Viljum tryggja framtíð Tjarnarbíós
— segir Skúli Helgason formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs —
Húsið Tjarnarbíó við Tjarnargötu er rúmlega aldar gamalt. Reist árið 1913. Var í upphafi íshús og notað til þess að geyma ís af Tjörninni sem nýttur var vegna geymslu á fiski. Frá því á árum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur það öðru fremur verið kvikmyndahús og í seinni tíð leikhús. Árið 1942 hóf Háskóli Íslands bíórekstur í húsinu og voru þá gerðar á því umfangsmiklar breytingar. Nefndist bíóið Tjarnarbíó og tók tæplega fjögur hundruð manns í sæti. Frá árinu 1995 hefur Bandalag sjálfstæðu leikhúsanna rekið húsið. Fyrir nokkrum árum voru gerðar miklar breytingar á leiksviði, áhorfendasal og starfsaðstöðu allri ásamt því að viðbygging með kaffihúsi var reist við norðurhliðina. Í þeirri mynd var Tjarnarbíó opnað árið 2010 og rættist þá gamall draumur margra um sérstakt leikhús fyrir sjálfstæða leikhópa í Reykjavík. En getur Tjarnarbíó þjónað þeirri starfsemi með góðu móti sem það þarf og þyrfti að hýsa ef horft er til framtíðar?
Skúli Helgason formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar segir að Tjarnarbíó hafi um árabil verið heimili sjálfstæðra sviðslista í borginni og haldi úti fjölbreyttri starfsemi í háum gæðaflokki allan ársins hring. Hann segir aðstöðuna í Tjarnarnbíó vettvang fyrir nýsköpun á sviði leiklistar, danslistar, uppistands og tónlistar. Hann segir mikinn metnað vera í starfinu í Tjarnarbíó en aðstöðuleysi í þessu gamla húsi setji starfseminni vissulega þröngar skorður. Ljóst sé að finna þurfi nýjar leiðir til að bæta úr aðstöðumálum og treysta reksturinn til að skjóta styrkari stoðum undir starfsemina. Skúli segir að aðstaða til sviðslista hafi verið þung á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár og sífellt í færri hús að venda fyrir ungt sviðslistafólk. Dæmi um það sé að Loftkastalinn, Gaflaraleikhúsið og Iðnó sem leikhús hafa horfið af sjónarsviðinu. Við svo búið megi ekki standa.
Um 60% af frumsýningum í Tjarnarbíói
Skúli segir að eitt það fyrsta sem komið hafi á sitt borð þegar hann tók við formennsku í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði hafi verið að hitta forsvarsmenn Tjarnarbíós og ræða um aðstæður þeirra. Í Tjarnarbíói sé lítið svið og 180 manna salur sem setji starfinu þröngar skorður. Sárlega vanti æfingaaðstöðu, geymslurými og viðbótarsvið sem myndi gjörbreyta starfsskilyrðum til hins betra. ”En þrátt fyrir takmarkaða aðstöðu er einstök starfsemi í Tjarnarbíó sem hýsir fjölbreytta flóru sjálfstæðra sviðslista. Tjarnarbó er einskonar regnhlíf fyrir mjög marga aðila sem stendur fyrir að um 60% af öllum frumsýningum á höfuðborgarsvæðinu. Um helmingur Grímuverðlaunanna síðastliðið vor féll til leikhópa sem eiga sér heimkynni í Tjarnarbíó. Þarna er því um mjög lifandi og spennandi vettvang að ræða fyrir frumleika, spennandi frumsköpun og fjölbreytt grasrótarstarf. Starf sem nærir íslenska menningu hvort sem er á sviði leiklistar, danslistar, uppistands eða tónlistar. Þá skipti einnig miklu máli fyrir stóru leikhúsin að hafa þessa grasrót.“
Aðsóknarmet í fyrra
Leikárið 2022 til 2023 var söluhæsti vetur leikhússins frá upphafi. Aldrei hafa fleiri áhorfendur lagt leið sína þangað eða ríflega 22 þúsund manns. Fjórir til sjö viðburðir voru í bíóinu í hverri viku. Að sýningum sviðlistahópanna komu ríflega 300 manns, fagmenntað sviðslistafólk sem til skemmri eða lengri tíma hefur iðkaði list sína í húsinu. Auk þess að veita sjálfstæðum sviðlistahópum aðstöðu hefur Tjarnarbíó hýst viðburði hátíða á borð við Listahátíð í Reykjavík, Reykjavík Dance Festival og Óperudaga. „Í mínum huga er Tjarnarbíó staður þar sem framtíðarkynslóðir í íslenskum sviðslistum stíga sín fyrstu skref á opinberu sviði og því bráðnauðsynlegur staður í íslensku menningarflórunni,“ segir Skúli.
