Öldungaráðin þurfa stjórnsýslulega stöðu
– segir Kristbjörg Ólafsdóttir formaður Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi –
Kristbjörg Ólafsdóttir formaður Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Kristbjörg starfaði lengi sem stjórnandi í atvinnurekstri og síða við eigin rekstur. Þegar hún þurfti að breyta um venti hún kvæði í kross og fór til náms þar sem hún lagði stund á vistfræði og kynjafræði. Hún skrifaði ritgerð um eldri borgara á Seltjarnarnesi og var síðan fengin til þess að taka að sér formennsku í félagi eldri borgara. Hvað gera félög eldri borgara.
Hvaðan kemur Kristbjörg. Er hún Seltirningur í húð og hár. Nei ég er fædd og uppalin á Akranesi. Kom suður fjórtán ára gömul og hef verið í Reykjavík og á Seltjarnarnesi síðan. Lengst af bjó ég í Vesturbænum. Var um tíma í Noregi og flutti á Nesið þegar ég kom til baka þaðan. Við erum búin að vera hér í 24 ár.” Kristbjörg segir hvergi betra að vera en á Seltjarnarnesi. “Mér finnst þetta vera dásamlegur staður. Sérstaklega náttúran og útsýnið og síðan aðstaðan til útiveru. Stundum er sagt að allir þekki alla en ég held að það sé ofmælt. Þegar maður missir af krökkunum í skóla kynnist maður ekki eins mörgum. Vera má að það stafi að einhverju leyti af því að ég er aðflutt. Ég þekki þó fullt af fólki hér. Ég er ekki mikil félagsvera í mér þótt ég hafi komið mér í þetta starf sem ég er að sinna. Mér finnst alltaf mest gaman að fara út í náttúruna og njóta þess að vera úti.”
Skrifstofustjóri og verslunarmaður
Kristbjörg starfaði lengst sem skrifstofustjóri hjá Coka Cola eða Vífilfelli sem var með skrifstofur í Haga við Hofsvallagötu. “Ég vann þar sem stjórnandi í aldarfjórðung. Ég stofnaði síðar verslun sem hét Max Mara og var við Hverfisgötu í Reykjavík. Dóttir mín bjó á Ítalíu og ég fékk sambönd þar og flutti inn vörur frá Max Mara. Það er algjört gæðamerki í ítölskum kvenfatnaði. Þetta gekk ágætlega en í hruninu fór það til fjandans eins og svo margt annað.”
Var með vitlausa kennitölu
Hvað var svo eftir hrunið? “Eftir hrunið reyndi ég í tvö ár að sækja um vinnu. Ég var bæði með reynslu sem stjórnandi hjá stóru fyrirtæki og síðan af innflutningi og verslunarrekstri og gerði ráð fyrir að það hefði eitthvað að segja. En sannleikurinn er sá að ég fékk ekki einu sinni viðtal. Svarið var að ég væri með vitlausa kennitölu. Með öðrum orðum að ég væri of gömul til að hægt væri að ráð mig í starf. Einstaklingur getur víst ekki skipt um kennitölu þótt fyrirtæki geri það.”
Í vistfræði og kynjafræði
Kristbjörg segir að þegar ekkert hafi gengið með atvinnusóknum hafi hún ákveðið að snúa blaðinu við. “Ég dreif mig í skóla. Ég byrjaði að ljúka stúdentsprófinu því mig vantaði nokkra punkta upp á það. Þaðan lá leiðin í háskóla þar sem ég lagði stund á vistfræði og kynjafræði. Þar skrifaði ég ritgerð um eldri borgara á Seltjarnarnesi. Vegna þess var haft samband við mig og ég spurð að því hvort ég gæti hugsað mér að taka að mér formennsku í Félagi eldri borgara. Ég hugsaði mig um. Komst að þeirri niðurstöðu að ekkert þýddi fyrir mig að vera röflandi heima hjá mér. Ég hugsaði að ef til vill gæti ég gert eitthvert gagn. Ég sló til og nú er ég búin að vera formaður í eitt ár.”
