Ég hef verið út um víðan völl
– segir Júlíus Sólnes prófessor og fyrrum alþingismaður og ráðherra –
Út um víðan völl nefnist ævisaga Júlíusar Sólnes prófessors sem kom út undir lok liðins árs. Í bókinni fer Júlíus eins og nafnið bendir til út um víða völl en hann hefur komið víða við á lífsleiðinni. Júlíus hefur unnið við verkfræðistörf og komið að margvíslegum framkvæmdum meðal annars að byggingu Kröfluvirkjunar sem setti þjóðfélagið nærri á hvolf út af illvígum deilum á sínum tíma. Júlíus hefur einnig tekið þátt í stjórnmálum. Hann var einn af stofnendum Borgaraflokksins og gegndi fyrstur manna starfi umhverfisráðherra hér á landi eftir að það embætti var stofnað 1990. Júlíus átti einnig um tíma sæti í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi þar sem hann bjó um hríð. Júlíus settist niður með Nesfréttum á Kaffi Örnu á dögunum.
Júlíus hefur farið um víðan völl eins og hann nefnir ævisögu sína. Komið víða vel mætti einnig orða það. Fyrir utan ýmis störf tengd fagi hans verkfræðinni tók hann þátt í stjórnmálum. Bæði á Seltjarnarnesi þar sem hann átti sæti í bæjarstjórn um tíma og einnig í þjóðmálunum en hann var einn af stofnendum Borgaraflokksins og fyrsti ráðherra hans. Því liggur beinast við að spyrja hann um hvort stjórnmálin hafi blundað undir niðri í honum frá fyrstu tíð. Hann neitar því. Hann hafi ekki haft mikinn pólitískan áhuga á yngri árum. „Nei ég var ekki mjög pólitískur ungur maður. Mér fannst margt annað koma til greina í lífinu, Ég ólst þó upp í pólitísku umhverfi. Pabbi var mjög pólitískur og hjá honum gekk allt út á pólitík. Hann sat í bæjarstjórn á Akureyri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og átti síðar aðkomu að landsmálunum meðal annars með þingsetu. Hann var í þessu af lífi og sál. Ég hafði önnur áhugamál þegar ég var í menntaskóla og tók engan þátt í ungliðastarfi flokksins. Ég man að faðir minn tók mig einhverju sinni með sér á skemmtun hjá Sjálfstæðisflokknum í Vaglaskógi. Ólafur Thors var þar en hann var þá forsætisráðherra. Hann lét mig taka í höndina á Ólafi og það átti að vera innsigli fyrir veru mína í flokknum til æviloka. Ég man að einu afskipti mín af pólitík voru í prestkosningum á Akureyri þegar séra Jóhann Hlíðar sótti um prestsembætti við Akureyrarkirkju. Tveir prestar voru við kirkjuna og annað preststarfið var laust en séra Pétur Sigurgeirsson síðar biskup sinnti hinu en hann var lengi prestur á Akureyri. Þetta var eins og um bæjarstjórnarkosningar eða jafnvel þingkosningar væru að ræða. Kosningaskrifstofur voru opnaðar og menn beinlínis tókust á um hver ætti að verða prestur. Ég var unglingur í menntaskóla. Kominn með bílpróf og var látinn aka kjósendum á kjörstað. Þetta hefur verið eftir að séra Kristján Róbertsson hætti prestsstörfum á Akureyri og flutti til Reykjavíkur þar sem hann gerðist Fríkirkjuprestur. Séra Jóhann hafði þó ekki erindi sem erfiði og séra Birgir Snæbjörnsson var kosinn prestur.“
Pabbi vildi gera mig að bæjarstjóra
Júlíus hélt síðar til Kaupmannahafnar til náms og starfa. Hann kom heim þaðan með fjölskyldu sinni 1974. Þá búið að skipa hann prófessor við Háskóla Íslands. „Ég byrjaði að vinna hér heima 1973 en skildi fjölskylduna eftir í Kaupmannahöfn þann vetur út af skólagöngu krakkanna. Ég var eins og strætó á milli hins gamla og nýja höfuðstaðar landsins þennan vetur en svo ákváðum við að koma öll heim. Um vorið 1974 var haldinn landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Ekki hafði tekist að fylla sæti allra fulltrúa sem Akureyri átti rétt á og það var ekki að skapi föður míns. Hann sagði við mig að sumir hefðu ekki átt heimangengt og að ég yrði að hlaupa í skarðið. Ég féllst á það og var á þessum landsfundi og hitti þar mann og annan eins og gengur. Eftir þetta fór faðir minn að ámálga við mig að ég þyrfti að fara í pólitík. Hann vildi eitt sinn gera mig að bæjarstjóra á Akureyri. En ég hélt nú ekki. Þetta hefur sennilega verið 1976 þegar Bjarni Einarsson lét af störfum en þá tók Helgi M. Bergs síðar háskólakennari á Akureyri við bæjarstjórastarfinu.“
