Geggjað gaman að búa í Efra-Breiðholti
– segja Ella Rhayne Guevarra Tomarao og Louise Shayne Mangubat Canonoy –
Ella og Louise eru nemendur í Fellaskóla. Þær stóðu fremst á sviði á úrslitakvöldi Skrekks 21. nóvember sl. Krakkarnir í Fellaskóla gerðu sér lítið fyrir og lentu í öðru sæti Skrekksins annað árið í röð. Atriðið þeirra bar titilinn Efra-Breiðholt þar sem draumarnir okkar geta ræst og fjallaði um unga stelpu sem er á leiðinni í Salalaug með vinkonum sínum á ,,Bopp“ hjóli en lendir í því óhappi að hjólið verður rafmagnslaust fyrir utan Fellaskóla í Breiðholti. Stelpan hefur aldrei komið áður í Breiðholt og fyllist af hræðslu að vera komin á þennan stórhættulega stað en kemst síðan að því að það er ekkert að hræðast. Atriði Fellaskóla byggir á öflugri tónlistarsköpun í skólanum. Öll tónlistin í atriðinu var frumsamin.
Ella og Louise sem eru í áttunda og tíunda bekk Fellaskóla hittu Breiðholtsblaðið á dögunum. Þær segja að unglingar í Fellaskóla vilji breyta neikvæðum hugmyndum fólks á Efra-Breiðholti og sýna allt sem hverfið hefur að bjóða. „Fjölmenning, gleði og sköpun eru orð sem koma upp í hugann þegar við hugsum um hverfið okkar. Við viljum hvetja alla til að mæta í Efra- Breiðholti með opnum hug og koma í heimsókn og sjá þetta fallega borgarhverfi. Því að það er geggjað gaman að búa í Efra- Breiðholti,“ segja þær.
Hafa búið alla tíð hér á landi
Ella og Louise eiga ættir að rekja til Filippseyja. Þær eru ekki ættleiddar heldur hafa þær búið hér á landi með fjölskyldum sínum allt sitt líf. Þótt þær séu samlandar eru fjölskyldur þeirra frá sitt hvorri eyju enda margar eyjar í Filipseyjaklasanum. Fjölskyldur þeirra tala því hvor sitt tungumálið. Fjölskylda Ellu talar tungumál sem kallast bisaya visaya og fjölskylda Louise talar waray. Þær eru því í raun þrítyngdar. Tala tungur fjölskyldna sinna auk góðrar Íslensku og svo slæðist Enskan eðlilega með. Ella segir að foreldrar sínir tali móðurmál sitt við sig. „En ég svara þeim oftast á ensku því ég hef ekki næga þjálfun í að tala málið þótt ég skilji það.“
Hefur mikinn áhuga á fatahönnun
Ella segist hafa verið 10 ár í Fellaskóla en Louise kom síðar í skólann. Ella er því á loka ári og þarf að hugsa fyrir framhaldsnámi. „Ég hef mikinn áhuga á hönnun einkum fatahönnun. Ég hef aðeins prófað að hanna föt. Ég hef verið að búa til buxur í textíl tímum. Stundum á sjálfa mig.“ Ella stendur upp á sýnir komumanni jakkann sem hún er í. „Ég hannaði hann og saumað sjálf. Ég held að ég láti þennan áhuga ráða ferðinni þegar ég fer að finna mér framhaldsskóla og námsbraut. „Mig langar mest að komast í Tækniskólann en ef það gengur ekki þá er Menntaskólinn við Hamrahlíð næsti kostur.“
Þaðan varð ekki aftur snúið
Ella segist hafa byrjað snemma að syngja. „Ég hef alltaf haft gaman af söng og við eigum Karaoke vél heima. Ég hef verið að syngja mikið með henni. Læra og æfa mig.“ Louise tekur undir það. Kveðst einnig hafa sungið mikið og nú hafa sönghæfileikar hennar fleytt henni inn á enn stærra svið, ef svo má að orði komast. Hún verður jólastjarna Björgvins Halldórssonar á tónleikum í ár. Ella bendir einnig á söngkennslu í Fellaskóla. Á síðasta ári fór ég í sönghópa hjá Ingu (Ingu Björgu Stefánsdóttur deildarstjóra tónlistar og sköpunar) í Fellaskóla og þaðan varð ekki aftur snúið. Inga á sinn þátt í því að við Louise vorum í Skrekk. Hún hefur staðið fast á bak við okkur öllum sem tókum þátt í skrekknum. „Það sleppur engin frá Ingu,“ segja þær í félagi og vilja meina að hún eigi stóran hluta í þátttöku og útkomu þeirra í Skrekk.“ Ella segist hafa sungið mikið með Kimberly sem var í keppnishóp Fellaskóla í Skrekk á síðasta ári. „Við sungum líka á afmælishátíðinni,“ bætir hún við.“
Framtíð í leikhúsi
En Skrekkur snýst ekki aðeins um söng. Leiklist kemur einnig mikið við sögu þar sem atriðin eru heil leiksýning. Ella og Louise segja að mikið þurfi að leika. „Við búum til atriði til að sýna og þar er bæði leiklist og söngur á ferðinni. Skrekkur er eiginlega söngleikur. Við byggðum atriðið okkur upp þannig þótt þetta geti verið mismunandi á milli skóla,“ segja þær. Spurning er því um hvort þær eigi framtíð fyrir sé í leikhúsi. Ella sem búningahönnuður með meiru og Louise sem söngvari og leikari. Þær brosa að hugmyndinni.
Skólinn er frábær
En er lífið fyrir unglinga í Breiðhorninu. Hvernig er að samlagast öðrum krökkum. Ella grípur orðið. „Ég er ef til vill ekki svo mikið úti. Er svona heimakær. En þegar ég fer út þá gengur mér ágætlega að samlagast öðrum krökkum. Mér finnst góður mórall í kringum mig.“ Louise tekur undir. „Þetta eru fínir krakkar.“ Þær segjast ekki finna fyrir fordómum vegna uppruna síns. Skólinn er líka frábær. Ella hefur búið í Fellunum allt sitt líf en Louise kom síðar. „Hér eru krakkar frá mörgum löndum og gengur vel að starfa og vera saman. Í Fellaskóla er lögð áhersla á þetta fjölmenningarlega samfélag sem er hér. „Ég fer mikið í 111 félagsmiðstöðina. Þar er stúdíó þar sem ég get æft mig,“ segir Louise. Sigurinn í Skrekk er fyrir þeim greinilega áfangi á lengri leið. Áfangi sem þær geta nýtt sér í áhugamálum og þeim verkefnum sem þær taka sér fyrir hendur. Árangur Fellaskóla er einnig athyglisverður. Ekki aðeins fyrir skólann heldur fyrir Fellahverfið og það fjölmenningarsamfélag sem þar hefur þróast.