis tengd við þá stjórnvaldsákvörðun sem þegar hefur verið tekin með samþykkt og gildistöku.