Safnskipið Óðinn

– varðveitir sögu baráttu og björgunar –

Safnskipið Óðinn áður varðskipið Óðinn bakkar að bryggjukanti á Akranesi þegar skipinu var siglt þangað eftir að það var gert sjófært á nýjan leik. Mynd: Skessuhorn.

Safnskipinu Óðni var sigldi út á ytri höfn Reykjavíkur mánudaginn 11. maí árið 2020. Þá voru aðalvélar skipsins ræstar í fyrsta sinn í 14 ár. Óðni var síðan siglt upp á Akranes þann 24. júní sama ár. Sjálfboðaliðar höfðu mánuðina á undan unnið hörðum höndum við að gera vélar skipsins gangfærar og það var stór stund þegar aðalvél-arnar voru ræstar eftir langt hlé. Skipið gegndi hlutverki varðskips um langt árabil en hefur undanfarin ár verið hluti af Sjóminjasafni Reykjavíkur. 

Varðskipið Óðinn nú safnskip kom til landsins 27. janúar 1960. Skipið var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1959 og er 910 tonn að stærð, 63 metrar á lengd og 10 metrar á breidd. Árið 2002 leit út fyrir að skipið yrði selt úr landi þegar þjónustu þess hjá Landhelgisgæslunni yrði lokið. Að frumkvæði Guðmundar Hallvarðssonar, þáverandi formanns Sjómannadagsráðs og alþingismanns voru stofnuð hollvinasamtök um skipið og urðu þau til með formlegum hætti 26. október 2006. Var þeim ætlað að berjast fyrir að fá skipið til eignar því þannig væri hægt að varðveita sögu þorskastríðanna og einnig að verulegu leyti björgunarsögu Landhelgisgæslunnar. Í lok maí árið 2008 var gengið frá samkomulagi um afhendingu skipsins og að Sjóminjasafnið yrði ábyrgur aðili fyrir varðveislu þess.

Fyrsti Óðinn frá 1926

Óðinn er þó ekki fyrsta varðskipið sem borið hefur þetta nafn. Hinn 23. júní árið 1926 kom til landsins fyrsta varðskipið, sem smíðað var fyrir Íslendinga. Var það gufuskipið Óðinn sem var 512 brúttólesta skip og vopnað tveimur 57 mm fallbyssum. Íslensk landhelgisgæsla hófst þó fyrr eða upp úr 1920 og þá með leiguskipum. Þá var orðið ljóst að ekki yrði hjá því komist að gera út varð- og björgunarskip hér við land. 

Bretar kræfastir

Talið er að erlendir aðilar hafi byrjað veiðar við Íslandsstrendur í upphafi fimmtándu aldar. Einkum hafi það verið breskir fiskimenn, sem fyrstir sóttu hingað en fljótlega bættust fiskimenn annarra Vestur Evrópuþjóða í hópinn. Samskipti landsmanna og erlendu fiskimannanna voru yfirleitt góð, þótt á stundum kastaðist í kekki. Einkum voru dæmi um slíkt eftir að dönsk stjórnvöld tóku að sjá ofsjónum yfir þessum veiðum og þeirri verslun, sem varð með hinum erlendu fiskimönnum og landsmönnum framhjá einokunarverslun Dana.

Hannesarmálið

Í lok nítjándu aldar urðu þáttaskil í samskiptum við erlenda fiskimenn. Þá hófu bresk fiskiskip veiðar með botnvörpu hér við land. Þau sýndu oft yfirgang og stunduðu jafnvel veiðarnar svo til uppi í landsteinum. Bresku togararnir toguðu oft yfir veiðarfæri fátækra fiskimanna án þess að þeir gætu rönd við reist. Urðu af þessu átök og bresku sjómennirnir oft illa þokkaðir. Hörðustu átökin urðu síðla árs 1899 þegar Hannes Hafstein skáld og sýslumaður og síðar ráðherra, hugðist taka breskan togara í landhelgi svo til uppi í landsteinum í Dýrafirði. Þeirri viðureign lauk þannig að þrír Íslendingar drukknuðu, en sýslumaður komst af við illan leik.

Islands Falk

Danir önnuðust í upphafi landhelgisgæslu við landið. Hún þótti á stundum illa rekin. Hingað voru send dönsk varðskip yfir sumarmánuðina. Frá vori og fram á haustdaga. Að vetrarlagi var ekkert eftirlit með veiðiþjófunum við landið. Samhliða auknu frelsi þjóðarinnar fóru kröfur um bætta landhelgisgæslu vaxandi. Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 féllst danska stjórnin á að láta smíða sérstakt eftirlitsskip til landhelgisgæslu hér við land. Skipið kom í gagnið árið 1906 og hlaut nafnið Islands Falk.

Olnbogabarn Skipaútgerðar ríkisins

Árið 1930 var Landhelgisgæslan falin Skipaútgerð ríkisins. Mun tilgangurinn með því að fela Skipaútgerðinni reksturinn hafa verið sá að með því móti mætti draga úr rekstrarkostnaði. Við þetta varð gæslan hálfgert olnbogabarn og endurnýjun skipaflotans varð lítil næstu árin. Landhelgisgæslan varð síðan sjálfstæð stofnun árið 1952 og Pétur Sigurðsson frá Pálsbæ á Seltjarnarnesi og fyrrum sjóliðsforingi í danska sjóhernum ráðinn forstjóri.