Skoða þarf aðstöðumálin almennt
Skúli segir að stjórnendur Tjarnarbíós hafi stungið upp á að byggja yfir portið. Þar mætti koma upp viðbótarsviði með áhorfendaaðstöðu fyrir um 100 gesti. ”Nú sárvantar æfingasvið og aðstöðu fyrir alþjóðleg samstarfsverkefni í Tjarnarbíó. Tjarnarbíó er eina leikhúsið á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjálfstæðir sviðslistahópar geta sýnt verk sín, fyrir utan þá handfylli hópa sem fá inn í stofnanaleikhúsunum. Og skoða þarf fleira í aðstöðumálum en bara Tjarnarbíó. Má þar nefna Iðnó, Hafnarhúsið og nýtt húsnæði Listaháskólans í Tryggvagötu. Hann segir að bæta þurfi tónleikaaðstöðu í borginni og gaman væri að sjá fleiri staði opna sem bjóði slíka aðstöðu. ”Nauðsynlegt er að efla grasrótina enn frekar með því að hækka almenna styrki sem sé frábær nýting á fjármunum til menningarmála.”
Rekstrarfé, þarfagreining og ríni á rekstri
Skúli segir að eftir að hafa átt viðræður við stjórnendur Tjarnarbíós hafi verið ákveðið að leita eftir samstarfi við ríkið. Lilja Dögg Alfreðsdóttur menningar– og viðskiptaráðherra hafi tekið vel í hugmyndina um samstarf Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um eflingu starfseminnar. Náðst hefur samkomulag um að ríki og borg leggi fram viðbótarfjármagn til að styrkja reksturinn á yfirstandandi leikári samkvæmt nýjum samningi. „Í fyrsta lagi leggur ríki og borg fram viðbótarfjármagn til að styrkja reksturinn á yfirstandandi leikári um 14,5 milljónir króna til viðbótar núverandi samningi borgarinnar sem kveður á um 22 milljónir króna á ári og húsnæðisframlag sem metið er á 40 milljónir. Þá verður farið í þarfagreiningu á aðstöðumálum sviðslistanna og loks ráðist í rýni á rekstri Tjarnarbíós með aðkomu sérfræðinga ríkis og borgar í þeim tilgangi að koma auga á leiðir til að tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar.”
Kortleggja þarf aðstöðu
Skúli segir þarfagreiningin fela í sér kortlagningu og úttekt á aðstöðu atvinnufólks í sviðslistum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og greiningu á þörfum sjálfstæðra sviðslistahópa sem starfa á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. „Nauðsynlegt er að líta þess að sviðslistir fela í sér ólík listform með sérhæfðar þarfir. Einnig þarf að rýna æfinga- og sýningarrými baksviðs. Þar er er um að ræða aðstöðu fyrir búninga, förðun, leikmynda- og munageymsla, áhorfendarými, áhorfendasali, framhús og önnur nauðsynleg aðstaða. Einnig tækjabúnaður og framleiðsluaðstaða. Þá má nefna skrifstofuaðstöðu fyrir starfsfólk viðburðahúsa, fyrir félagasamtök sem sinna sjálfstæðum sviðslistum, framleiðendur og sviðslistahópa og rými til námskeiðahalds fyrir börn og fullorðna.“
Samanstendur af mörgum hópum
Sjálfstæða sviðslistasenan samanstendur af leikhópum, danshópum, óperuhópum, sirkuslistahópum, uppistöndurum, dansleikhópum, improv-hópum, kabaretthópum, drag-hópum, sviðlistahátíðum og fleiru. „Sjálfstæðir sviðslistahópar standa fyrir um 60 prósentum frumsýninga hvers leikárs og gera það við mjög þröngan kost, því þeir fá innan við 10% af opinberu fjármagni sem veitt er í sviðslistir. Sjálfstæðar sviðslistir eru blómleg og ört vaxandi sena, sem telur allt frá frá hefðbundnari leik- og dansverkum til óperu, uppistands, kabaretts, tónleikahúss, sirkus o.fl. Nær allar sýningar sjálfstæðra sviðlistahópa eru frumsköpun og standa sjálfstæðir sviðlistahópar fyrir meirihluta nýskrifa í íslenskum sviðslistum. Þetta er geiri í örum vexti með aukinni sérhæfingu, fagmennsku og fjölbreytni. Kvikur og blómlegur geiri sem ber hróður Íslands víða með starfi sínu þvert á landamæri. Við viljum taka höndum saman um að tryggja framtíð Tjarnarbíós einnig til að skapa enn betri skilyrði fyrir grósku í íslenskum sviðslistum, segir Skúli Helgason formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs að lokum.