Gerbreytt KR svæði
Nýtt fjölnota íþróttahús mun rísa á KR svæðinu með gervigraslögðum fótboltavelli samkvæmt nýsamþykktri tillögu að deiliskipulagi. Aðalkeppnisvellinum verður snúið um 90 gráður og áhorfendastúku fyrir um 3.500 manns komið fyrir. KR-völlurinn tekur nú við um 2.700 áhorfendum.
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að auglýsa tillögu um endurskoðað deiliskipulag, þar sem gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu. Fjölbýlishús verða byggð við Kaplaskjólsveg og Flyðrugranda en þar er gert ráð fyrir um 100 íbúðum. Deiliskipulagið verður auglýst á næstu vikum og gefst almenningi þá færi á að koma á framfæri athugasemdum áður en skipulagið verður endanlega afgreitt úr borgarkerfinu. KR-ingar hafa lengi kallað eftir aðkomu borgarinnar að uppbyggingu á svæðinu. Samkvæmt framkvæmdaáætlun á fyrst að hefjast handa við íþróttahúsið og gæti sú vinna hafist þegar á næsta ári.