Stóðst ekki tilboðið
– segir Ingibjörg Jóhannsdóttir sem hefur stýrt Landakotsskóla í átta ár en hverfur nú á braut til Listasafns Íslands –
Ingibjörg Jóhannsdóttur hefur verið skipuð til að gegna embætti safnstjóra við Listasafn Íslands. Ingibjörg hefur verið skólastjóri Landakotsskóla í um átta ár en áður stýrði hún Myndlistaskólanum í Reykjavík. Samanlagt stýrði hún þessum tveimur skólum í Vesturbæ Reykjavíkur hátt í tvo áratugi. Áður en hún tók við skólastjórn hafði hún starfað um þriggja ára skeið við Listasafn Íslands, verið stundakennari við Listaháskóla Íslands og fleiri skóla. Ingibjörg stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hélt síðan til Vesturheims.
Glaðvær söngur mætti tíðindamanni Vesturbæjarblaðsins þegar hann tók hús í Landakotsskóla á dögunum til að spjalla við Ingibjörgu. Ys og þys var á göngum og fljótt mátti heyra ýmis tungumál hljóma. Eitt af því sem þróað hefur verið í Landakotsskóla á undanförnu árum er alþjóðadeild sem ætlað er að sinna börnum af erlendum uppruna. Bæði börnum fólks sem sest hefur hér að eða dvelur um skemmri tíma vegna tímabundinn starfa hér á landi. Ingibjörg býður komu manni inn á skrifstofu skólastjóra og nær í kaffi sem er nauðsynlegt í kuldanum sem ríkt hefur. Komumaður hefur orð á að skrifstofan sé ekki stór. Ingibjörg segir hana vera um helming af þeirri skrifstofu sem var. „En hún dugar vel,“ segir hún og réttir komumanni kaffibollann.
Eftir það varð ekki aftur snúið
Hvaðan kemur Ingibjörg. „Ég er fædd í Reykjavík og alin upp í Laugarásnum. Ég gekk í Laugarnesskóla og þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík. Eftir menntaskóla er það stundum svo að fólk hefur ekki lagt framtíðina niður fyrir sér. Veit ekki alveg hvað það langar til að gera. Ég var ein af þeim. Ég byrjaði í viðskiptafræði en fann fljótt að þar var ekki mína hillu í lífinu að finna. Ég hafði áhuga á myndlist og fór að undirbúa mig að fara í Myndlistar- og handíðaskólann. Ég hafði verið í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Byrjaði þar á menntaskólaárunum. Um 15 til 16 ára aldurinn. Fór að taka námsleið þar en sá skóli var í Tryggvagötu. Eftir árin í Myndlista og handíðaskólanum fórum við hjónin til New York. Ég hafði fengið Fulbright styrk til að stunda listnám við Pratt Institute í New York þaðan sem ég lauk Master of Fine Art prófi. Eftir það varð ekki aftur snúið. Listin og skólastarf átti hug minn.“
Leið vel í heimsborginni
Hvernig var í Now York. “Okkur leið vel í heimsborginni. Við vorum þar í eitt ár eftir að ég lauk námi. Þetta er stórkostlega spennandi staður. Ég var með heimþrá fyrst eftir að við fórum út en ég var með jafn mikla heimþrá til vesturs eftir að við komum til baka. Það segir nokkuð um hversu vel við vöndumst borginni. New York er pottur fyrir alla sem hafa áhuga á listum. Nóg til að fylgjast með og skoða. Lífið getur verið spennandi á alla kanta. Eftir að ég kom heim fór ég að hugsa um hvernig ég gæti gert menntun mína praktíska. Ég fór því í Háskóla Íslands. Í nám sem gaf færi á að fá kennsluréttindi ásamt því að vinna í Listasafni Íslands. Ég var því á tveimur vígstöðvum eða réttara sagt þremur því ég fór fljótlega að kenna við Myndlistarskólanum eftir að ég kom til baka. Ég var þar samfellt í 18 ár. Fyrst að kenna, síðan deildarstjóri og síðast skólastjóri. Alveg þar til ég kom hingað.“
Stóðst ekki tilboðið
Hvað kom til að Ingibjörg snéri sér frá listinni og tók að stýra grunnskóla. „Ég hef aldrei snúið mér frá listinni en ég var búin að ákveða að hætta í Myndlistarskólanum til að prufa eitthvað nýtt. Hafði þó ekki hugsa mér að ráðast í að stjórna grunnskóla þótt ég væri búin að vinna nokkuð við aðalnámskrá fyrir menntamálaráðuneytið þar sem meðal annars var verið að renna styrkari stoðum undir skapandi starf. Ég var líka búinn að vinna nokkuð með grunnskólum. Ég var búin að ráða mig í starf við Háskóla Íslands og var við að taka við því. En dæmið snerist við þegar ég fékk símhringingu héðan. Ég stóðst ekki þetta tilboð frá Landakotsskóla. Þá hafði Sölvi Sveinsson stýrt skólanum í fjögur ár og var að hætta. Stjórnendur skólans