Íris Hrund hlaut hvatningverðlaun gegn einelti
Íris Hrund Hauksdóttir náms- og starfsráðgjafi í Hólabrekkuskóla hlaut hvatningaverðlaun fagráðs gegn einelti hjá Menntamálastofnun. Forsetafrú Íslands, Eliza Reid og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra veittu Írisi Hrund verðlaunin við hátíðlega athöfn í Helgafellsskóla, á degi gegn einelti. Hefur einstakt lag á að ná til nemenda
Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum þar sem Íris Hrund varð fyrir valinu. Í tilnefningu segir að Íris Hrund sé „faglegur leiðtogi innan skólans sem vinnur markvisst að vellíðan, gleði og velferð allra nemenda. Hún hefur einstakt lag á að ná til nemenda á faglegan og lágstemmdan hátt.“ Þannig byggi markviss forvarnarvinna upp ánægða og sjálfsörugga nemendur hefur verið hennar megin viðfangsefni. Hún vinnur leynt og ljóst í anda farsældarlaganna þar sem áherslan er ávallt lögð á velferð barna.
Brennur fyrir hagsmunum barna
Þá segir að; „Íris Hrund hefur komið á og stýrt forvarnarteymi skólans og var með þeim fyrstu að koma slíku teymi á fót. Íris leiðir eineltisteymi skólans og stýrir fundum nemendaverndarráðs af fagmennsku og öryggi. Alla daga vinnur Íris með nemendum skólans, hefur opið hús og hvetur nemendur til að koma til sín hvort sem þeir vilja spjalla, ræða erfið mál eða setja sér markmið til framtíðar. Það sem einkennir Írisi Hrund umfram allt er góð nærvera, fagmennska og hvernig hún brennur fyrir velferð og hagsmunum barna.“
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar óskar Írisi Hrund innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu á hennar mikilvæga starfi.