Nálægðin einn af kostunum

Sigurður Brynjólfsson

Á myndinni eru Brynjólfur og Jóhanna ásamt barnabörnum sínum. Efri röð: Gunnar Sigursson, Jón Kári Gunnarsson, Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir, Pálmi Sveinsson, Brynjólfur Sigurðsson og Snorri Sigurðsson. Neðri röð: Helena Toft, Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir, Daníel Toft og Brynófur Halldórsson.

Brynjólfur Halldórsson skipstjóri spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Hann hélt ungur til sjós og var stýrimaður og síðar skipstjóri á aflaskipum síðast hjá Ögurvík. Brynjólfur man tímana tvenna á miðunum.

Upplifði allar helstu breytingar og framfarir sem hafa orðið við fiskveiðar á undangenginni hálfri öld og einnig þær hættur sem á hafinu leynast og nálægð við erfiða atburði. Brynjólfur hefur búið á Seltjarnarnesi frá árinu 1968 og segir að konan sín hafi byggt tvisvar yfir fjölskylduna við Látraströndina. „Ég er uppalin í Laugarnesinu. Foreldrar mínir bjuggu við Laugarnesveginn sem þá var eina gatan í hverfinu. Svo kom Hrísateigurinn og þangað voru flutt hús sem staðið höfðu á flugvallarsvæðinu og þegar þurfti að rýma til þar voru þau flutt í Laugarnesið. Ég flutti fyrst á Seltjarnarnes 1968 en hafði kynnst því nokkuð áður þar sem systir mín átti heima við gömlu Skólabrautina sem nú heitir Valhúsabraut. Fyrstu kynni mín af Seltjarnarnesi leiddu nú ekki beinlínis til þess að hugur minn stæði til að flytjast þangað og sagði einhverju sinni við systur mína að ég tryði ekki að þau ætluðu að flytja á þennan rokrass.“

Fékk forsetabréf til að giftast

Brynjólfur stofnaði snemma sitt eigið heimili og leið hans lá í vestur. Fyrst í Vesturbæinn í Reykjavík en síðar á Seltjarnarnes. „Já – ég gifti mig ungur. Var ekki orðinn 21 árs eins og tilskilið var í lögum og varð því að fá forsetabréf til þess að mega gifta mig en konur máttu þá giftast 18 ára en karlar 21 árs. Ég man að þegar ég fór upp í Garðastræti til séra Þorsteins Björnssonar Fríkirkjuprests þeirra erinda að fá hann til þess að gifta okkur að þegar hann leit á dagsetningarnar sagðist hann ekki geta framkvæmt giftingarathöfnina því ég væri of ungur. Þetta leystist þó. Ég fór niður í dómsmálaráðuneyti og fékk umrætt bréf og séra Þorsteinn gifti okkar síðan. Konan mín heitir Jóhanna Sigurðardóttir og er ættuð af Brávallagötunni í Vesturbænum. Fyrsta heimili okkar var á Tómasarhaganum í Vesturbænum og við vorum þar þangað til við fórum á Látraströndina. Fjölskyldan stækkaði líka smám saman því við eignuðumst þrjú börn. Ég vandist norðangarranum og við byggðum líka þannig að hafa skjól fyrir hafáttinni. Svo kom sér vel fyrir mig að af Nesinu var stutt á bryggjuna.“

Sjóveiki og aftaka verður

En að sjónum og sjómennskunni. Brynjólfur segist oft hafa hugsað til þess af hverju hann varð sjómaður og skipstjóri því hann hafi þjáðst svo af sjóveiki að til vandræða hafi horft. „Ég held að íslenski þráinn hafi valdið því að ég hét áfram eftir fyrstu sjóferðina. Ég fór fyrst á sjóinn á Heimakletti sem skráður var í Vestmannaeyjum og var þá 16 ára gamall. Við fórum á lúðu og vorum sex daga í túrnum. Ég var að beita í beitingarskýlinu og var svo sjóveikur að ég ældi ofan í balann. Og þegar við vorum að borða var ég látin sitja næst dyrunum vegna þess að ég var oft að hlaupa út á borðstokk til þess að æla. Karlarnir sögðu að ég yrði að borða jafnvel þótt ég skilaði því mestöllu upp aftur sökum sjóveikinnar. Á heimleiðinni úr lúðutúrnum bættist önnur lífsreynsla við sem hefði átt að draga kjarkinn úr mér stráklingnum því við lentum í páskahreti. Við fengum afspyrnu vont veður og meðal annars brotnuðu rúður í brúnni. Þetta eru fyrstu kynni mín af því sem síðan var ævistarfið.“

