Leiðtogafundur ungs fólks á Norðurlöndunum
Ungmennaráð Seltjarnarness átti hvorki meira né minna en þrettán fulltrúa á Leiðtogafundi ungs fólks á Norðurlöndunum sem fór fram í Hörpu dagana 24. og 25. nóvember síðastliðinn. Viðburðurinn var hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu Ráðherranefndinni í ár og börn og ungmenni á aldrinum 13 – 25 ára frá öllum Norðurlöndunum tóku þátt.
Leiðtogafundurinn er öflugur samráðs- og samtalsvettvangur barna og ungmenni sem varða þau sjálf. Í aðdraganda að viðburðinum var ljóst í samtali og á samstarfsfundum barna og ungmenna að þau vilja meira en að vera spurð um hvað þeim finnst, þau vilja aðgerðir.
Líflegar umræður áttu sér stað hjá ungmennunum á föstudeginum og laugardeginum var ráðstafað í að draga saman niðurstöður úr umræðunum og mynda úr þeim aðgerðir sem afhentar voru Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.
Mikil áhersla var lögð á mikilvægi umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar, með því til dæmis að koma á og viðhalda verndarsvæðum og framfylgja lögum gegn skaðlegum iðnaði og mengunarvöldum. Unga fólkið krefst aukinnar fjárfestingar í menntun, lengri opnunartíma í félagsmiðstöðvum, jafns aðgengis að námi og öflugri almenningssamgangna. Allt eru þetta lykilatriði í baráttunni fyrir betri og sjálfbærari heimi.
Fulltrúar úr Ungmennaráði Seltjarnarness voru sveitarfélagi sínu til sóma og höfðum mikið til málanna að leggja. Þátttaka í viðburð eins og þessum skilar heilmiklu í reynslubankann fyrir ungt fólk og niðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að skapa ungmennum vettvang til að eiga opinskátt samtal um eigin lífsgæði. Þannig geta þau krafist aðgerða, haft áhrif á sitt nærumhverfi og í þessu tilfelli Norðurlöndin öll. Raddir ungs fólks eru mikilvægustu raddir samtímans og það er ábyrgð fullorðna fólksins að skapa þeim tækifærin til að láta í sér heyra, hlusta, taka mark á skoðunum þeirra og hugmyndum og mæta þeim af virðingu.
Ungt fólk er ekki bara framtíðin heldur eru þau einnig nútíðin. Þau tala fyrir sig og sína jafnaldra, en líka fyrir þær kynslóðir sem á eftir þeim koma.