Vill leigja Geirsgötu 11
Rafnar ehf. vill leigja Geirsgötu 11 á Miðbakkanum og nota undir þróun og framleiðslu á trefjabátum. Ask Arkitektar ehf. hafa sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar þess efnis hvort leyfð verði starfsemi sem felur í sér þróun og framleiðslu trefjabáta í húsinu á lóð nr. 11 við Geirsgötu. Beiðninni hefur verið vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa. Um er að ræða hluta hússins, eða 1.500 fermetra framleiðslurými og 200 fermetra skrifstofur. Tekið er fram að húsnæðið sé til útleigu til skemmri tíma eða þriggja til fimm ára á meðan framtíðarnýting lóðarinnar verði skoðuð.
Um er að ræða hina gömlu vöruskemmu er lengi hýsti vöruafgreiðslu Skipaútgerðar ríkisins meðan hún var og hét. Frá því að starfsemi hennar var lögð niður var Fiskverkun Jóns Ásbjörnssonar þar til húsa um tíma en á síðari árum hefur húsnæðið lítið verið notað og þá einkum fyrir geymslustarfsemi. Húsið komst í eigu útvegsfélagsins Brim en er í dag í eigu dótturfélags fyrirtækjasamsteypu að nafni Berjaya Corporation sem er í eigu malasíska milljarðamæringingsins Vincent Tan. Húsið hefur verið í fréttum að undanförnu vegna áforma malasíska auðkýfingsins Vincents Tans um að byggja rúmlega 33 þúsund fermetra byggingu með hóteli á Miðbakka hafnar-innar. Borgaryfirvöld höfnuðu sem kunnugt er beiðni Tans.