Hörmung að sjá Portúgalana

„Sjóveikin eltist þó af mér alla vega að mestu. Ég hef þó fundið fyrir henni svona öðru hvoru. Sumarið eftir lúðuveiðarnar á Heimakletti fór ég á Grænlandsmið. Við vorum við Vestur Grænland og þar voru Portúgalar að veiðum á þeim tíma. Þeir bjuggu við mjög frumstæða veiðitækni. Höfðu ekkert annað en handfæri og hver sjómaður var settur út í litinn bát sem voru kallaðir doríur þar sem hann renndi færinu fyrir borð í von um að biti á öngulinn. Okkur fannst hrein hörmung að sjá þetta. Afköstin voru lítil og aðbúnaðurinn hræðilegur. Ef þoka skall á þeyttu Portúgölsku skipstjórarnir skipsflauturnar og þá gátu sjómennirnir róið á hljóðið og fundið móðurskipið. Næðu þeir ekki að finna skipið gat voðinn verið vís. Við gáfum þeim stundum vettlinga því þeir voru oft berhentir og blautir með færin í höndunum.“ Brynjólfur segir að gegndarlaus ofveiði hafi átt sér stað á þessum tíma. „Þegar maður lítur til baka hryllir mann við hvernig staðið var þessu. Skársti fiskurinn var hirtur, sá sem passaði fyrir markaðinn en hitt fór allt til baka í sjóinn.“

Á Nýfundnalandsmiðum 1959

Brynjólfur starfaði hjá útgerð Tryggva Ófeigssonar sem var athafnamaður í sjávarútvegi fram eftir síðustu öld eða allt til þess að skuttogararnir tóku við af síðutogurunum. Ég fór á Marsinn haustið 1954 sem var einn togara Tryggva og starfaði á togurum hans þar til að hann hætti útvegsstarfsemi. Það sem minnisstæðast er frá þeim árum er að í febrúar 1959 lentum við í aftaka verði á Nýfundnalandsmiðum. Hvassviðrið náði 12 vindstigum þegar mest var eins og vindur var mældur þá og allt yfir 10 vindstig var skilgreint sem rok og 12 vindstig oft nefnt fárviðri. Í þessum vindhraða getur allt lauslegt fokið og skyggni er oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri. Við vorum að taka fyrsta halið um borð um kvöld þegar spáð var vitlausu veðri. Loftvogin hékk beint niður sem gaf til kynna að mjög djúp lægð væri á leiðinni. Svo byrjaði að hvessa og við drógum trollið inn með hraði og gerðum allt klárt til þess að lóna upp í vindáttina. Frostið var um átta gráður og sjórinn um mínus ein gráða. Þegar fór að gefa á fraus sjórinn næstum um leið utan á skipinu og varð að klaka sem hlóðust upp. Ég var á vakt í brúnni um nóttina og lónaði allan tímann upp í veðrið. Ég hélt einum brúarglugga opnum til að geta fylgst með að utan en hinir voru frosnir. Um átta leitið var mannskapurinn ræstur og þá fóru loftskeytamennirnir að kallast á til að afla frétta hvorir af öðrum. Og þá kom í ljós að eitt skipið svaraði ekki köllum. Það var togarinn Júlí frá Hafnarfirði. Við heyrðum aldrei neitt frá honum og líkast til hefur hann verið kominn niður þarna um morguninn. Síðast mun hafa spurst til Júlí deginum áður að togarinn Austfirðingur taldi sig hafa heyrt til skipsins og virtist þá ekkert að um borð. Skömmu eftir að fárviðrið skall á sást til skipsins af togaranum Júní og er það hið síðasta sem til togarans hefur sést. Hann var á síðasta tíma í túrnum og orðinn hlaðinn og þyngri fyrir vikið. Hann hefur trúlega ekki staðist álagið og snúist og sokkið þótt aldrei hafi verið hægt að fullyrða neitt um það vegna þess að til hans spurðist aldrei. Á þessu augnabliki var ljóst að togarinn Þorkell Máni var kominn í vandræði. Mikill ís hafði hlaðist á skipið og um 45 gráðu halli kominn á það. Til að bregðast við þessu og að bjarga skipinu fór vélstjórinn með logsuðutæki út og brenndi báða björgunarbátana af til þess að létta skipið en þeir voru ekkert annað en stórir ískögglar. Við ræstum allan mannskapinn út og eins var gert á öðrum skipum á svæðinu sem eins var ástatt um og fórum að berja klakann. Til þess voru öll verkfæri notuð sem finnanleg voru um borð. Sleggjur axir og annað og þessar barsmíðar stóðu samfleytt í tvo sólarhringa. Það tókst að bjarga hinum skipunum og einnig Þorkeli Mána sem var fylgt heim en endalok Júlí og áhafnar hans sátu föst í mörgum. Þarna fórust 30 manns. Hinum tókst að snúa undan þegar aðeins fór að lægja og komast í hlýrri sjó. Við það minnkaði hættan á ísingunni eða hún varð minni. En þetta voru ekki einu slysfarirnar í febrúar þetta ár því vitaskipið Hermóður fórst skömmu síðar eða þann 18. febrúar við Stafnes undan Reykjanesi og með honum 12 manns á aldrinum 16 til 65 ára. Þar misstu fimm konur eiginmenn sína og 17 börn sáu föður sinn ekki framar. Þetta voru því tvö þung högg á skömmum tíma og upp úr því var lífeyrissjóður sjómanna settur á stofn.“

