Draumurinn að sjá ÍR svæðið iðandi af lífi
– segir Vigfús Þorsteinsson formaður ÍR –
Miklar breytingar eru að verða á ÍR-svæðinu í Breiðholti. Nýr og fullkominn frjálsíþróttavöllur hefur verið tekin í notkun ásamt þjónustuhúsi þar sem aðstaða er til mótahalds en einnig verður þar veitingasala, snyrtingar, aðstaða fyrir notendur vallarins og geymslur. Byggingin er tvær hæðir og þak mun nýtast sem áhorfendapallur. Þá er verið að taka í notkun nýtt og langþráð íþróttahús sem mun gerbreyta allri aðstöðu ÍR og allri íþróttastarfsemi í Breiðholti. Hálf öld er frá því að starfsemi ÍR var flutt úr Vesturbænum í Reykjavík í Breiðholti. Því má segja að 50 ára draumur sé að rætast. Vigfús Þorsteinsson tók við formennsku í aðalstjórn ÍR á liðnu ári. Vigfús er ÍR-ingum vel kunnur. Hann hefur verið tengdur félaginu í hartnær 40 ár sem iðkandi, leikmaður, foreldri, þjálfari, stjórnarmaður handknattleiksdeildar og margt fleira. Vigfús hefur langa reynslu af starfsemi íþróttahreyfingarinnar í landinu og er ýmsum hnútum kunnugur þegar kemur að málum íþróttafélagsins. Vigfús spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
Við hófum spjallið á að segja frá nýja íþróttavellinum. Vigfús segir að borgarstjóri hafi komið á dögunum og opnað völlinn með formlegum hætti þegar haldið var sérstakt vígslumót sunnudaginn 29. maí þar sem Vésteinn Hafsteinsson mætti með sterkustu kringlukastara heims til að taka þátt. Vigfús segir glæsilegt að geta byrjað á sterku móti. Þeir sem hann hafi rætt við og til þekkja telji að þessu völlur sé með því glæsilegasta sem þekkist hér á landi. “Ég get alveg tekið undir það. Völlurinn er glæsilegur og undirlagið á hlaupabrautinni er með því besta sem þekkist. Upplagt til þess að setja met að dómi þeirra sem til þekkja. Sérstök bygging er við völlinn. Sérhönnuð fyrir frjálsar íþróttir þótt hún rúmi einnig aðra starfsemi á borð við, skrifstofuhald veitingar og geymslur. Þetta er gjörbreytir allri aðstöðu.”
Erum komin í aðra deild
Vigfús segir að fram að þessu hafi ÍR svæðið einkum snúist um fótbolta en aðrar íþróttagreinar verið dreifðar um hverfið og jafnvel víðar í Reykjavík. “Við höfum geta verið með einhverjar æfingar hér en ekki að neinu gagni niðað við þörfina sem er fyrir hendi. Með þessu mannvirki erum við komin í allt aðra deild hvað frjálsíþróttirnar varðar. Við erum með aðstöðu niðri í Laugardal fyrir frjálsíþróttirnar en það háir því að frjálsíþróttahöllin er stöðugt að verða meira upptekin fyrir ráðstefnur og ýmsa viðburði sem ekki tengjast íþróttum eða íþróttalífi. Æfingar í frjálsum íþróttum hafa því oft fallið niður þegar aðstaðan hefur verið nýtt til annarra hluta. Þessi nýja aðstaða okkar hér vegur vonandi upp á móti því og ég bind miklar vonir við hana þegar að æfingamálunum kemur. Þetta styrkir frjálsíþróttadeildina veruleg þótt hún hafi alltaf átt afreksíþróttamenn. Í því sambandi er gaman að afreksíþróttamenn hafi komið og tekið þátt í opnunarmóti vallarins.”
Úr skúr og af malarvelli
Vigfús snýr tali sínu að Reykjavíkurborg. Segir ÍR hafa átt mikið og gott samstarf við borgina. Bæði Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta og tómstundaráð í öllum þessum málun og gaman að sjá hvað borgaryfirvöld hafa stutt mikið við félagið. “Þegar ég horfi til baka þá man ég eftir þeirri tíð að eina aðstaða ÍR í Breiðholti var þar sem kallað var Grenið við Breiðholtskjör og varð síðan að skátaheimili. Þar sem malarvöllur ÍR var. ÍR átti gamla ÍR húsið við Túngötu en það var í Vesturbænum frá þeim árum að félagið starfaði þar. ÍR húsið við Túngötu var eitt fyrsta íþróttahúsið í Reykjavík en var áður kirkja. ÍR keypti það 1929 af kaþólska söfnuðinum. Ég er það gamall að ég náði að æfa einhvern tíma þar áður en húsið var flutt í Árbæjarsafn. Mig minnir að þetta hafi verið kringum 1987. Þetta er frá þeim tíma að fá íþróttahús voru í Reykjavík. Ég man að fyrsta húsnæðið sem kom hingað á ÍR svæðið var vinnuskúr og þar engin önnur starfsemi en fótbolti á malarvelli. Þetta ferli er búið að taka langann tíma en þegar það var byrjað að byggja íþróttahúsnæði hérna á svæðinu þá hefur þetta gerst mjög hratt.”
