Eigum að líta á okkur sem samfélag sem tekur ábyrgð á öllum
— segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi, formaður velferðarráðs Reykjavíkur —
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi, formaður velferðarráðs Reykjavíkur og formaður Sambands íslenska sveitarfélaga spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Heiða Björg er fædd og uppalin á Akureyri með ættir að Skipalóni í Hörgárdal þar sem hún dvaldi oft á sumrum sem barn og unglingur og fékkst við hefðbundin sveitastörf. Heiða flutti eftir framhaldsskólanám við Verkmenntaskóla Akureyrar til Reykjavíkur þar sem hún hefur búið síðan að nokkrum árum undanskildum þegar hún bjó og stundaði nám í Gautaborg í Svíþjóð. Heiða Björg hefur verið virk í félagsmál um lengri tíma og einkum látið borgarþróun og velferðarmál til sín taka á vegum Reykjavíkurborgar. Talið barst því fyrst að þeim málum.
Heiða segir tvær ástæðu einkum vera fyrir því að hún laðaðist að stjórnmálum. Velferðarmálin hafi verið önnur þeirra. Hún segir að við eigum að líta á okkur sem samfélag sem á að taka sameiginlega ábyrgð á okkur öllum. Einstaklingshyggja sé áberandi í samfélaginu en nauðsynlegt að fólk finni að það sé ekki eitt á báti einkum þegar eitthvað bjáti á. Heiða er búin að vera formaður velferðaráðs í næstum fimm ár. Hún segir að búið sé að gera margt á þeim tíma sem hún er ánægð með en stundum gangi málin ekki nægilega hratt fyrir sig og viðhorfin mættu vera jákvæðari.
Kovid færði okkur ný verkefni
Finnst Heiðu velferðarmálin mæða meira á nú en áður. Hún kveður svo vera. “Ég held að kovid tíminn hafi fært okkur mörg verkefni á sviði velferðarmála sem við eigum jafnvel eftir að átta okkur betur á. Fleira fólk upplifir einhverskonar einmanaleika og meiri andlega vanlíðan en áður. Svo er verðbólga í þjóðfélaginu. Allt verðlag er að hækka. Fólki er að fjölga sem á erfitt með að ná endum saman. Fleiri verða heimilislausir.” Heiða segir að ásókn í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar hafi aukist um allt að 20% á milli áranna 2021 og 2022. “Við verðum að líta á það bæði jákvæðum og neikvæðum augum. Gott er ef fólk þarf á ákveðinni þjónustu að halda að það leiti til borgarinnar. Mér finnst mikilvægt að borgin þessi sameiginlegi sjóður, þessi sameiginlega eign okkar standi með fólki þegar eitthvað bjátar á.”
Að leggja áherslu á samkennd og virðingu
Talið berst að því sem stundum er rætt um hvort nágrannasveitarfélögin sæki á Reykjavíkurborg þegar um þjónustu við fólk sem á í erfiðleikum er að ræða. Hún segir það einkum áberandi þegar um heimilislausa er að ræða. Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem starfræki neyðarhúsnæði fyrir heimilislaust fólk og sé með ákveðna stefnu í þeim málum. Hún segir að fyrir fjórum árum hafi ný aðgerðaáætlun verið sett af stað sem hafi breytt umræðunni um þessi mál á Íslandi. Reynt sé að veita fólki sem hefur ánetjast vímuefnum þjónustu og leitast við að draga úr skaða sem það veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu fremur en að reyna að refsa fólki til þess að hætta að nota þessi efni. “Velferðarstefnan gengur út á að leggja áherslu á samkennd og virðingu fyrir fólki. Þetta er sett fram sem eins konar yfirstefna fyrir aðgerðir og við leggjum áherslu á mikið samráð. Við vonum að það geti skapað traust því mikilvægt er að borgarbúar finni að þeir geti leitað til borgarinnar þegar þeir þurfa á að halda.”
Nýtt í samfélaginu að ræða þessa hluti
Talið berst að neyðarskýlunum og þeir umræðum sem skapast hafa um þau. Fólk virðist ekki vilja vita af bústöðum fyrir fólk í vanda í nágrenni sínu. Er þetta vanþekking fólks eða bara gamall hugsunarháttur sem erfitt er að útrýma. Heiða segir þetta nýtt í samfélaginu að rætt sé með þessum hætti um fólk sem er heimilislaust og með miklar þjónustuþarfar. Vanþekkingin sé einnig fyrir hendi. Fólk hafi ekki vanist að líta á þessi mál sem eitthvað sem hægt sé að leysa. “Við í Reykjavík höfum verið að fjárfesta í þekkingu á þessum hóp og aðstæðum fólks sem býr við þessar erfiðu aðstæður. Almenningur og ríkisvaldið er langt á eftir okkur.” Heiða bendir á að sterkir hagsmunaaðilar styðji við þessi mál. Hún nefnir Rauða krossinn og Rótina sem dæmi og segir ákveðna fræðimenn farna að grúska í þessu sem sé mjög jákvætt. “Fyrir okkur er þetta nýtt viðfangsefni miðað við borgir erlendis sem við berum okkur saman við. Við horfðum lengi fram hjá þessu.” Heiða bendir á að gripið hafi verið til neyðarskýlanna í bráðri neyð þar sem engin þjónusta hafi verið fyrir hendi. Þau séu aðeins hugsuð til bráðabirgða og nú sé unnið að því að finna framtíðarlausn þannig að engin þurfi að notfæra sér slíkt húsnæði. “Við viljum ekki að fólk þurfi að nýta þessa þjónusta vegna þess að hún dregur á engan hátt úr þeim skaða sem neysla vímuefna hefur leitt af sér fyrir fólk. Neyðarskýlin eru aðeins skammtíma úrræði.”