Hundahald ekki bannað
Aðeins meira af Seltjarnarnesi. Varstu lengi búsettur þar. „Fyrstu árin áttum við heima í Tjarnarbóli. Ástæða að við settumst að þar var að þegar við komum heim frá Danmörku vorum við með hund með okkur sem ég hafði fengið leyfi hjá landbúnaðarráðuneytinu til að taka með mér. En þá kom í ljós að hundahald var bannað í Reykjavík. Þá sagði ég við konuna að við skyldum reyna að finna okkur íbúð á Seltjarnarnesi. Þar væri hundahald ekki bannað. Við fundum síðan ágæta íbúð við Tjarnarbólið og fluttum þangað. Okkur leið ágætlega þar en stundum er það svo að mikill vill meira. Við vildum komast í einbýlishús sem var draumur margra á þeim árum. Ég fór að huga að lóðum og fékk lóð við hliðina á Sigurgeir bæjarstjóra. Lóðin var í eigu Nes hf. Vilhjálmur Þór hafði verið (var dáinn þegar þetta gerist) einn af hluthöfum þar. Erfingjar hans höfðu ráðstöfunarrétt á lóðinni en Sigurgeir bæjarstjóri var búinn að benda mér á hana og sagði mér að Örn sonur Vilhjálms sem var lögmaður í Reykjavík myndi sjá um sölu á henni. Ég hringdi síðan í Örn og hann var til í að láta mig hafa lóðina. Örn hafði verið mér samtíða í Menntaskólanum á Akureyri en við höfðum svo sem ekki kynnst neitt. Vissum samt hvor af öðrum. Við byggðum síðan fallegt einbýlishús á á lóðinni og vorum þar fram undir miðjan tíunda áratuginn. Þá vorum við orðin tvö ein í heimili.”
Fluttum í Vesturbæinn
“Þegar börnin voru farin að heiman fannst konunni húsið of stórt og mikið til að sjá um það fyrir okkur ein. Hún lagði til að við fyndum okkur eitthvað minna en þá var ekkert slíkt að hafa á Nesinu. Ég vildi ekki fara langt og við fundum íbúð í Vesturbænum. Við keyptum fyrst íbúð við Tómasarhaga þegar við eða réttara sagt konan seldi húsið okkar á Nesinu. Íbúðin var á efri hæð og okkur fannst hún ekki nægilega hentug. Við skiptum síðan yfir í yndislega íbúð á neðri hæð á horninu á Hjarðarhaga og Smyrilsvegi þar sem “Grimsby” húsin voru. Hús sem borgin byggði á sínum tíma til að koma fólki úr bröggum en voru síðan rifin undir lok níunda áratugarins. Íbúðin er næstum beint á móti verkfræðideild háskólans. Ég get horft yfir götuna á minn gamla vinnustað í háskólanum og fer þangað oft í morgunkaffi.“
Bara skólamaður
„Til að gera langa sögu stutta,“ heldur Júlíus áfram. „Ég átti sæti í bæjarstjórninni í tvö kjörtímabil eða átta ár. Ég var töluvert virkur á þeim tíma. Ég var settur í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá var einnig búin til svokölluð Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins. Ég tók að mér að verða stjórnarformaður þar og tók þátt í að byggja starfsemi hennar upp. Þetta varð til þess ég ákvað að reyna fyrir mér í Reykjaneskjördæmi fjórum árum síðar. Þá hafði ég skilað að mér fannst góðu verki. Ég var orðinn formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hafði drifið skipulagsvinnuna áfram. Góð skýrsla um skipulag á höfuðborgarsvæðinu hafði verið unnin á vegum stofnunarinnar er reyndar var síðar lögð til hliðar sem er önnur saga. Ég ákvað að fara í prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjanesskjördæmi fyrir alþingiskosninga en varð fljótt hissa á hvað mér fannst mér illa tekið. Veit ekki hvernig á því stóð en það var eins og mönnum fyndist að ég væri bara einhver ómerkilegur