Öldungaráðin og félög eldri borgara
Félag eldri borgara á Seltjarnarnesi er ungt miðað við sambærileg félög hér á landi. Hver voru tildrögin að stofnun þess? Þau eru að sett voru lög um að stofna til öldungaráða hjá sveitarfélögum. Því fylgdi að efna til samvinnu öldungaráðanna og félaga eldri borgara í hverju bæjarfélagi. Í þessum lögum er kveðið á um að öldungaráð og bæjar- og sveitastjórnir eigi að hafa samráð um málefni eldri borgara í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Hér vantað félag eldri borgara til að uppfylla þessi skilyrði. Þetta gengur þannig fyrir sig hér á Seltjarnarnesi að kosnir eru þrír aðilar sem fulltrúar bæjarstjórnar og þrír frá Félagi eldri borgara. Síðan er einn formaður kosinn sem bæjaryfirvöld velja. Þessi hópur kemur saman minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Nú er búið að skipa formann öldungaráðs Hildigunni Gunnarsdóttur og ég er komin í samband við hana.
Um 20% Seltirninga eru eldri borgarar
Kristbjörg segir að vegna þessarar stuttu sögu sé félagið er því ekki eins tengt starfinu og er víða annars staðar þar sem Félög eldri borgara hafa starfað mun lengur. “Ef ég nefni Garðabæ sem dæmi þá er félag eldri borgara þar búið að starfa lengi og Öldungaráðið fer með sitt starf í genum það félag. Það þýðir að félagið er virkara að mörgu leyti og full vinna fyrir það að sinna þessum verkefnum sem voru mótum með því og í gegnum það strax í byrjun. Þar annast félagið meðal annars um námskeiðahald fyrir eldra fólk. Hér höfum við hugsað vel um þessa hluti en þó má alltaf gera betur. Aðaláhugamál mitt núna og stjórnarinnar er að fá fleira fólk inn í félagið. Ég hef sérstaklega áhuga á að fá fólk sem er í yngri kantinum. Fólk um sextugt og eldra. Þótt við stöndum vel og höfum það gott þarf að huga að hvert við stefnum. Eldri borgurum hefur fjölgað ört að undanförnu og nú er um um 20% bæjarbúa í þeim aldurshópi. Þessum aldurshóp á eftir að fjölga og við þurfum að huga vel að því hvað við ætlum að gera í framtíðinni.”
Vantar lóðir fyrir litlar íbúðir og lífsgæðakjarna
Kristbjörg segir eitt helsta baráttumál Félags eldri borgara vera kjaramálin. Nauðsynlegt sé og eðlileg krafa að lágmarkslífeyrir fólks verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Einnig sé nauðsynlegt að henda öllum skerðingum og fólk geti fengið að starfa án þess að glata réttindum. Svo eru velferðarmálin. “Eðlilegt sé að sveitarfélög hlutist til um byggingu leiguíbúða fyrir eldra fólk á viðráðanlegu leiguverði Gera þarf fólki kleyft að geta búið sem lengst heima og fengið þá þjónustu sem það ef til vill þarf. Fólki finnst þægilegt á allan máta að vera heima á heimilum sínum. Það leysir ekki allan vandann að byggja hjúkrunarheimili. Í þau fara milljarðar á milljarða ofan en þau eru fyrir þá sem verst eru farnir að atgervi. Andlegu sem líkamlegu. Einn þessara þátta eru húsnæðismál aldraðra þar sem við erum í mjög slæmum málum. Erfitt er að finna byggingalóðir fyrir félagslegt húsnæði fyrir eldri borgara. Ég vil einnig nefna svonefnda lífsgæðakjarna í þessu samandi. Byggðir þar sem litlar íbúðir eru byggðar í tengslum við ýmsa félagslega starfsemi fyrir íbúana. Þar sem heimili og þjónusta eru tengd saman.”
Öldungaráðin þurfa stjórnsýslulega stöðu
“Stóra málið er að eldra fólk þarf fjölbreyttari búsetuúrræði og heilsugæslu. Þótt dýr hjúkrunarrými leysi ekki allan vanda þá er veikt eldra fólk fórnarlömb langvarandi skorts á slíkum úrræðum. Því er mikilvægt að endurskoða lög um greiðsluþátttöku og þá þjónustu sem veitt er á þessum heimilum. Ég vil einnig benda á mikilvægi þess að öldungaráðin hafi stjórnsýslulega stöðu í skipulagi sveitarfélaga og þeim gert kleyft að gegna því mikilvæga hlutverki sem lög kveða á um.” Kristbjörg segir að haldin hafi verið fjölmennur landsfundur öldungaráða á liðnu vori. “Þar voru megin áherslumálin sett niður í fjögur í samráð við bæjar- og sveitarstjórnir. Við þurfum að nýta þetta mikilvæga tækifæri meira.” Kristbjörg bendir að lokum á að Félag eldri borgara sé með heimasíðu feb@simnet.is og hvetur fólk til þess að setja sig samband við félagið.