Handverksóróinn „Rauðsokkar og húfuskott“ í Gerðubergi
Handverksóróinn „Rauðsokkar og húfuskott“ var afhjúpaður í félagsstarfinu í Gerðubergi föstudaginn 4. desember. Konurnar í félagsstarfinu Gerðubergi unnu verkið í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna í samstarfi við Menningarhúsið og er verkefnið hluti af þeirri dagskrá.
Konurnar mættu í Prjónakaffið með svuntur og gerðu sér glaðan dag með þá Sigurð Guðmundsson og Þorvald Jónsson í fararbroddi en þeir stýrðu fjöldasöng með harmónikuspili. Á milli kl. 14.00 og 18.00 var markaðsstemning í Félagsstarfinu Gerðubergi þar sem margskonar handverksmunir voru til sölu og var markaðurinn einnig til staðar laugardaginn 5. desember. Handverksóróinn verður til sýnis á neðri hæð hússins allan desembermánuð og allir eru velkomnir.

Sigurður Guðmundsson oft kenndur við Leirá þar sem hann var skólastjóri um árabil stjórnaði fjöldasöng og Þorvaldur Jónsson spilaði á harmonikkuna. Báðir hafa þeir lagt Félagsstarfinu í Gerðubergi lið í gegnum árin. Sigurður hefur meðal annars staðið fyrir hreyfingu af ýmsu tagi og Þorvaldur er ókrýndur harmoníkuleikari hússins.