Eitt áfall getur leitt til heimilisleysis
Heiða segir nauðsynlegt að hafa í huga að munurinn á fólki og því fólki sem er án heimilis þurfti ekki að vera meiri en eitt áfall sem fólk hefur ekki geta höndlað og leiðst út í það líf sem það fór að lifa. Ástand sem fólk er að takast á við. Ef til vill vegna einhvers sjúkdóms sem aðrir hafa verið svo heppnir að fá ekki. Oft þurfi ekki mikið til og því miður geti hent ólíklegasta fólk að verða heimilislaust. Heiða segir að lengi hafa ekki verið samþykkt í samfélaginu að fólk hafi tök á neyslu sinni. Vín sé samfélagsleg neysluvara svo lengi sem fólk hefur stjórn á neyslu þess. Að vínið taki ekki stjórnina yfir og fari að ráða för. Ef fólk missti tök á neyslunni mátti bara að snúa við því baki. “Þetta er hugsunarháttur fyrri tíðar sem er á undanhaldi. Það getur líka verið erfitt fyrir fólk sem vill og er að reyna að taka á sínum málum að vera ekki í tengslum við þá sem því þykir vænt um. Við fjölskyldur sínar eða vini. Kannski búið að brenna allar brýr að baki sér. Þetta getur verið hluti vandans. Því skiptir máli að standa með fólki í svona aðstæðum. Ég hef hitt mæður úr öðrum sveitarfélögum sem hafa sagt mér hversu erfitt sé að horfa á eftir barninu sínu á götuna í Reykjavík og þurfa síðan að koma úr öðru sveitarfélagi til þess að leita eftir aðstoð.”
Betra að fólk geti fengið þjónustu í nærumhverfi sínu
Heiða segir mismunandi þjónustu í boði eftir sveitarfélögum og engin launung á því að fólk með vanda af þessu tagi leitar inn í Reykjavík. Hún segir að betra væri að þessi málaflokkur væri meira lands verkandi þannig að fólk geti fengið meiri þjónustu í sínu nærumhverfi og geti verið nálægt þeim sem því þykir vænt um og verið í umhverfi sem það þekkir. Einnig geti verið gott að dreifa fólki sem á í erfiðum félagslegum vanda í stað þess að hópa því of mikið saman eins og hefur verið gert. Nauðsynlegt sé fyrir fólk og ekkert síður fólk sem er í viðkvæmri stöðu að hitta og umgangast breytilega hópa.
Eigum ekki að flokka fólk
“Ég hef verið að leggja áherslu á í mínu starfi að velferðarmálum að við gerum minna að því að flokka fólk. Við verðum að vera umburðarlyndari gagnvart því að við erum allskonar og alls staðar í samfélaginu. Eldra fólk á ekki endilega bara að hitta annað eldra fólk. Eins er með yngra fólkið. Fólk þarf að hafa tækifæri til að blandast saman. Hluti af þessu er að við höfum verið að opna húsnæði sem einkum hefur verið fyrir félagsstarf eldri borgara fyrir yngra fólki. Markmiðið er að fólk nái að blandast betur saman og geti miðlað hvort öðru af áhugamálum og reynslu. Ég veit að yngra fólk sem sumt er ekki a vinnumarkaði meðal annars af því að það er með ung börn er farið að notfæra sér þessa aðstöðu. Ég get nefnt Aflagrandann sem dæmi, einnig Gerðuberg í Breiðholti og Vitatorgið við Vitastíg. Þar er komin leikaðstaða fyrir börn. Þar hittist fólk af mismunandi kynslóðum, kynnist, fordómar minnka og allt verður skemmtilegra.” Heiða rifjar upp árin sem hún var í fæðingarorlofi. Kveðst þá hafa sótt Sólheimabókasafnið reglulega, Þar hafi fólk af flestum kynslóðum komið. “Þarna sá ég hvað fólk hefur gott af því að hittast yfir kaffibolla og tala saman á milli kynslóða.”
Stendur upp á okkur að tala meira saman
Karp í borgarstjórninni ber á góma. Telur Heiða of miklum tíma eytt í að karpa um hluti í stað þess að leita að lausnum. Hún hugsar sig um. “Reykjavík er stórkostleg borg. Borgarbúar eru eðlilega allskonar fólk og kjósa sér fulltrúa með mismunandi viðhorf. Ég er stolt af að starfa á þessum vettvangi. Mér finnst hins vegar standa upp á okkur og tala meira saman og reyna að ræða okkur niður á niðurstöður. Það verða allir aldrei sáttir með allt. En við mættum reyna meira að stuðla að sátt og samstöðu. Ég er ekki í stjórnmálum bara til þess að vera á móti einhverjum. Heldur til þess að koma ákveðnum viðhorfum á framfæri. Ég er alin upp við það viðhorf að enginn sé merkilegri en annar og allir jafnir. Þetta var mjög sterkt í mínu uppeldi og hefur ekkert breyst. Ég el börnin mín upp með þessu sjónarmiði,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi.