Miðborgarhverfi til framtíðar
Hafnartorg er nýtt hverfi í Miðborg Reykjavíkur. Á torginu eru verslanir, kaffihús og veitingastaðir. Einnig nútíma starfsstöðvar og skrifstofur og síðast en ekki síst íbúðir. Þegar tíðindamaður rölti um Hafnartorgið fyrir nokkru fannst honum eins og hann væri kominn í erlenda stórborg. Minntist þess að hafa rölt um miðborg Lundúna nokkru áður en covitið skall á og hefti ferðafrelsi. Fékk svipaða tilfinningu og í Covent Garden. Hugsaði að hér væri loksins komin alvöru miðborgarreitur.
Saga þessa svæðis ber ekki með sér glæsileika. Í danska skipulaginu svokallaða sem unnið var af dönskum arkitektum fyrir Reykjavíkurborg á sjöunda áratug liðinnar aldar en fæst framkvæmt eftir var lagt til að hraðbraut lægi um svæðið, upp á milliþak Tollhússins og þaðan áfram til vestur í genum Grjótaþorp. Þessi hraðbraut var aldrei lögð enda varð fljótt mikil andstaða við hugmyndir um hana á meðal borgarbúa. Nokkurra áhrifa þessara hugmynda gætti þó nokkuð um tíma þegar steyptur brúarbútur eða rampur var byggður austan við Tollhúsið til þess að starfsmenn gætu ekið bílum sínum upp á milliþakið. Rampurinn var síðar rifinn en á árinu 2012 vöknuðu slíkar hugmyndir að nýju. Á því ári var sótt um leyfi til Reykjavíkurborgar til að byggja skábraut upp á bakhús Tollhússins og koma þar fyrir 91 bílastæði. Í umsókninni var bent á að um tíma hefðu bílastæði verið á milli hæða Tollhússins. Þessar hugmyndir urðu ekki að veruleika og nokkur ár liðu þar til farið var að huga að framtíð þessa svæðis. Þá voru komnar fram hugmyndir af allt öðrum toga en þær sem fólust í danska skipulaginu og bílastæðum á tollhússþakinu.
Í framhaldi af byggingum við Austurhöfn
Eftir byggingu tónlistar- og fjölnotahússins Hörpu og í framhaldi af byggingu hótel- og íbúðarhúsnæðis auk hugmynda um byggingu höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfnina jókst þunginn í þeirri hugmyndafræði að ráðast í viðamikla uppbyggingu á svæðinu sem fljótt var farið að kalla Hafnartorg. Hafist var handa við undirbúning framkvæmda og hönnun mannvirkja. Á ýmsu gekk og ekki var einhugur um þessar hugmyndir sem ekki var óeðlilegt í ljósi þess um hversu stóra framkvæmd var að ræða. Einnig spunnust umræður um útlit húsa og stjórnvöld vildu blanda sér í málið. Í dag samanstendur Hafnartorg af sjö byggingum og opnum svæðum sem tengjast frá gamla miðbænum yfir í svæðin kringum Hörpu og höfnina.
Miðborgin mun eflast
Hafnartorg var formlega opnað 12. október 2018 þegar Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins klipptu á borða við formlega opnun. Við það tækifæri að sagði Þórdís Lóa að Hafnartorg tæki nú við mikilvægu hlutverki í miðborginni. Það skapaði skemmtilega tengingu gamla miðbæjarins við hafnarsvæðið á sérlega glæsilegan hátt. Það teygi miðborgina alla leið vestur á Granda og sýni að verið sé að byggja upp borg sem sé öllum til sóma. Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins sagði við sama tækifæri að með opnun fjölda nýrra verslana og tilkomu þekktra alþjóðlegra vörumerkja ykist aðdráttarafl Miðborgarinnar sem jafnframt myndi skapa fleiri tækifæri til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu á svæðinu. Miðborg Reykjavíkur muni eflast með tilkomu nýrra og glæsilegra verslunarrýma. Verslanir tóku að opna á Hafnartorgi. Ný verslun H&M var með þeim fyrstu og aðrar fylgdu fljótt í kjölfarið. Á vordögum 2019 höfðu flestir rekstraraðilar komið sér fyrir á Hafnartorgi.
Svæði fyrir 1160 bíla
Bílakjallari er undir torginu og er hann tengdur bílakjallara Hörpu. Þar er stærsti bílakjallari á landinu með um 1160 bílastæðum. Aðkoma er að honum frá Hörpu, Pósthússtræti og Austurbakka Reykjavíkurhafnar. Í gegnum bílakjallarann er innangengt á milli allra húsa á lóðinni. Bílakjallarinn er opinn allan sólarhringinn og þar er sólarhringsvöktum og öryggisgæsla.
70 íbúðir
Alls eru 70 íbúðir á Hafnartorgi. Um hágæðaíbúðir er að ræða og í mörgum stærðum. Allt frá tveggja herbergja íbúum upp í glæsilegar þakíbúðir með góðu útsýni. Íbúðirnar voru framleiddar sem lúxusíbúðir sem þýðir að þær eru í dýrari kantinum þegar um samanburð við almennt markaðsverð íbúða í borginni er að ræða.
Endurreisn verslunar
Ýmsa gagnrýni mátti finna í fjölmiðlum og ekki síður í skrifum og ekki síst í kommentakerfum frá þeim tíma að starfsemi hófst á torginu. Vegna þessara skrifa sá Fasteignafélagið Reginn sig knúið til þess að senda fréttatilkynningu frá sér. Þar segir meðal annars að þegar Hafnartorgið var opnað á síðasta ári hafi verslun í Kvosinni í Reykjavík nánast verið útdauð og flest rými við götur Kvosarinnar orðin að veitingastöðum, krám eða hótelum. Síðar segir að Hafnartorgið hafi verið byggt á reit sem áður var malarbílastæði og á svæði sem hafði haft lítið aðdráttarafl. Á sama tíma hafi verslun verið að færast æ ofar á Laugaveg og að hluta út á Granda. Í fréttatilkynningunni eru nefndar ýmsar orsakir sem taldar hafa tafið að nægilegur áhugi hafi skapast um torgið. „Það hafa hins vegar ýmsar hindranir verið á leiðinni. Erlendum ferðamönnum er ekki til að dreifa sem stendur og innlend verslun og þjónusta hefur almennt sætt miklum takmörkunum. Aðstandendur Hafnartorgsins og verslunarmenn taka þó þessum áskorunum með ró og telja langtímahorfur góðar fyrir þennan nýjasta hluta Kvosarinnar og nærliggjandi hafnarsvæði sem nú er í uppbyggingu.“ Vissulega hefur óvænt þjóðfélagsástand komið þarna við sögu eins og víða annars staðar. Þrátt fyrir það telja ýmsir sem starfa nú þegar á Hafnartorgi að þetta nýja Miðborgarhverfi sé á uppleið og eigi góða framtíð fyrir sér. Hitt er annað mál að nýtt Miðborgarhverfi sem felur ákveðna stórborgarmynd í sér þarf tíma til þess að festast í sessi. Fólk þarf tíma til að venjast hinum nýju aðstæðum. Margt bendir til að með tíð og tíma verði Hafnartorgið perla Reykjavíkur. Í fréttatilkynningu Regins frá 17. desember sl. segir meðal annars. „Það er viðbúið að tíma taki að byggja upp umferð um ný svæði í grónum borgum og þá liggur það í hlutarins eðli að borgarþróun er nokkuð hægfara fyrirbæri. Við höfum hlustað á raddir sem kallað hafa eftir fjölbreyttari starfsemi á Hafnartorgi og við höfum sætt færis þegar tækifæri hafa gefist til að gera einmitt þetta.“