höfðu áhuga á að fá einhvern sem væri með listrænar áherslur og gæti skapað honum sérstöðu á því sviði. Nokkur óróleiki hafði verið í kringum skólann eftir að hann var gerður að sjálfseignarstofnun. Séra Hjalti Þorkelsson hafði stýrt honum síðustu árin á meðan hann heyrði beint undir kaþólsku kirkjuna en eftir að breytingar urðu á eignarhaldinu tók nýtt fólk við og meiningar urðu deildar. Sölvi kom í kjölfar þeirra deilna og fljótt var nokkur sérstaða sköpuð meðal annars með því að kenna heimspeki og einnig var farið að leggja mikla áherslu á tungumál. Stjórnendur skólans vildu síðan auka á þessa sérstöðu ekki síst með því að efla kennslu á sviði lista. Þá var leitað til mín því ég kom úr þeim geira. Eftir að hafa hugsað mig um ákvað ég að slá til. Heimantökin voru hæg því Sölvi Sveinsson er mágur minn. Ég gat því alltaf hringt í hann og spurt ef ég var ekki viss. Ég sá að ég ætti að geta ráðið fram úr hlutunum.“
Meiri breidd í skólastarfinu
Svo fórstu að taka til hendinni. „Þegar ég var búin að vera hér í eitt ár kom sú hugmynd upp að fara af stað með alþjóðadeild. Það hefur verið heilmikið ævintýri. Laurie Anne Berg kom hingað að skólanum og er deildarstjóri alþjóðadeildar. Okkur hefði aldrei dottið í hug að gera þetta upp á einsdæmi. Hún kom með þessa hugmynd. Hefur unnið að því að framkvæma hana sem hefur skapað skólanum sérstöðu. Þetta efldi tungumálanámið mjög. Einkum nám í ensku. Með því að vera með þessar tvær deildir hefur orðið til meiri breidd í skólastarfinu og áherslan á skapandi og listrænt nám vaxið. Ýmsar hugmyndir í þessari alþjóðlegu námsskrá sem er frá Cambridge samtökunum hafa aukið möguleikana. Eitt af því er að blanda saman vísindum og hönnun. Þetta starf nær líka inn í íslenskudeildina. Við eigum ákveðna hefð um menningu og listir í íslenskri námsskrá sem alþjóðadeildin nýtur góðs af á móti. Okkur finnst því hafa gefist vel að hafa þessar deildir hlið við hlið. Þær veita hvor annarri stuðning fyrir utan að auka á fjölbreytnina í skólastarfinu. Gefa skólanum styrk og sérstöðu.“
Áhugi á framhaldsdeild
Fyrsta námsárið voru 24 nemendur í alþjóðadeildinni en nú stunda 120 nemendur nám við deildina. „Á því má sjá hversu hratt hún hefur vaxið. Stjórnmálamenn hafa sýnd þessu mikinn áhuga. Bæði stjórnvöld í Reykjavík og einnig á landsmálasviðinu. Fólk gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að hér sé hægt að stunda alþjóðlegt nám á grunnskólastigi fyrir börn þess fólks sem kemur hingað til að sinna ýmsum störfum, oft tímabundnum sérfræðistörfum sem lúta að stjórnun og rekstri samfélagsins og nýsköpun. Fólk spyr oft fyrst ,þegar það er að velta fyrir sér að flytja á nýjan stað, hvort börn komist í skóla sem sé hugsaður út frá alþjóðlegu umhverfi og unnið eftir alþjóðlegri námskrá. Oft fer þetta fólk til baka eftir einhvern tíma og þá þurfa börnin að geta dottið aftur inn í sambærilegt kerfi. Námskráin í alþjóðadeildinni gerir miklar kröfur. Því getur verið erfitt fyrir nemendur að ná tökum á henni og þurfa að tileinka sér alveg nýtt tungumál í leiðinni. Því fer kennslan að mestu fram á ensku. Þessu fylgir líka að hingað streyma ólík menningaráhrif sem er spennandi og skemmtilegt að upplifa.“ Ingibjörg segir að börn hefji nám í fimm ára bekk í Landakotsskóla. Þróunin hafi orðið sú að biðlistar séu nú í öllum bekkjum. Flestir kjósi að ljúka sjöunda bekk. „Við þau aldursmörk finnist sumum spennandi að breyta til og fara yfir í Hagaskóla sem er safnskóli fyrir áttunda til tíunda bekk Vesturbænum. Á liðnu hausti fóru þó mjög fá börn yfir og eru flest áfram hér í áttunda bekk. Krakkar sem byrjuðu hér í fimm ára bekk þegar ég tók við skólastjóra starfinu eru flest í skólanum í dag. Nú hefur vaknað áhugi í að koma upp framhalds bekk við Landakotsskóla. „Flestir alþjóðlegir skólar sem við erum að vinna með eru með samfellt nám upp í tólfta bekk. Við erum búin að vinna aðeins að því máli en höfum ekki náð lendingu enn sem komið er. En hver veit.“ Ljóst er þó að tíma Ingibjargar við Landakotsskóla verður lokið þegar þar að kemur því hún er nú á leið að taka við starfi safnstjóra Listasafns Íslands.