kennari. Ég var að vísu prófessor við Háskóla Íslands en hafði einnig starfað sem verkfræðingur að ýmsum verkefnum og var með góða reynslu á alþjóðlegum vettvangi. Kjördæmisstjórn vildi heldur fá mann úr atvinnulífinu og fannst að ég væri bara skólamaður. Bara kennari sem skrifaði formúlur á töfluna og það væri ekki hinn rétti sjálfstæðismaður. Það var boðað til prófkjörs en ég held að sá hópur sem gaf kost á sér hafi þótt heldur rýr uppskera. Þarna voru séra Sigurður Helgi Guðmundsson sem var prestur í Hafnarfirði og Kristjana Milla Thorsteinsson ekkja Alfreðs Elíassonar frumkvöðuls í flugmálum, ungir verkfræðingur úr Mosfellsbæ, ég og einhverjir fleiri. Þetta endaði með því að prófkjörið var blásið af. Ég heyrði að Matthías Á. Mathiesen hafði komið þar við sögu því hann hafi ekki nennt að vera í prófkjöri en hann var fyrsti maður á lista sjálfstæðismanna. Þetta lenti með því að það voru bara stjórnir sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu sem greiddu atkvæði um framboðslista í skoðanakönnun. Þeim sem fannst ég bara vera kennari náðu í Víglund Þorsteinsson og fengu hann til að bjóða sig fram í þessari óformlegu skoðanakönnun. Ég var að sjálfsögðu hálffúll út af þessum viðtökum.“
Var móttækilegur
„Mér fannst ég vera búinn að vinna ágætlega fyrir flokkinn og var ekkert ánægður með þessa meðferð sem ég hafði hlotið í Reykjaneskjördæmi. Þess vegna var ég móttækilegri þegar Albert Guðmundsson kallaði á mig og bað mig að koma í slaginn með sér þegar hann stofnaði Borgaraflokkinn. Gamlir félagar á Seltjarnarnesi voru sumir ekki hrifnir af þessu brölti mínu að fara með Albert. Nágranni minn Sigurgeir bæjarstjóri lét þetta ekki fá neitt á sig og það bar aldrei skugga á vináttu okkar vegna þess. Ég get líka bætt því við að mér finnst ánægjulegt að sjá að Þór sonur hans skuli hafi fetað í fótspor föður síns. Það var flott hjá stráknum að gera þetta.“
Júlíus bætir við sögu af Sigurgeiri. „Þegar við fluttum frá Kaupmannahöfn 1974 sendum við búslóðina heim í gám eins og gengur. Þegar ég ætlaði að leysa hann út hjá tollinum í Reykjavík var mér tjáð að það væri ekki hægt nema eftir nákvæma tollskoðun. Grandskoða þyrfti allt sem væri í gámnum. Ég var ekki nægilega hress með þessar viðtökur. Þá vorum við búin að festa kaup á íbúð á Nesinu og mér kom til hugar að tala við bæjarstjóra þar. Ég fór út í gamla Mýrarhúsaskóla þar sem bæjarskrifstofurnar voru og spurði hvort hægt væri að fá að tala við Sigurgeir. Já, hann er þarna var svarið og það var opið inn til hans. Við tökum tal saman. Ég segi honum hver ég sé og að við séum að flytja í bæinn. Hann bauð mig velkominn og við spjölluðum meir. Að endingu segi ég honum að við séum í vandræðum með tollinn í Reykjavík. Sigurgeir benti mér að fara upp á efri hæði og finna þar Lárus Salómonsson sem var yfirlögregluþjónn á Seltjarnarnesi. Ég fór og talaði við Lárus, Hann brást vel við og sagði að ég skyldi ekkert vera að tala við tollinn í Reykjavík. Við á Seltjarnarnesi heyrðum undir Gullbringusýslu. Farðu bara í Hafnarfjörð og þar er yfirvaldið okkar. Ég fór þangað og hóf ferlið á nýjan leik. Þeir spurðu mig eitthvað út í mína hagi, útbjuggu síðan eitthvert skjal handa mér og sögðu mér að fara með gáminn.“
Albert keypti blóm handa Jóhönnu
Júlíus kveðst hafa kynnst Albert Guðmundssyni mörgum árum áður en þetta pólitíska samstarf þeirra kom til. „Við höfðum farið saman í NATO ferð til Brussel. Þar kynntist ég hliðum á honum sem mér fundust stórkostlegar. Einkum hvað hann var mikill herramaður og heimsmaður. Mér fannst eins og við hinir sem vorum í ferðinni værum eins og sveitadurgar við hliðina á honum. Jóhanna Sigurðardóttir var með í ferðinni og þegar við komin inn á hótelið í Brussel þá hljóp Albert út. Hann kom síðan til baka með stóran blómvönd og biður um að hann sé sendur upp á herbergi til Jóhönnu. Ég spurði hann hvað hann væri að gera. Hann sagði að hún væri eina konan í hópnum og við yrðum að sýna henni virðingu. Þetta hafði engum okkar hinna dottið í hug.“
