Mygla í fimmtugum Hólabrekkuskóla
— hluti nemenda fluttur í Korpuskóla —
Tæpur helmingur nemenda Hólabrekkuskóla í Breiðholti þarf að verja næstu skólaárum í Korpuskóla í Grafarvogi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir vegna rakaskemmda munu standa yfir í húsnæði Hólabrekkuskóla næstu árin.
Hólabrekkuskóli er í fjórum húsum. Vinna er hafin við tvö þeirra og stefnt á að taka hin til lagfæringa síðar. Um 240 nemendur Hólabrekkuskóla verða færðir yfir í Korpuskóla tímabundið en í skólanum eru um 500 nemendur. Nemendur í sjötta til tíunda bekk Hólabrekkuskóla munu fara með rútum í Grafarvoginn alla virka morgna vikunnar. Nemendur í fyrsta til fimmta bekk halda kyrru fyrir heima í Breiðholtinu. Húsnæði Hólabrekkuskóla er 50 ára. Myglan kom fram á síðasta ári þegar rör sprakk í kjallara í húsnæðinu. Þá myndaðist raki í einni álmunni. Í kjölfar þess voru fleiri rými skoðuð og við það kom í ljós að rakaskemmdir væru á fleiri stöðum. Nú þarf að teikna upp á nýtt og hanna og síðan að hefja framkvæmdir sem gætu tekið um tvö til þrjú ár eftir því hvernig þeim miðar áfram.