Að mestu fótboltasvæði
Fyrsta húsið á ÍR svæðinu var byggt um 1993. “Þótt séu að verða þrír áratugir liðnir þá finnst ég muna eins það hafi gerst í gær þegar við vorum að setja ull í loftin.” Vigfús segir stóru breytinguna nú vera að félagið sé að fá alla aðstöðu á ÍR svæðið í Suður Mjóddinni. “Frjálsíþróttirnar hafa alltaf verið annars staðar. Skíðin, handboltinn og karfan hafa einnig verið á öðrum stöðum. ÍR svæðið hefur því að mestu verið fótboltasvæði en með nýja íþróttavellinum og ekki síður nýju íþróttahúsi þá er þetta að verða alvöru ÍR svæði. Svæði fyrir allar íþróttagreinar. Sumarið fer í að koma okkur sem best fyrir með alla þá aðstöðu sem við höfum fengið. Við erum að byrja að æfa í stóra íþróttahúsinu nú þegar þótt fingurinn hafi verið settur á 1. ágúst. Framkvæmdirnar hafa gengið það vel.”
Gjörbylting
Þá komum við að sjálfu húsinu. Vigfús segir að í því felist gjörbylting fyrir allt starf ÍR. “Nú færist stærstur hluti af starfsemi félagsins á einn stað. Þetta eru í raun þrír íþróttasalir. Skipta má húsinu í þrjá hluta eftir þörfum. Þegar búið er að skipta verða þrír löglegir körfuboltavellir, handboltavellir með fullri breidd en ekki fullri lengd. Handboltinn og karfan geta æft á sama tíma, handboltinn í tveim hlutum og karfan í einum, báðar greinar með löglega velli og karfan með amk. sex körfur í sínum hluta. Ef á þarf að halda þá eru 16 körfur í húsinu sem hægt er að grípa til þótt allar verði ekki í notkun.” Vigfús segir að þrátt fyrir þetta sé ekki ætlunin að fara með alveg alla starfsemina niður í Mjódd. Stærsta breytingin er að karfan og handboltinn komi þangað að mestum hluta, við þurfum samt sem áður að halda áfram að bjóða uppá æfingar inni í hverfunum sjálfum. Æfingar og leikir í meistaraflokkum fari fram í nýja húsinu og öllum yngri flokkum.”
Draumurinn að sjá ÍR svæðið iðandi af lífi
Vigfús bendir á að ÍR hafi staðið frammi fyrir því að elstu yngri flokkarnir hafi verið að æfa seint á kvöldin. Nú standi menn frammi fyrir því að æfingar geti verið búnar fyrr. Á tímanum á milli klukkan átta og níu. “Við höfum þurft að láta krakka vera að æfa á tímum sem útivist barna er ekki leyfð sem er ekki í lagi. Þetta hefur þó verið smám saman að detta út en unglingar sem eru komnir á framhaldsskólarnir hafa verið að æfa milli klukkan níu og ellefu. Það er ekki gott fyrir einn né neinn að þurfa að stunda æfingar á þessu tíma og það hefur orsakað brottfall. Ungmenni hafa gefist upp. Það er líka erfitt fyrir krakka að koma svona seint heim af æfingu. Þau eru ekkert sofnuð með það sama en þurfa svo að mæta í skólann að morgni. Væntingar okkar snúa að því að við getum undið ofan af þessu. Æfingatímar þurfi ekki að standa svona lengi fram eftir á kvöldin. Við erum að ræða við borgina að breyta gamla húsinu hér í frístundaheimili þegar búið verður að færa allt skrifstofuhald yfir í nýja íþróttahúsið þar sem er sér álma fyrir það. Þá er stutt á milli yfir í íþróttaaðstöðuna þar sem æfingar fara fram. Við erum einnig að íhuga að koma upp aðstöðu fyrir keilu í tengslum við nýja húsið og eigum í viðræðum við borgina um það. Keiluhúsið yrði þá tengibygging hér við nýja íþróttahúsið og tengdi byggingar saman. Málið er í hagkvæmniskönnun og er að mínu mati mjög hagkvæmt fyrir alla aðila. Keilan er vinsæl og fólk á öllum aldri stundar hana. Eldra fólki stundar hana mikið. Öll keilufélögin í Reykjavík eru búin að skrifa undir viljayfirlýsingu um að þau vilji koma í Mjóddina. Keiludeild ÍR er með um helming allra iðkenda keilu í Reykjavík. Íþróttir eru forvörn. Við erum í þjónustuhlutverki og minn draumur er að sjá ÍR svæðið iðandi af lífi.”
