Hugmyndin að “brúa” þetta bil
– sem verður á milli krakka sem nýta félagsleg frístundaúrræði og þeirra sem gera það ekki –
„Við sem erum í þessum hóp í verkefnastjórnun í Háskólanum í Reykjavík fengum það verkefni á þessari önn að finna samfélagslegt verkefni. Við hugsuðum okkur aðeins um en kom svo til hugar að hafa samband við Þorvald Danílesson eða Þorvald hjólakappa, sem stofnaði og hefur leitt félagsskapinn Hjólakraft. Þorvaldur var strax til í samstarf og nú erum við að fara af stað í samstarfi við hann með félagsaðstöðu í Völvufelli 21 sem við köllum Brúna. Þorvaldur sýndi okkur þessa aðstöðu sem er hér. Þetta eru tvö bil á efri hæð húsnæðis þar sem gamla Breiðholtsbakarí var til húsa og Nýló er með aðstöðu á neðri hæðinni í dag. Þar sem við erum var bókabúð fyrr á tímum en húsnæðið var notað til íbúða undanförnu. Með kaupum Reykjavíkurborgar á fasteignum í Völvufellinu losnaði um þetta húsnæði,“ segir Þórunn Kjaran Gunnarsdóttir ein úr verkefnahópnum.
Þau segja markmiðið með þessu verkefni vera að fá krakka sem erfitt hefur verið að ná til að koma og slást í hóp með öðrum. Einkum krakka sem lítið eða ekkert hafa notfært sér frístundakort Reykjavíkurborgar. Draumurinn sé að fá sem flesta krakka til koma og vera með. Ástæða þess að leitað var til Þorvaldar er að hann hefur mikla reynslu af að vinna með krökkum samanber starf hans með Hjólakrafti. Hann er einnig þekktur í hverfinu og nýtur velvildar fyrir störf sín. Hlutverki námshópsins líkur í lok vorannar en með Þorvald í brúnni segja þau málið í góðum höndum. Þorvaldur segir að nýta megi ýmsar hugmyndir til þess að finna viðfangsefni fyrir krakkana. Hann er nú að leggja lokahönd á húsnæðið. Hann leggur áherslu á fjölbreytni. Að eitthvað verði fyrir sem flesta en einnig að vera megi út af fyrir sig. Á háalofti sem er yfir plássinu er hann búinn að koma fyrir dýnum og púðum þar sem krakkar geta verið hvort sem er ein með sér eða nokkur saman. Þarna er líka að finna setustofu, saumaherbergi og fleiri afderp. Í hinum hluta eða hinu bili húsnæðisins er Þorvaldur búinn að koma upp klifurvegg þar sem krakkar geta spreytt sig á að klifra. Hann segir sum krakka þurfa hreyfingu og að reyna á sig á meðan öðrum láti betur að hafa hægra um sig. Fellin eru byggð fjölmenningar þar sem fólk af margvíslegum uppruna hefur komið sér fyrir. Þorvaldur segir að fólki gangi misjafnlega að laga sig að nýju umhverfi. Of reynist aðlögunin fullorðna fólkinu erfiðari og krökkunum. Það sé stundum fastara í vana og eigi líka erfiðar með að tileinka sér nýtt tungumál og ólíkt móðurmáli þess. Þetta geti tafið fyrir að fólk aðlagist og má vera ástæða þess að krakkar aðfluttra fjölskyldna njóta ekki eins félagslegra úrræða sem þeim stendur til boða. Hann segir að með Brúnni sé hugmyndin að “brúa” þetta bil. Fá krakkana til þess að koma og finna sér viðfangsefni eða jafnvel bara að koma og hitta aðra krakka.