Umfangsmiklar viðgerðir á Breiðholtskirkju
„Ég ætla mér að messa í kirkjunni uppi á jólunum,“ segir séra Magnús Björn Björnsson prestur í Breiðholtskirkju þar sem hann situr að skrafi með tíðindamanni Breiðholtsblaðsins í lítilli skrifstofu í kjallara kirkjunnar. Við hliðina á skrifstofu prestsins, sem hann deilir með djákna kirkjunnar er kjallarasalurinn eða samkomusalurinn sem þjónar sem hin eiginlega kirkja þessa dagana. Á efri hæð kirkjunnar – í kirkjuskipinu sjálfu er öllu umturnað og iðnaðarmenn á hverju strái. Einnig á toppi kirkjunnar þar sem verið er að skipta um þak og glugga auk margra annara nauðsynlegra lagfæringa.
„Kirkjan hefur legið undir skemmdum um árabil og ekki seinna vænna en að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir og viðhald,“ segir séra Magnús. „Loksins tókst að fá nokkurt fé til framkvæmda, styrk til að gera við þakið, en þetta er mikið átak fyrir fámennasta söfnuðinn á höfuðborgarsvæðinu. Söfnuðurinn er á stærð við það sem gerist í þorpi eða byggðarlagi úti á landi. Vegna þessa verðum við að leita til sóknarbarna um stuðning. Við ráðum sæmilega við viðgerðirnar að því að séð verður en þá er rekstur safnaðarins eftir og einnig ýmsar lagfæringar sem þarf að vinna vegna langvarandi skorts á viðhaldi. Þar á meðal að setja orgelið upp að nýju en taka varð það niður vegna framkvæmdanna. Þetta er gott hljóðfæri – 19 radda pípuorgel smíðað af Björgvin Tómassyni 1998. Ég veit að við eigum velunnara hér í sókninni og máltækið segir að margt smátt geri eitt stórt. Litlar upphæðir frá hverjum og einum geta valdið miklu þegar saman eru komnar. Ég er því ekkert kvíðinn framtíðinni. Með samtakamætti mun þetta hafast.“
Heimasöfnuður og alþjóðlegur söfnuður
Breiðholtskirkja er sérstök. Eiginlega er um listaverk að ræða þegar horft er til arkritektúrs. Indíánatjaldhugmyndin var útfærð í nútíma byggingarverki. Kirkjan er auk þess staðsett í fallegu umhverfi þar sem Reykjavíkurborg vinnur nú að því að laga og bæta enn frekar. Kirkjan stendur í Mjóddinni og er því miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Söfnuðurinn var stofnaðar 1972 þegar Neðra Breiðholt var að mestu byggt og einskorðaður við það svæði. Nú hafa söfnuðirnir við Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju verið gerðir að einum en ætlunin er að nýta báðar kirkjurnar til helgihalds og annars safnaðarstarfs í framtíðinni. Séra Magnús segir að fjölbreytni Breiðholtsins endurspeglist í kirkju- og safnaðarstarfi. Tveir söfnuðir starfa nú í Breiðholtskirkju. Heimasöfnuðurinn og Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju. Hann hefur aðsetur í kirkjunni og þar er starfsstöð séra Toshiki Toma sem er prestur innflytjenda.
Spennandi tímar en einnig áskoranir
Séra Magnús segir að fram undan séu spennandi tímar en einnig miklar áskoranir. „Við viljum þjóna sóknarbörnunum vel. Fyrir utan safnaðarstarfið eru AA samtökin með fundi hér og á síðasta ári voru PEPP samtökin sem eru grasrótarsamtök sem berjast gegn fátækt og að rjúfa einangrun fátæks fólks með aðstöðu hér en hafa nú fegnið góða aðstöðu í Mjóddinni.“ Séra Magnús segir að vegna covitbygljunnar sé safnaðarstarfið í lágmarki um þessar mundir en um leið og hún líði hjá sem allir vona fari starfið á fulla ferð að nýju. Eftir áramótin sé ætlunin af fara af stað með svonefnt Alfa námskeið. Námskeiðið verður bæði á íslensku og ensku og þar tilvalið tækifæri til þess að kynnast bæði trúnni og fólkinu í söfnuðinum.“
Fjölbreytt safnaðar- og félagsstarf
Öflugur sunnudagaskóli er í kirkjunni og að kyrrðarstundir eru þar alla miðvikudaga. Þá má nefna að eldri borgarar eiga sér félagsstarf í Breiðholtskirkju. Séra Gísli Jónasson prófastur og fyrrum sóknarprestur í Breiðholtssókn hefur starfsaðstöðu í kirkjunni ásamt héraðspresti Eystra Reykjavíkurprófastdæmis. „En það sem brennur á okkur þessa dagana er að ná endum saman vegna viðgerðanna. Þær voru löngu komnar á tíma og að þeim loknum mun mannvirkið verða í góðu ásigkomulagi. Ég hef tilfinningu fyrir að í kirkjunni felist ákveðið stolt á meðal sóknarbarna og jafnvel Breiðhyltinga. Ég á von á að þeir bregðist vel við að létta undir með okkur. Vonir standa til að framkvæmdum við kirkjuna muni ljúka í desember þannig að orð mín hér í upphafi geti reynst að sönnu.”