Íþrótta- og frístundatengill tekinn til starfa í Breiðholti
Jóhannes Guðlaugsson uppeldisfræðingur og Breiðholtsbúi með áralanga reynslu af störfum innan frístundageirans og íþróttahreyfingarinnar er tekinn til starfa á Þjónustumiðstöð Breiðholts sem íþrótta- og frístundatengill í Breiðholti. Hann mun verða í nánu samstarfi við starfsfólk grunnskólanna, frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs og íþrótta- og frístundaðila í Breiðholti.
Næstu þrjú árin verður unnið markvisst að því að fleiri og fleiri börn og unglingar í Breiðholti taki þátt í íþrótta- og frístundastarfi og nýti auk þess frístundakortið í meira mæli en verið hefur. Hlutverk grunnskólanna, frístundaheimilanna og félagsmiðstöðvanna verður að finna börn og unglinga sem eru óvirk í íþróttum eða frístundum en hefðu hugsanlega áhuga á að prófa. Hlutverk Jóhannesar sem íþrótta- og frístundatenglis verður að koma þessum aðilum til aðstoðar við að afla frekari upplýsinga um áhugasvið krakkanna og afla leyfis og stuðnings foreldra til að kanna þátt-tökumöguleika krakkanna. Þegar að liggur fyrir hvaða íþrótt eða frístundmöguleika krakkarnir vilja prófa undirbýr Jóhannes þá aðila sem taka á móti barninnu. Ræðir við þjálfara/kennara/leiðbeinanda viðkomandi félags, dansskóla, félagsmiðstöðvar eða tónlistarskóla um hvenær væri heppilegast að mæta sem nýliði og hvers mætti vænta í fyrsta skiptið. Jóhannes fylgir svo viðkomandi barni þegar hann mætir í fyrsta skipti og hjálpar til eftir þörfum. Ef að viðkomandi barn þarf frekari stuðning t.d. við mætingu í nokkur fyrstu skiptin verður sá stuðningur veittur og metið eftir gengi barnsins hvenær dregið verður úr stuðningi.
Að hafa augun opin
Íbúar, vinir og foreldrar eru sérstaklega beðnir um að hafa augun opin fyrir börnum og unglingum sem þau þekkja og eru óvirk í frístundastarfi. Finnið út hvort áhugi sé fyrir hendi til að prófa að taka þátt og hafið svo samband við Jóhannes íþrótta- og frístundatengil sem gefur allar upplýsingar um hvaða möguleikar eru í boði í hverfinu og hjálpar einnig til við að finna lausnir utan hverfis ef þarf.
Með samstilltu átaki og hvatningu allra í Breiðholtinu getum við fjölgað þeim börnum og unglingum umtalsvert sem fá að njóta þess að stunda uppbyggilegar íþróttir, listir eða frístundir þar sem þeim gefst tækifæri til að ná árangri á sínu áhugasviði um leið og þau tengjast vinaböndum og félagsskap við hæfi.
Íbúar í Breiðholti eru hvattir til að nýta sér þjónustu Jóhannesar sem hefur aðsetur á Þjónustumiðstöð Breiðholts. Hafið samband í síma 4111300 eða á netfangið: johannes.gudlaugsson@reykjavik.is