Íslenskunámskeið slá í gegn
Íslenskunámskeið fyrir fullorðna hefur slegið í gegn. Frístundir í Breiðholti hafa það að markmiði að auka þátttöku barna og unglinga. Hluti af því að ná til barna af erlendum uppruna er að styðja við foreldra og fjölskyldur með fjölbreyttum hætti og verkefnum.
Íslenskuhornið er eitt slíkt verkefni. Í samvinnu við Sigurð Inga Ásgeirsson var lagt upp með að æfa sig í að tala íslensku, þ.e. fyrir fólk af erlendum uppruna. Mikil þörf kom í ljós meðal þeirra sem komu frá Venesúela og öðrum löndum í Suður-Ameríku, sem eru allir spænskumælandi. Af þeim sökum hefur skapast þörf fyrir spænskumælandi túlk. Caryna Gladys Bolívar Serge hefur því aðstoðað Sigurð við kennsluna og hefur það samstarf reynst farsælt. Í byrjun mættu um 20 manns einu sinni í viku, en mikil fjölgun hefur orðið og nú sækja um það bil 55 einstaklingar þrjú námskeið. Mikil ánægja er með framlag þeirra Sigurðar og Carynu fyrir þessa hópa og einlæg vinsemd ríkir á meðal þátttakendanna.