Umdeild sáttatillaga við Einimel
Lengi hefur verið deilt um lóðir nokkurra einbýlishúsa við Einimel í Vesturbænum í Reykjavík. Sögu þessara deilna má rekja til þess að nokkrir húseigendur við götuna tóku landskika í fóstur eins og það er kallað. Þessar lóðir snúa að sundlaugartúninu við Vesturbæjarlaugina. Hugtakið að taka land í fóstur þýðir ekki eignarétt og geta lóðarhafar umræddra lóða því ekki skotið sér á bak við eignaréttarhugtakið. Lóðarhafar hafa þreifað fyrir sér um að fá lóðir sína stækkaðar sem nemur því landi sem þeir hafa tekið í fóstur og afmarkað með girðingum. Afstaða Reykjavíkurborgar til þess hefur þó verið neikvæð.
Nú víkur svo við að borgin hyggst koma til móts við lóðarhafa og eigendur þessara húsa að nokkru leyti. Í nýlegri fundargerð skipulagsráðs Reykjavíkur var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Í tillögunni felst að lóðarmörk við Einimel 18 til 26 eru færð út sem nemur 3,1 metra og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdrætti frá Eflu frá 27. janúar 2022. Samkvæmt fundargerð skipulags- og samkomuráðs virðist ánægja með þess lausn meðal borgarfulltrúa á margra ára deilumáli og samþykkt hefur verið að vísa henni til borgarráðs.
Ekki allir sammála
Þessu eru ekki allir sammála. Hugmyndir að nýju deiliskipulag við Vesturbæjarlaugina er umdeilt á meðal íbúa sem sumir hverjir telja að verið sé að taka af borgarlandi og afhenda handhöfum einkalóða hluta af landi sem þeir hafa aðeins haft í fóstri. Með því sé verið að minnka sundlaugartúnið en einnig að í þessu felist verðmæt gjöf til handhafa þessara lóða. Íbúum í Vesturbæjarhópnum finnst til dæmis mörgum að borgin hefði átt að taka allt landið til baka án þess að lengja lóðir fólksins aðeins á móti. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir: „Við höfum litið svo á að þetta sé borgarland, þannig að samkomulagið snýst um að þetta hopi næstum því að lóðamörkunum sem við töldum vera og þau hafi þá heimild til að setja upp nýtt grindverk á hinum nýju lóðamörkum.“