Margvísleg hlutverk í gegnum tíðina
Með tilkomu Reykjavíkurhafnar breyttist bærinn úr þorpi í útvegskaupstað. Sjávarútvegur varð einn af mikilvægustu atvinnuvegum bæjarbúa ef ekki sá mikilvægasti. Fyrir hafnargerðina var Örfirisey eins og nafnið bendir til ekki landsföst en smám saman var hafnarsvæðið þróað og stækkað með landfyllingum.
Þegar bygging hafnarinnar hófst var engin stórskipahöfn í Reykjavík sem gerði að verkum að leggja þurfti stærri skútum og skipum utarlega í höfninni og selflytja vörur og farþegar í land með minni bátum. Upp úr aldamótunum þegar komum stærri skipa tók að fjölga varð ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Árið 1906 var farið af stað með undirbúning að viðamikilli hafnargerð í Reykjavík. Norskur hafnarstjóri Gabriel Smith að nafni var fenginn hingað til lands að tillögu kaupmanna í Reykjavík. Verkefni hans var að leggja mat á staðsetningu og kostnað mögulegrar hafnar. Þremur árum síðar skilaði hann greinargerð með tillögum að hafnarmannvirkjum í Reykjavík. Þetta leiddi til þess að hafist var handa við hafnarframkvæmdir í Reykjavík þann 9. mars 1913 sem stóðu yfir fram til ársins 1917. Eftir byggingu hafnarinnar var húsnæðisskortur viðvarandi vandi á hafnarsvæðinu en mannvirki tóku smám saman að rísa. Fiskvinnsluhús, íverustaðir og húsnæði til ýmiskonar starfsemi er tengdist útvegslífi og einnig vöruflutningum var smám saman byggt. Þar á meðal byggingarnar sem nú eru þekktar sem grænu hafnarbúðirnar.
Stóru Hafnarbúðir byggðar
Árið 1958 sótti bæjarsjóður Reykjavíkur um að fá að byggja þrílyft hús úr steini við Reykjavíkurhöfn austan gömlu hafnarbúðanna. Húsið átti að vera 340,60 fermetrar að grunnfleti og taka við af Verkamannaskýlinu sem var byggt á fyrstu árum þriðja áratugarins. Verkamannaskýlið stóð sjávarmegin við Tryggvagötuna á þeim slóðum sem þá mættust Kalkofnsvegur og Tryggvagata. Verkamannaskýlið var byggt úr timbri og þar var aðstaða fyrir verkamenn og sjómenn. Í Verkamannaskýlinu einnig eins konar ráðningarskrifstofa. Þangað þyrptust verkamenn sem ekki höfðu fasta vinnu og biðu eftir því að einhver verkstjórinn á kajanum veitti þeim verk að vinna þótt ekki væri nema við eina uppskipun. Verkamannaskýlið var rifið fljótlega eftir að nýja húsið Hafnarbúðir var byggt, en það var tekið í notkun 1962. Í brunavirðingu frá þeim tíma segir að húsið sé þrjár hæðir og kjallari, byggt úr steinsteypu, einangrað með vikri og múrhúðað að utan. Þak er úr timbri, pappa og áli. Á fyrstu hæð Hafnarbúða voru anddyri, ráðningarstofa, fjögur herbergi og biðstofa fyrir verkamenn, böð, búningsklefar, fjórar snyrtingar og tveir stigagangar. Á annarri hæð voru vinnsluherbergi, eldhús, veitingasalur með afgreiðsluborði, fjórir klósettklefar og tveir stigagangar.
Á þriðju hæð var sjómannastofa, níu gistiherbergi, skrifstofa og vaktherbergi. Þar voru einnig tveir baðklefar, þrjú klósett og tveir gangar. Í kjallara var geymslurými, búnings- og snyrtiherbergi starfsfólks, geymslur og eldhús. Hafnarbúðir voru teiknaðar af arkitektunum Einar Sveinssyni og Aðalstein Richter. Ríkið eignaðist Hafnarbúðir 1972.
Skrifstofur og félagsstarf Vestmanneyinga flutt í Hafnarbúðir
Margt hefur verið til húsa í Hafnarbúðum í þá sex áratugi sem liðnir eru frá því Geir Hallgrímsson þáverandi borgarstjóri opnaði húsið með formlegum hætti 1962. Þar á meðal voru skrifstofur bæjarstjórnar og fógeta Vestmannaeyja fluttar þangað eftir að eldgosið í Eyjum hófst í janúar 1973. Þá var einnig komið fyrir aðstöðu fyrir félagsstarf Vestmanneyinga í veitingasal hússins um tíma.
