Deiliskipulag tilbúið fyrir um 300 íbúðir
Deiliskipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmdareita við Arnarbakka í Bakkahverfi og Eddufell og Völvufell í Efra Breiðholti er nú tilbúið. Því má búast við að farið verði að undirbúa að efna til framkvæmda á þessum tveimur endurbyggingarsvæðum í Breiðholti. Þegar er búið að loka verslun Iceland við Arnarbakka en fjarlægja á gömlu þjónustubyggingarnar af lóðinni til að rýma fyrir nýjum framkvæmdum.
Við Arnarbakka gert ráð fyrir allt að 150 íbúðum og er sérstaklega tekið fram að þar á meðal verði nemendaíbúðir. Einnig er gert ráð fyrir að þjónusturými verið aukið sem er liður í að endurheimta sem fjölbreyttasta þjónustu í hverfiskjarnana sem hafa látið verulega á sjá á undanförnum árum. Við Eddufell og Völvufell er einnig ætlunin að byggja um 150 íbúðir sem er mikil fjölgun frá fyrri hugmyndum sem gerðu ráð fyrir að 50 íbúðir yrðu byggðar. Þá er einnig ætlunin að efla þjónustu í hverfiskjarnanum á ný. Með þessu er fyrirhugað að byggja allt að 300 íbúðir á þessum stöðum sem hafa legið undir niðurníðslu. Næstu skref verða að hanna framkvæmdir og leita efir framkvæmdaaðilum.