Hálfpartinn feginn
„Út af viðtökunum sem ég hafi fengið í Reykjaneskjördæmi var ég tilkippilegur þegar Albert hnippti í mig. Þessi tími var áhugaverður en ég verð einnig að játa að ég varð hálfpartinn fengin þegar þetta var allt yfirstaðið og ég losnaði úr pólitíkinni. Ég hafði ekki viljið eyða allri ævinni að að gutla í pólitík. Mér fannst ég eiga meira erindi á öðrum sviðum. Árin sem fylgdu á eftir þingsetunni með Borgaraflokknum voru mjög gefandi. Ég var með verkefni út um allan heim alveg fram til þess tíma að ég var orðinn það gamall að ég nennti ekki meiru.“
Besti tíminn
“Svo verð ég aðeins að koma að því sem mér finnst vera skemmtilegasta verkefnið í lifi mínu. „Ég hafði verið í leyfi frá starfi við háskólann meðan á þingsetunni og ráðherrastörfum stóð. Þegar ég hætti á þingi og hafði sagt skilið við pólitíkina var ekkert annað í kortunum en halda áfram mínu gamla starfi við skólann. Ég fór og talaði við Sveinbjörn Björnsson sem þá var rektor. Við ræddum framtíðin og ég sagði honum að ég væri farinn að ryðga í fræðunum. Búinn að vera á kafi í pólitík og hefði ekkert sinnt þeim á meðan. Þá segir Sveinbjörn að best væri fyrir mig að taka árs leyfi, fara eitthvað út í heim og vinna mig aftur inn í fræðaheiminn. Þetta reyndist mér hin bestu hollráð. Ég hafði farið til Mexíkó í hópi fræðimanna árið 1985 til þess að skoða skemmdir sem höfðu orðið þar af miklum jarðhræringum. Þar hafði ég kynnst mönnum sem störfuðu við Ríkisháskólann í Mexíkóborg. Þar var líka Íslendingur, Ingvar Emilsson haffræðingur, sem starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar og hafði meðal annars verið að skipuleggja hafrannsóknir í Mexíkó þar sem hann bjó til æviloka. Hann hafði verið okkur innan handar og leiðbeint okkur í leiðangrinum til að skoða tjónið eftir jarðskjálftann haustið 1985. Ég setti mig í samband við hann og spurði hvort væri möguleiki á að ég gæti orðið gestur við ríkisháskólann í Mexíkó. Ég væri búinn að fá heilsársleyfi og fengi einhverjar greiðslur frá Háskóla Íslands í nokkra mánuði til að standa straum af kostnaði. Það var eins og við manninn mælt. Ég fékk þetta fína boðsbréf að ég væri velkominn sem gestur og ég myndi geta fengið viðbótar styrk til að kosta dvöl mína í Mexíkó. Úr varð að við hjónin fórum þangað um haustið. Keyptum bíl í Bandaríkjunum og ókum honum alla leið til Mexíkóborgar og vorum þar í heilt ár. Ég hef oft sagt að þetta hafi verið einhver besti tími lífs míns. Við fengum stórt einbýlishús til leigu sem var í eigu manns sem starfaði við jarðvísindadeildina, þar sem ég átti að starfa, en hann var sjálfur í leyfi í Bandaríkjunum. Þau leigðu okkur húsið gegn því að við létum þjónustustúlkuna sem þar var vera áfram til að sjá um okkur. Þau vildu halda henni áfram. Hún var líka mikið happ fyrir okkur. Hún eldaði, þvoði af okkur og sá um öll þrif. Við höfðum aldrei kynnst öðru eins. Þetta var eins og hjá hefðarfólki á Íslandi á árunum fyrir stríð. Þarna leið okkur afskaplega vel og ég lærði betur spænsku sem ég hafði gutlað eitthvað við áður. Þannig opnaðist nýr menningarheimur fyrir okkur, sem hefur veitt okkur margar ánægjustundir.“ Þarna verður að slá botninn í fróðlega ævisögu Júlíusar Sólnes þótt af mörgu fleiru mætti taka. Þeim sem forvitnir eru er bent á bókina hans Út um víða völl þar sem hann tíundar fjölbreyttan æviferil sinn.