Geðheilsustöðin í Breiðholti hlaut nýsköpunarverðlaunin
Geðheilsustöðin í Breiðholti hlaut nýsköpunarverðlaunin 2015 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, sem afhent voru á ráðstefnu á Grand hótel föstudaginn, 23. janúar.
Verðlaunin voru í dag afhent í fjórða sinn og að þessu sinni voru um 50 verkefni tilnefnd. Verkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem bar sigur úr býtum nefnist „Geðheilsustöðin í Breiðholti“. Með Geðheilsustöðinni er ætlunin að veita fullorðnum einstaklingum sem greinst hafa með geðraskanir heildræna þjónustu og draga með því m.a. úr innlögnum á geðsvið Landspítalans. Innan Geðheilsustöðvarinnar starfar þverfaglegur hópur fagfólks sem vinnur eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og öðlast aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynslu þeirra sem hafa náð bata af geðröskunum og hafa fyrrum notendur þjónustunnar orðið liðveitendur. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að innlögnum frá íbúum í Breiðholti á geðsvið Landspítalans hefur fækkað um 28% frá því að Geðheilsustöðin tók til starfa.