Risarúm í Borgarbókasafninu
Risastórt rúm hefur verið sett upp í Borgarbókasafninu í Grófinni. Þar er hægt að leggjast út af, breiða yfir sig stóra sæng og hlusta á eða lesa barnabók. Rúmið er innsetning eftir Svandísi Dóru Einarsdóttur til heiðurs barnabókahöfundum. Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra afhjúpaði rúmið 30. apríl sl.
Hönnuðir verksins, sem heitir Segðu mér sögu, eru þau Tanja Levý og Jökull Jónsson. Hugmyndin með rúminu stóra er að fullorðnir geti fundið fyrir yndi þess að láta lesa fyrir sig sögur og ljóð líkt og á æskuárum og þannig upplifað sig að nýju sem barn í öryggi rúmsins. Lilja sagði í tilefni afhjúpunarinnar að barnabókmenntir séu mikilvægur þáttur í gefandi uppeldi og því hafi áhersla verið lögð á stuðning við útgáfu barnabóka sem hafi skilað sér í aukinni útgáfu. Verkefnið er unnið í samvinnu menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Borgarbókasafns.