Rauði krossinn og Geðhjálp sýndu Hafnarbúðum áhuga
Ýmsir hafa sýnt Hafnarbúðum áhuga í gegnum tíðina. Þar á meðal Rauði krossinn til þess að setja upp sjúkrahótel. „Það hefur lengi verið draumur okkar að eignast húsnæði, sem gæti orðið samastaður fyrir fólk utan af landi, sem leitar lækninga i Reykjavík, þ.e. fólk, sem ekki leggst inn á sjúkrahús, en þarf að dvelja svo og svo lengi í höfuðborginni fyrir og eftir aðgerðir á sjúkrahúsum o.s.frv.”, sagði Eggert Ásgeirsson þáverandi framkvæmdastjóri Rauða krossins í samtali við Alþýðublaðið 30. mars 1973. Af því varð þó ekki. Annar heilbrigðisaðili sem var með aðstöðu í Hafnarbúðum og sýndi einnig áhuga á kaupum á húsinu þegar ríkiskaup auglýstu það til sölu. Geðhjálp sýndi áhuga á því en félagið var þá með aðstöðu á annarri hæð fyrir skrifstofu og félagsmiðstöð. Af því að Geðhjálp festi kaup á húsnu varð ekki.
Spítalarekstur og langlegusjúklingar
Spítalarekstur rataði í Hafnarbúðir árið 1977. Þá var húsið tekið undir deild fyrir langlegusjúklinga frá Borgarspítalanum í Fossvogi. Einnig var dagvistun fyrir aldraða í húsinu. Á fyrstu hæð þess var komið fyrir afgreiðslu, upplýsingaþjónustu, læknaherbergi og biðstofu. Einnig endurhæfingaraðstöða ásamt rúmgóðri snyrtiaðstöðu og sérinngangi, bað og búningsaðstaða fyrir dagvistunina.
Á annarri hæð voru þrjár sjúkrastofur, borð- og setustofa, búningsherbergi, ræsti- og snyrtiherbergi og geymsla. Á þriðju hæð voru átta sjúkrastofur, borð- og setustofa, aðalvakt, bítibúr, snyrtiherbergi, bað og geymslur. Eldhús var í fyrstu hæð sem var tengt þessari starfsemi í fyrstu en síðar var matur sendur þangað frá eldhúsi Borgarspítalans í Fossvogi. Starfsemi Hafnarbúða var færð undir stjórn St. Jósefsspítala árið 1986 og var með svipuðu sniði og á meðan Borgarspítalinn sá um reksturinn.
Kaldidalur kemur til sögunnar
Hafnarbúðir voru nýttar til spítalareksturs og sem hjúkrunarheimili í rúma tvo ártugi en árið 1998 voru verðar miklar breytingar á rekstri hússins. Hafnarbúðir voru þá í eigu ríkisins sem ákvað að selja. Reykjavíkurborg nýtti sér ekki forkaupsrétt og varð Kaldidalur ehf. eigandi Hafnarbúða. Nýir eigendur létu gera húsið upp að utan sem innan án þess að um miklar breytingar yrði að ræða og heldur húsið að mestu sínu upprunalega útliti að utan sem innan. Eftir að búið var að gera húsið upp leigði Kaldidalur ehf. það ýmsum aðilum. Um tíma var þar lyfjafyrirtæki. Veitingahús hafa verið á fyrstu hæðinni og einnig verslanir. Fasteignasalan RE/MAX Þingholt var þar um tíma og einnig greiðsluþjónustufyrirtækið Momentum auk fleiri aðila. Í dag eru þar meðal annars til húsa hvalaskoðunarfyrirtæki og arkitektastofan ASK arkitektar.
Grænu verbúðirnar í endurnýjun lífdaga
Miklar breytingar hafa orðið á atvinnustarfsemi í verbúðunum á undanförnum árum. Gömlu verbúðirnar við Geirsgötu, grænu verbúðirnar svokölluðu, hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Í þeim og í nágrenni þeirra er meðal annars að finna litla veitingastaði, sem draga til sín gesti og lífga mjög upp á hafnarsvæðið. Mikil uppbygging hefur átt sé stað á hafnarsvæðinu öllu og mannlíf þar orðið miklu fjölbreyttara en áður auk þess sem ferðamönnum fjölgaði til muna fram að covid. Í fyrstu völdu fyrirtæki svæðið vegna lágrar leigu miðað við verslunarkjarna eins og Laugaveg og Kringluna en síðar tóku fleiri að sækja þangað vegna uppgangs. Ekki er annað að sjá en starfsemin í grænu húsunum, gangi fyrir sig og sé komin til að vera.