Skip-2

Þessi mynd er tekin af áhafnarmeðlim á skipstjórnarárum Brynjólfs og sýnir hvernig ágjöfin gat gengið yfir skipin þegar hvasst var. Sjómennirnir vöndust þessu sem hluta af daglegu lífi um borð.

Sátum uppi með fyllibytturnar

Eftir árin hjá Tryggva var Brynjólfur um tíma stýrimaður hjá Arinbirni á Sigurði VE sem var í eigu Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum sem stundum var kallaður Einar ríki. Sigurður var þá síðutogari en var síðar breytt í nótaskip til veiða á uppsjávarfiski. „Sigurður VE var feikilega gott skip og ég man hvað hann var öflugur þegar við vorum að fara í gegnum ísspangir við Austur Grænland. Ég var líka skipstjóri á togaranum Geir sem gerður var út af Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni um tíma. Þetta var á síldarárunum og þá var oft erfitt að manna skipin. Allur betri mannskapur sótti í síldina þar sem von gat verið á uppgripum en við togaraskipstjórarnir sátum uppi með það sem ég get alveg kallað fyllibyttur. Þegar halda átti út byrjaði maður oft á Skeifunni þar sem Hamborgarabúlla Tómasar er nú og var kaffistaður við höfnina ég hélt síðan niður í Hafnarstræti til þess að tína áhöfnina saman. Flestir voru blindfullir og stundum var siglt vestur undir Jökul og beðið þar meðan rann af mannskapnum. Oft gátu þetta verið ágætis sjómenn þegar þeir voru komnir í lag en á þessum árum gat maður alveg sleppt því að byrja að veiða fyrstu átta tímana eftir að landfestarnar voru leystar. Eftir að síldin hvarf breyttist þetta og auðveldara var að ná í góðan mannskap. Síðar taldist til tilviljunar ef áhafnarmeðlimur kom fullur um borð.“

Norðmennirnir voru aftan í okkur í Barentshafinu

Svo hófst skuttogaraöldin,“ heldur Brynjólfur áfram. „Ég fór til Ögurvíkur 1972 á Ögra sem var þá nýr skuttogari smíðaður í Póllandi. Það komu nokkrir togarar sem voru smíðaðir þar og gengu jafnan undir nafninu „pólsku togararnir“ vegna þess hvaða þeir voru upprunnir. Þetta voru góð skip og með skuttogurunum breyttist margt um borð – bæði aðbúnaður og vinnuaðstaðan. Einn gamall draugur birtist þó hjá mér við að fara á skuttogara. Það var sjóveikin. Brúin á síðutogurunum var miðskips en á þessum nýju skipum var maður kominn fram á hvalbak. Hreyfingarnar voru öðruvísi og ef vont var í sjóinn kom það meira fram í enda skipsins en í því miðju. Þetta lagaðist þó fljótt og ég átti mjög góð ár hjá Ögurvíkinni. Við vorum á ísfiskveiðum og sigldum með aflann einkum til Þýskalands og sérsaklega til Bremenhafen en einnig til Bretlands.“ Brynjólfur fór líka í Barentshafið og veiddi í Smugunni. „Já ég veiddi í Smugunni. Það eru tímabil sem fiskurinn gengur þarna yfir og þá sóttu skipin þangað. Við bjuggum við að Norðmenn töldu okkur ekki hafa rétt til þess að veiða þarna þótt þeim gengi illa að standa á þeim rétti. Þeir voru alltaf aftan í okkur en ég man að það kom eitt sinn amerískt skip þarna á veiðisvæðið og þeir létu það alveg í friði. En upp úr þessu var svo samið um hvað mætti veiða. Þetta var auðvitað svolítið tímafrek og einnig kostnaðarsöm útgerð vegna þess hversu langt er héðan norður í Barentshafið. Þetta er um sex daga stím hvora leið.“

