Yfir 90 prósent barna í Ösp eru fjöltyngd

– unnið með verkefni um málþroska og læsi sem Fellaskóli, Holt og Ösp taka þátt í –

Útivistarsvæði við leikskólann Ösp.

Yfir 90 prósent barna í leikskólanum Ösp í Efra Breiðholti eru fjöltyngd. Börnum sem tala fleiri en eitt tungumál hefur farið fjölgandi og á síðasta ári gerðist það að öll börnin sem byrjuðu í leikskólanum voru fjöltyngd sem þýddi að heil deild varð alveg fjöltyngd. Foreldrahópur barna í leikskólanum er fjölmenningarlegur og nú starfar fólk frá fleiri löndum og málsvæðum við leikskólann.

Fjölmenning hefur aukist mikið í Fellahverfi undanfarin ár og því hefur verið unnið markvisst með íslenskuna til að styrkja orðaforða barnanna og auka möguleika þeirra til virkar þátttöku í samfélaginu. Fyrir tveimur árum var farið af stað með verkefni um málþroska og læsi sem Fellaskóli og leikskólarnir Holt og Ösp taka þátt í. Verkefnið snýst um hópstarf þar sem allir bera ábyrgð og til að styrkja starfsfólkið á Ösp hafa fimm farið á mennta­fléttunámskeið í máli og söng. Lestur bóka hefur aukist til muna á Ösp og á einni deildinni hefur verið unnið með svokallaðan bókaorm. Hann er þannig að börnin koma með bækur sem lesnar eru fyrir þau heima á þeirra tungumáli. Þau koma svo með bækurnar í skólann og segja frá þeim. Einnig er mikið unnið með svonefnda orðaforða­þemu og lögð áherslu á orðaforða sem talin er mikilvægur.  

Málskilningur oft ekki nógu góður 

Komið hefur í ljós að skilningur marga barna sem eru aðeins í íslensku málumhverfi í skólanum er oft ekki nógu góður. Því var ákveðið að byrja strax í leikskóla að byggja upp orðaforða þeirra. Börunum er gefið tækifæri á að vera virkir þátttakendur bæði í leikskóla og síðan í grunnskólalífinu. Þótt þau séu í íslensku skólaumhverfi skiptir máli að bera virðingu fyrir þeirra heimamáli og að unnið sé bæði með foreldrum og börnunum í málstefnunni.

Foreldrar treysta á leikskólann

Foreldrarnir hafa sýnt þessu verulegan áhuga og þau treysta á leikskólann um málhæfni barna sinna og hafi reglulega samband til að athuga hvernig gangi.  Áherslan sem lögð er á íslenskuna sem leikskólamál þýðir ekki að börn sem tala sama heimamál geti ekki talað saman á því tungumáli, heldur þurfa allir að skipta yfir í íslenskuna þegar einhver bætist í hópinn sem ekki skilur. Þá þarf að skipta í leikskólamálið svo allir geti verið með.

Umhverfisvænt útinám

Leikskólinn Ösp er lítill og heimilis­legur skóli sem er stað­settur í miðju Fellahverfi. Í samræmi við það er lögð áhersla á umhverfismennt og útinám, ásamt auðugu málumhverfi. Lögð er áhersla á rólegt og heimilislegt andrúmsloft, þannig að öllum finnist notalegt að koma í skólann, hvort sem er í lengri eða skemmri tíma.

Hópastarf í leikskólanum Ösp.

You may also like...