Vesturbæjarbiskupinn – skákmót í Hagaskóla
Skákmótið sem heitir Vesturbæjarbiskupinn var haldið í Hagaskóla 8. maí sl. Þetta er í þriðja sinn sem þetta mót er haldið með því sniði sem það er nú en það var einnig haldið fyrir einhverjum árum.
Líkt og undanfarin þrjú ár var það Skákakademían sem hélt utan um mótið sjálft en það er Vesturgarður sem heldur mótið en styrktaraðili þess er Melabúðin. Krakkar víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í mótinu en það er fyrst og fremst ætlað fyrir grunnskólaaldurinn. Þess má geta að einn keppandi var aðeins fimm ára og því enn í leikskóla og stóð sig alveg frábærlega. Mótinu er skipt í þrjá aldursflokka, 1. til 3. bekkur, 4. til 7. bekkur og svo 8. til 10. bekkur. Þrír efstu í hverjum flokki fyrir sig fengu verðlaun og að auki eru svo veitt verðlaun eða farandbikar fyrir þann grunnskóla sem sendir flesta þátttakendur en það var það Álfhólsskóli úr Kópavogi sem hafði vinninginn að þessu sinni.