Með heyrnarskerta í áhöfninni

Eitt af því sem Brynjólfur gerði á skipstjórnarárum sínum var að ráða heyrnarskerta einstaklinga um borð. „Já – ég var með heyrnarlausa menn á áhöfninni á Ögra en þeir gátu talað saman með táknmáli. Þetta byrjaði þannig að þegar ég var með Marsinn þá komu tveir heyrnarlausir drengir um borð og voru settir á mína vakt. Ég vildi láta reyna á þetta og þetta voru ágætis einstaklingar. En svo fór að bátsmaðurinn treysti sér ekki til þess að vinna með þeim þótt skipstjórinn gerði það. Því fór svo að ég varð að láta þá fara frá borfði. Að segja drengjunum upp eru einhver þyngstu spor sem ég hef þurft að stíga á sjómennsku- og skipstjórnarferlinum. En svo gerist það að þegar ég var með Ögra þá komu þeir um borð til mín og spurðu um hvort þeir gætu fengið pláss. Ég tók þeim fagnandi og það þróaðist samskiptamál á milli okkar. Þegar kallkerfið bilaði og maður varð sambandslaus við dekkið var brugðið á það ráð að nota skipsflautuna og þótt þeir hefðu nánast enga heyrn náðu þeir að merkja hana. Svo gerist það að þeir áttu félaga sem eins var ástatt um. Voru líka heyrnarskertir eða heyrnarlausir. Þessir strákar voru að fylgja þeim niður á bryggju þegar þeir voru að fara um borð. Þetta þróaðist með þeim hætti að þeir sýndu áhuga á að fá að prufa að koma í skiprúm og það fór þannig að um tíma var ég með fimm heyrnarskerta eða heyrnarlausa einstaklinga í áhöfninni en gætti þess alltaf að hafa þá á sömu vaktinni vegna þess að þeir gátu tjáð sig saman á táknmáli. Ég man eftir einu dálítið sérstöku atviki á þeirra vakt. Ég veitti því athygli að allt í einu var enginn fugl var á eftir skipinu sem þýddi að ekki var verið að vinna að aðgerðinni. Ég fór því að aðgæta hvað ylli og þegar ég kom niður sá ég þeir heyrnarlausu sem voru á vaktinni höfðu slíðrað hnífana en voru komnir í hörkurifrildi. Allt fór það fram á táknmáli svo það var mikill handagangur. Ég komst aldrei að því hvert ágreiningsmálið var en þetta jafnaði sig fljótt og strákarnir héldu aftur til starfa eins og ekkert hefði í skorist. Ég náði góðu sambandi við þá með merkjamáli sem við bjuggum okkur til en stundum varð maður að sýna nokkra þolinmæði. En þetta voru allt ágætir strákar.“

Nálægðin einn af kostunum

En aftur heim á Nesið. Brynjólfur segir að þrátt fyrir ótta af rokinu í byrjun hafi verið mjög gott að búa á Seltjarnarnesi. „Lífið þróaðist svipað og hjá öðrum sem störfuðu á sjónum og voru löngum stundum að heiman. Ég var heppin að því leyti að ég er ákaflega vel giftur og konan annaðist um verkefnin í landi af kostgæfni þótt hún ynni úti reyndar oftast hálfan daginn með allri umsjón með fjölskyldunni. Ég segi stundum til gamans að hún hafi byggt þrisvar yfir okkur og í tvö skiptin á Seltjarnarnesi. Fyrst raðhúsið við Látraströndina og síðar fengum við lóð innar við götuna þar sem við eða hún byggði einbýlishúsið. Hún þurfti oft að annast um verkstjórn og sjá um bankamálin. Það var hún sem sló víxlana því þeir voru algengasta lánaformið á þeim tíma sem við vorum að byggja. Þetta var það líf sem sjómannskonur bjuggu við í gegnum árin og stóðu sig ábyggilega flestar mjög vel. Það hjálpaði líka til hversu nálægðin á Nesinu er mikil. Stutt í skólann og í alla starfsemi fyrir krakkana. Það þurftu ekkert að eyða tíma í skutl. Þau hlupu bara á milli. Ég held að nálægðin sé einn af kostunum við að búa á Seltjarnarnesi.“

You may also like...