Stígar og tré Breiðhyltingum hugleikin
Breiðhyltingar vilja laga stíga og gróðursetja tré. Þetta kom glöggt fram í hverfakosningunum Betri hverfi 2015.
Þar kusu þeir um tuttugu verkefni sem eru metin á 70 milljónir króna en til framkvæmda eru rúmlega 46 milljónir króna í hverfapotti Breiðholts. Á meðal þess sem þeir leggja til að framkvæmt verði er að stígurinn á milli Fella- og Hólahverfis verði lagfærður, að kröpp beygja á göngustíg á horni Núpabakka og Arnarbakka verði lagfærð og einnig lagðir stígar í Seljahverfi. Aðrar hugmyndir sem lagðar eru fram í Breiðholti er m.a. að fegra borgarlandið umhverfis Mjóddina, gróðursetja tré á lóðinni að Hólabergi 84 og setja upp ungbarnarólur á róluvöllum í Breiðholti.