Ný umferðarljós enn á fastri stýringu
– bannað að sofa í tjöldum og húsbílum utan sérmerktra svæða –
Nokkur mál voru til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar nýlega. Þar á meðal mál sem snertir umferðarljós og umferðarstýringu. Komið hafa fram ábendingar um að nýr búnaður hafi ekki virkað sem skyldi og íbúar orðið varir við óvenjulega mikinn umferðarþunga við ljósin. Fram kom á fundinum að ljósin væru ekki komin í fulla virkni þar sem tveir skynjarar væru bilaðir og ljósin því ekki umferðarstýrð heldur á fastri stillingu.
Ákveðið var á fundinum að fela sviðsstjóra skiplags- og umhverfissviðs að leggja samþykkta umferðaröryggisáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir næsta fund nefndarinnar þar sem málið verður skoðað heildstætt. Þá var rætt um bílastæði en ábendingar höfði frá íbúum um að ferðavögnum/húsbílum sé lagt í almenn bílastæði sem eingöngu eru ætluð fólksbílum. Nefndin fól sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að kanna mögulegar lausnir varðandi tímabundin stæði fyrir ferðavagna yfir sumartímann innan bæjarmarkanna. Einnig var rætt um ferðamenn sem gista í tjöldum og ferðavögnum eða húsbílum utan sérmerktra svæða sé óheimil skv. 10. gr. Lögreglusamþykktar Seltjarnarnesbæjar nr. 555/2010. Nefndin fól sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að fylgja eftir ákvæðum 10. gr. fyrrgreindrar samþykktar.