Í öllum flremur Þorskastríðunum

Varðskipið Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öldinni. Öflugasta vopn skipsins var 57 mm fallbyssa, staðsett á palli fyrir framan brúna. Þekktasta og árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum voru þó togvíraklippurnar. Óðinn reyndist einnig vel sem björgunarskip. Hann dró tæplega 200 skip til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró hann flutninga- og fiskiskip fjórtán sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa. Óðinn sinnti almennu veiðieftirliti alla tíð og beindist það bæði að íslenskum og erlendum skipum. Fylgjast þurfti með hvar var veitt og hvernig veiðarfærin voru. Einnig var Óðinn oft kallaður til þegar ófærð var í landi og erfiðleikar við fólks- og vöruflutninga, ekki síst í afskekktustu byggðum landsins.

Umtalsverðar skemmdir urðu á afturhluta Óðins eftir að togarinn Arctic Corsair sigldi á skipið í átökum í einu af þorskastríðunum. Mynd: Landhelgisgæslan.

Arctic Corsair sigldi á Óðinn

Togarinn Arctic Corsair eða Norðurslóðasjóræninginn varð frægur hér á landi því hann sigldi á varðskipið Óðinn í þorskastríðinu árið 1976 eftir að skipverjar á Óðni höfðu reynt að klippa á togvíra hans. Arctic Corsair var smíðaður árið 1960 í Cook, Welton & Gemmellskipasmíðastöðinni í bænum Beverly fyrir útgerðina Boyd Line. Skipið var útbúið til úthafsveiða og sótti á norðlæg mið og þótti mjög gott veiðiskip enda aflabrögðin með besta móti á gullaldarárum þess. Systurskip  Arctic Corsair hét Arctic Cavalier hafði verið sjósett mánuði á undan. Verulegar skemmdir urðu á aftari stjórnborðhluta Óðins við ásiglinguna.

Hugmynd er að gera Arctic Corsair, sem sigldi á Óðinn upp og það muni síðan síðan þjóna sem safn líkt og Óðinn gerir í dag. 
Mynd/Hull: Yorkshire’s Maritime City.

Ross Cleveland og Notts County

Tæpast er hægt að rifja upp brot úr sögu Óðins án þess að minnast atburða sem urðu á Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar 1968. Þá gekk mikið illviðri yfir landið. Mótorbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík fórst þá með sex manna áhöfn, þar af föður og tveimur sonum. Breski togarinn Ross Cleveland fórst með 19 menn innanborðs. Skipstjóri Ross Cleveland bað fyrir ástarkveðjur til eiginkvenna og barna í síðasta kallinu sem barst frá togaranum. Sögu Ross Cleveland lauk þó ekki alveg þar því einn skipverji bjargaðist með undraverðum hætti. Harry Eddom 1. stýrimaður stökk í sjóinn þegar einsýnt var að togarinn væri að sökkva. Tveir félagar hans drógu hann um borð í gúmmbjörgunarbát. Eftir nokkra klukkutíma létust félagar Eddoms báðir úr vosbúð. Um hálfum sólarhring síðar rak bátinn á land í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Eddom sem var á lífi lagði af stað fótgangandi og sá móta fyrir húsi í botni fjarðarins, sem vera mannlaus sumarbústaður. Hann kom sér fyrir undir húsveggnum þar sem bóndasonur á bænum Kleifum, Guðmann Guðmundsson, fann hann og fylgdi honum heim til bæjar. Mikið var um dýrðir á Ísafirði þegar komið var með Eddom þangað þar sem hann dvaldi á sjúkrahúsinu á meðan hann var að jafna sig. Fréttablaðið The Sun keypti einkarétt á þessari ótrúlegu sögu og bauð meðal annars Ritu eiginkonu hans að koma hingað til lands og hitta hann á Ísafirði. Sigurður Þ. Árnason, fyrrverandi skip-herra Landhelgisgæslunnar stýrði áhöfn Óðins í gegnum veðurofsann og tókst að bjarga skipverjum breska togarans Notts County, sem strandað hafði á Snæfjallaströnd. Undir nírætt kvaðst hann aldrei hafa séð neitt líkt og hafa þó starfað á sjó allan sinn starfsaldur.   

Togarinn Notts County sem strandaði í ofsaveðri við Snæfjallaströnd í febrúar 1968. Skipahöfn Óðins tókst að bjarga áhöfninni utan eins skipverja er farið hafði í sjóinn, bjargast en króknað síðan úr kulda. Myndin birtist með frétt í Morgunblaðinu.

Síðasta sjóferðin færeyskur togari tekinn

Síðasta sjóferð Óðins í þágu Landhelgisgæslunnar var farin í júní 2006 en þá var stefnan tekin á Bretlandseyjar í kurteisisheimsókn. Á leiðinni var ákveðið að sigla um svæði þar sem erlendir togarar voru grunaðir um að halda sig án leyfis og tilkynninga. Stóð Óðinn færeyskan togara að því að sigla inni í íslenskri efnahagslögsögu án þess að tilkynna sig eða hafa veiðileyfi. Hann var tekinn í landhelgi eins og talað var um áður fyrr. Í ferðinni lenti Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar þar með í vinnu við skýrslugerð og að gefa lögfræðilegar ráðleggingar. Skipherrann í síðustu ferð Óðins var Sigurður Steinar Ketilsson.

You may also like...