Seljakirkja er ákveðinn þáttur í félagslífi í Seljahverfi
– segir Sigurður Már Hannesson prestur við Seljakirkju –
Sigurður Már Hannesson tók við starfi prests við Seljakirkju á liðnu eftir að Bryndís Malla Elídóttir varð prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Sigurður Már er Reykvíkingur fæddur 1990. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 2010, stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands en leiðin lá svo í guðfræðideildina. Sigurður Már útskrifaðist með mag. theol. próf frá Háskóla Íslands vorið 2020. Hann var vígður til prestsþjónustu hjá Kristilegu skólahreyfingunni í mars 2021. Eiginkona Sigurðar Más er Heiðdís Haukadal Reynisdóttir, verkefnastjóri í rafrænum kennslumálum hjá Háskóla Íslands. Þau eiga eina dóttur.
Hvaðan er Sigurður uppruninn? „Ég er ekki Breiðhyltingur en kem engu að síður úr Reykjavík. Ég er í minnihluta að því leyti sem prestur. Margir sem koma í guðfræðideildina eru utan af land eða eiga ættir á ýmsum stöðum vítt og breytt um landsbyggðina. Ég var einn af þeim fáu sem var eingöngu úr Reykjavík. Ég hef heldur aldrei starfað út á landi og endaði í Breiðholtinu.“ Sigurður Már er ættaður úr Leitunum í Austurbæ Reykjavíkur. Fyrst í Miðleitinu og síðan í Hvassaleitinu. Þegar hann stofnaði til fjölskyldu og fór að búa festu hann og kona hans kaup á íbúð á Grensásveginum sem er á sama reitnum og Leitin í borgarbyggðinni. „Við erum fjögur systkinin og búum öll hringinn í kringum foreldra okkar sem búa enn í Hvassaleitinu. Ýmsir kostir fylgja því að stórfjölskyldan búi að sama svæði. Stutt að skreppa á milli og stutt að fá pössun hjá skyldfólkinu.“
Merkilegt val miðað við fjölskyldusögu
Sigurður Már valdið guðfræðina þegar koma að háskólanámi. Hvað stýrði honum inn á þá braut. Hann segir valið merkilegt miðað við fjölskyldu bakgrunn sinn. „Fólk býst ef til vill einhverri sögu um köllun sem svar við þessari spurningu. En í mínu tilfelli er engin slík saga til. Ég var í Verslunarskólanum. Verslunar- og viðskiptanám hefur verið hálfgert fjölskyldusport hjá mínu fólki. Faðir minn er viðskiptafræðingur og systkini mín lærðu hagfræði. Öll þrjú systkini mín starfa banka Ég er því svarti sauðurinn í þessari hag- og viðskiptafræðifjölskyldu. Valdi mér aðra leið.“
Fann mig ekki í fjölskyldu sportinu
En hvernig kom guðfræðin til. „Ég byrjaði í viðskiptafræðinni en fann mig ekki í fjölskyldu sportinu ef ég orða það þannig. Ég var meira að leita fyrir mér um hvað ég ætti að gera. Þótt ég komi ekki úr kirkjurækinni fjölskyldu þá hef ég alltaf átt mína trú. Ég er alinn upp við að bera virðingu fyri trúnni. Ég fór að rækta trúarvitundina meira eftir að ég komst á unglingsár. Þessi ár þegar maður er að mynda sitt sjálf. Ákveða fyrir hvað maður vill standa. Þegar ég sá fram á að ég myndi ekki endast í viðskiptafræðinni fór ég að horfa meira í kringum mig og þá var það guðfræðin sem fór að heilla mig. Guðfræðinámið er mjög fjölbreytt. Það byggist meðal annars á tungumálum og heimspeki, siðfræði og sálgæslu. Þetta nám er með marga anga. Það eina sem vantar er stærðfræðin. Henni er alveg sleppt í guðfræðináminu. Ég byrjaði á að taka eitt námskeið. Athuga hvernig mér líkaði þetta og það varð úr, ég hélt áfram.
Gallinn við Kaupmannahöfn er danskan
Sigurður Már og Heiðdís lögðu lykkju á leið sína á námsárunum og fluttu til Kaupmannahafnar. Sigurður stundaði skiptinám þann tíma. Þau hjónin völdu sér áfangastað sem þau gátu bæði verið í námi. Hún í markaðsfræði en hann í guðfræði. Hann segir að megin gallinn á Kaupmannahöfn sé danskan sem nær ómögulegt sé að skilja. „Ég var svo heppinn að geta stundan námið að miklu leyti á ensku. Ég held að ég hafi lært eina setningu í dönsku. Að biðja um poka undir innkaupin „en pose“ í verslunum. Einu sinni var ég staddur á krá að panta mér bjór sem hét númer 16. Ég ætlaði að slá um mig og panta hann á dönsku. Konan á barnum skildi mig ekki og vildi greinilega ekki koma neitt til móts við mig. Svo benti ég á bjórinn sem ég vildi. „Ahh, sæksten“ sagði hún þá og ég hafði borið dönsku töluna fram með of hörðum hreim. Æ-hljóðið hafði ekki heyrst nægilega vel. Engin leið er að ná þessum framburði. Hann er svakalegur. Þeir eru líka að skipta meira og meira yfir í ensku. En ég sigldi til hafnar. Ekki þó til að nema einhver fræði eins og Megas kvað um Jón Sigurðsson forðum. En ég hafði gott af þessari dvöl. Í náminu var meðal annars fjallað um danska guðfræðinginn og heimspekinginn Sören Kirkegaard og sú kennsla fór fram á ensku. Ég var langt kominn með guðfræðinæmámið hér heima og þetta nýttist mér lítið upp á einingarnar að gera. Ég átti eftir áfanga í grísku. Grískukennslan var ekki í boði nema á dönsku og ætla að reyna að læra grísku á dönsku var ekki mjög spennandi. Allavega ekki fyrir mig. En það var gaman að prufa þetta. Allt nýtt eykur víðsýni.“
