Bærinn þarf að endurgreiða framlögin
Seltjarnarnesbær þarf að leysa húsið sem ætlað var fyrir lækningaminjasafn til sín og endurgreiða ríkinu 100 milljónir króna.
Einnig kallar Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur eftir uppgjöri upp á um 110 milljónir króna. Bæjarfélagið þarf samkvæmt því að endurgreiða yfir 200 milljónir króna en húsið sem safninu var ætlað verður eign þess. Í bréfi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til Seltjarnarnesbæjar frá 13. mars síðastliðnum kemur fram að ráðuneytið hafi óskað eftir því að fjársýsla ríkisins taki að sér að innheimta stofnkostnaðarframlag ríkissjóðs sem greitt var Seltjarnarnesbæ að upphæð 75 milljónir króna en uppreiknað til janúar 2015 að upphæð 100 milljónir. Upphaf þessa máls má rekja til þess að á árinu 2007 var gerður samningur á milli Seltjarnarnesbæjar, Þjóðminjasafns Íslands, menntamálaráðu-neytisins og Læknafélags Íslands um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands Áætlað var að heildarkostnaður við byggingu hússins næmi 345 milljónum króna. Þar af skyldu ríkið og læknafélögin leggja til 235 milljónir króna en Seltjarnarnesbær það sem á vantaði. Hluti af framlögum hinna fyrrnefndu var erfðagjöf Jóns Steffensen prófessors til íslenska ríkisins sem þá var metin á 110 milljónir króna. Sú gjöf var bundin þeim skilyrðum að fénu yrði varið í þágu lækningaminjasafns í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Eins skyldi mennta- og menningarmálaráðuneyti styrkja reksturinn með árlegu framlagi sem væri bundið vísitölu. Bærinn sagði sig frá samningnum Um miðjan desember 2012 sagði Seltjarnarnesbær sig frá samningum þar sem ekki náðist samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneyti um aukin framlög ríkissjóðs til verkefnisins. Meirihluti bæjarstjórnar taldi forsendur samningsins brostnar, einkum vegna þess að heildarkostnaður við safnabygginguna hefði farið langt fram úr áætlun. Hann var þá áætlaður um 700 milljónir króna eða tvöfalt meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Einnig taldi meirihlutinn að rekstrarkostnaður safnsins hefði verið vanáætlaður í upphafi og að hlutdeild sín í honum væri of mikil. Að svo komnu máli lagði bæjarstjórn safnið niður og afhenti Þjóðminjasafni Íslands þá muni sem það hafði varðveitt. Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar lögðu aftur á móti til að fara þess á leit við ríkið að samningurinn um safnið yrði framlengdur um eitt ár á meðan kannaðir yrðu möguleikar á nýjum samningi sem falið gæti í sér breytt hlutverk safnsins og nýja tímaáætlun. Ekkert liggur fyrir um framtíð hússins eða hver nýting þess mun verða í framtíðinni.