ÍR Efra Breiðholt
Vigfús segir að nú sé hugað að því að geta gert meira fyrir Efra Breiðholti. “Við erum að vinna með Þjónustumiðstöðinni. Eigum mjög gott samstarf við hana. Hluti vandans þar er hversu samfélagið er fjölbreytt. Fjölmenningarsamfélag þar sem ýmis menningarleg atriði geta rekist á. Vonir okkar standa til þess að geta byrjað með eitthvað sem við getum kallað ÍR Efra Breiðholt. Þá erum við fyrst og fremst að miða við handbolta og körfubolta í yngstu flokkunum.” Vigfús segir að ákveðið vandamál hafi verið með íþróttaiðkun í Efra Breiðholti. Við höfum verið að dreifa æfingum á milli hverfa. Með nýja íþróttahúsinu í Mjóddinni opnast möguleikar í Efra Breiðholti sem ekki hafa verið til staðar. Við getum hnikað meiru til. Við viljum koma á fót æfingum þrisvar í viku fyrir yngstu flokkana í Efra Breiðholti og sjá hvernig gengur. Nú eru aðeins um 6% barna sem æfa handbolta úr hverfi 111 og aðeins um 16% þeirra sem stunda æfingar í körfubolta. Ástæða þessa er ekki sú að fá börn séu þar. Þau hafa bara ekki komið. Nú þegar við fáum tækifæri langar okkur að prófa að vera með sérstakar æfingar fyrir efra Breiðholt. Við erum í viðræðum við Þjónustumiðstöðina um þetta. Við erum að velta fyrir okkur í samvinnu við þá hvort efna megi til einhverrar samveru krakka án þess að um beinar íþróttaæfingar sé að ræða. Heldur að koma saman til að hittast og hreyfa sig. Mér skilst að þetta hafi verið gert í Árbæjarhverfinu og gengið vel. Þá er hugmyndin hvort nýta megi þá reynslu til að bjóða upp á sambærilega þjónustu í Efra Breiðholti.”
Margt gerst síðan ég kom í Breiðholtið
Vigfús er ekki fæddur Breiðhyltingur. Fjölskylda hans átti heima í Árbænum fyrstu sjö árin og hóf skólagöngu í Árbæjarskóla. “Við fluttum yfir í Breiðholtið 1974. Ég var fyrst smá tíma í Fellaskóla því ekki var búið að byggja Hólabrekkuskóla. Við vorum í einhverjum skúrum við Fellaskóla á meðan var verið að ljúka við Hólabrekkuskóla og gera hann klárann. Ég er í fyrsta nemendahópnum sem fer í Hólabrekkuskóla. Ég man aðallaga eftir mér sem krakki í Hólunum. Þá var Breiðholtið sem slíkt nánast ekki til. Búið var að byggja Bakkana, Vesturbergið og nærliggjandi svæði var í byggingu. Verið var að byggja fyrstu blokkirnar í Hólunum ekki farið að byggja einbýlishúsin fyrir neðan og Seljahverfið var enn óbyggt. Ég man að þegar maður kom út úr Kríuhólum var ekkert þar fyrir aftan nema móar. Mín minning er sú að það væru engin tré í Hólunum og móarnir voru leiksvæði okkar krakkanna. Mikil breyting hefur orðið því nú sést nánast ekkert fyrir trjám. Í skólanum fylgdu menn annað hvort Val eða Fram. Þannig var skipt í lið í frímínútum. Þetta snérust eftir því hvernig Strætó gekk en einnig eitthvað eftir því hvaðan fólkið sem flutti í hverfið kom. Fólk var að koma svo víða að. Þetta var fyrir tíma ÍR í Breiðholti. Ef við lítum yfir Breiðholti eins og það er í dag sjáum við að margt hefur gerst á þessum tíma sem ég hef átt þar heima og í dag tengja allir ÍR við Breiðholt og ótrúlega margir þar eru tengdir því á einhvern hátt.”