Áttaði mig ekki á að fá prestsstarf í Reykjavík svona fljótt
„Þegar ég lauk náminu ákvað ég að guðfræðin skyldi verða mín hilla í lífinu. Ég áttaði mig hins vegar ekki á því að ég myndi fá prestsstarf og það í Reykjavík svona fljótt. Konan mín var að vinna í háskólanum á þjónustusviðinu. Einhverju sinni var hún með fund fyrir kennara í efnafræði. Fundarefnið mun hafa verið hvernig bregðast ætti við nýjum svæðum sem urðu til vegna kóvid og samkomutakmarkana sem þeim fylgdu. Mikil pressa myndaðist innan háskólasamfélagsins um að halda kennslu áfram þegar fólk mátti helst ekki hittast. Eftir fundinn kom einn kennarinn til hennar og spurði hana um þríkrossinn sem hún var með um hálsinn. Hún gengur með þríkross sem móðir hennar á. Um leið og hann benti á krossinn spurði hann um hvort hann mætti spyrja hana persónulegrar spurningar. Henni brá aðeins við spurninguna. Nú vildi efnafræðiprófessor fara að spyrja hana um krossinn. Hún bjóst jafnvel við að hann ætlaði að fara að rakka trúna niður. Hún játaði spurningu hans og hann spurði þá hvort hún bæri krossinn af trúarlegum ástæðum eða eingöngu til skrauts. Hún kvaðst bera hann ef trúarlegum ástæðum og þá fóru þau að spjalla meira. Þá kom í ljós að hann var í stjórn félags, Kristilegri skólahreyfingu. Hreyfingu sem vinnur með ungu fólki og starfar á sama grundvelli og þjóðkirkjan og er í miklu samstarfi við hana. Í ljós kom að þau voru að leita eftir nýjum starfsmanni. Í framhaldi spurði hann hana um hvort hún þekkti einhvern sem væri að vinna á þessu sama sviði. Jú, hún kvaðst þekkja hann og sagði að maðurinn sinn hafi verið að útskrifast úr guðfræðinámi og væri að leita sér að einhverju að gera. Ég bjóst við að fara að sækja um hjá útfararþjónustu, heimilum fyrir eldri borgara eða jafnvel við leikskóla eins og stundum gerist á meðal nýútskrifaðra guðfræðinga. Eða þá að sækja um brauð úti á landi eins og margir gera. Hefja starfsferilinn þar. Ég gerði mér grein fyri að ég þyrfti ef til vill að hefja starfsferilinn þar þótt ég sé fæddur og uppalinn í Reykjavík og hafi aldrei búið annars staðar fyrir utan árið í Danmörku og eigi allt mitt tengslanet hér í borginni.“
Hvatti mig til að sækja um starf hjá KSH
Þetta samtal endaði með að hann hvatti hana til þess að hvetja mig til þess að sækja um sem ég gerði. Ég hafði ekki heyrt um þetta félag áður. Ég hafði komist í gegnum alla guðfræðina án þess að hafa heyrt á það minnst. Ég sótti um og tók síðan við sem starfsmaður þar. Konan mín var mjög ánægð með að þurfa ekki að elta mig út á land enda innfæddur höfuðborgarbúi líkt og ég sjálfur. Komin með góða vinnu hér og við búin að eignast barn. Eftir nokkurn tíma var óskað eftir því að ég fengi mig vígðan. Agnes biskup samþykkti það og ég var vígður sem æskulýðsprestur við Kristilegu skólahreyfinguna, stundum kallaður skólaprestur. Ég starfaði þarna fyrir KSH í hálfu starfi og síðan fyrir KFUM og KFUK á móti.“
Æskulýðsstarfið hjálpaði mér
Sigurður kveðst hafa ætlað sér að stoppa aðeins lengur hjá KSH. En þá hafi sú staða komið upp að hafa verið hvattur til að sækja um prestsstarf við Seljakirkju. Preststarfið losnaði þegar Bryndís Malla Elídóttir tók við prófaststarfi af séra Gísla Jónassyni þegar hann varð emerítus og fór á eftirlaun. Ég vissi ekki um hversu mikla möguleika ég ætti enda sóttu á annan tug presta og guðfræðinga um starfið. Ég var búinn að vinna sem æskulýðsfulltrúi og áleit að það gæti hjálpað mér. Ég gæti átt einhverja möguleika. Að öðrum kosti hefði ég trúlega ekki lagt inn umsókn. Ég þekkti Ólaf Jóhann Borgþórsson sóknarprest ekkert fyrir en við sáum strax að við myndum geta orðið góðir samstarfsfélagar.
Frábær hópur í Seljakirkju
Sigurður Már kveðst kunna vel við sig í Seljakirkju. Hann eigi frábært samstarfsfólk. Samstarf prestanna í Seljakirkju hefur til að mynda gengið einkar vel. „Við höfum orðið góðir vinir og það er frábær hópur sem starfar hér í kirkjunni. Safnaðarvitundin í kringum Seljakirkju er sterk og margt frábært fólk kemur hingað í kirkjuna. Kirkjan er einnig hönnuð þannig af hendi Sverris Norðfjörð arkitekts sem teiknaði hana að hún nýtist líka sem félagsheimili. Margir eiga því leið hingað hvort sem um eiginlegt kirkjustarf sé að ræða eða aðra félagsstarfsemi. Seljakirkja er ákveðinn þáttur í félagslífi í Seljahverfi.