Erfði bókmenntaáhugann frá föður mínum
Örn Ólafsson bókmenntafræðingur og rithöfundur spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Örn er fæddur og uppalinn á Túngötunni og bjó í Vesturbænum þar til að leið hans lá erlendis. Hann bjó um tíma í Lyon í Frakklandi þar sem hann sinnti kennslu og rannsóknarstörfum en hefur síðasta aldarfjórðunginn búið í Osló um tíma en að mestu í Kaupmannahöfn þar sem hann hefur sinnt kennslu og síðast en ekki síst bókaskrifum. Hann hefur ritað nokkrar bækur um íslenskar bókmenntir og íslenska höfunda – meðal annars bók um Guðberg Bergsson og verk hans og er nú að leggja lokahönd á bók um Thor Vilhjálmsson og feril hans sem rithöfundar. Örn átti stutt stopp á landinu á dögunum og settist niður með tíðindamanni Vesturbæjarblaðsins á Háskólatorginu um stund. Talið barst fyrst að Vesturbænum.
„Ég er fæddur á Túngötu 47 árið 1941 og ein fyrsta minning mín er að systir mín sem er aðeins yngri en ég var að gráta og ég sagði henni að það væri alveg óþarfi að gráta vegna þess að það væri gott veður. Hún ætti bara að hætta þessum gráti. Túngata var nánasta umhverfi æsku minnar og ég man að við strákarnir á Túngötunni vorum hræddir við strákana á Bræðraborgarstígnum. Þeir höfðu með sér félag sem þeir kölluðu Tígrisklóna. Við þorðum varla að ganga yfir götuna af ótta við þá. Að þeir myndu láta til skarar skríða gegn okkur en ég man nú ekki eftir að til neinna stórátaka kæmi.“ Örn segir umhverfið lítið breytt er hann lítur yfir það eftir langa fjarveru. „Þarna eru sömu húsin og allt er svipað utan að sjá en ég hef búið svo lengi erlendis að ég hef ekki fylgst mikið með mannlífinu. Þarna hafa auðvitað orðið kynslóðaskipti eins og annars staðar. Nýtt fólk er komið í gömlu húsin og tíðarandinn breytist frá einum tíma til annars.“ Örn fór hina hefðbundnu leið í skóla og skólagangan hófst í Melaskólanum. Svo tók Gagnfræðaskóli Vesturbæjar eða Gaggó Vest eins og síðar var farið að kalla hann við. „Hann var til húsa í gamla Stýrimannaskólanum við Stýrimannastíg og vinir mínir á þeim árum voru einkum Sigurjón Magnússon og Geir Viðar Vilhjálmsson síðar sálfræðingur. Sigurjón féll síðar fyrir hendi Bakkusar en þeir höfðu lengi átt nána samleið og Geir hefur verið heilsulítill og ekkert borið á honum um árabil. Milliskólatímabilinu lauk síðan með veru í þriðja bekk sem var til húsa í Búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina. Þaðan lá leiðin síðan yfir Lækjargötuna – yfir í MR í hefðbundið menntaskólanám.“
Bókmenntaáhuginn er föðurarfur
Örn fékk snemma áhuga á bókmenntum – fræðigrein sem ekki hefur látið hann ósnortinn um ævina og hefur einkennt líf hans og störf fram á þennan dag. En hvernig kom þessi áhugi til hans. Hann segir bókmenntaáhugann að miklu leyti föðurarf. „Þegar ég var í þriðja bekknum í Búnaðarfélagshúsinu kom Kristmann Guðmundsson rithöfundur einhverju sinni og hélt bókmenntakynningu fyrir krakkana. Ég held þó að þessi kynning hafi engum sköpum skipt fyrir mig vegna þess að áhuginn var þá þegar tekinn að vakna. Ég held að ég hafi fengið hann frá föður mínum sem hafði mikinn áhuga á bókmenntum. Hann las verk Halldórs Laxness í gegn einkum fyrri verk hans sem hann skrifaði á þeim tíma ævinnar þegar hann var einbeittur vinstri maður sem hann var allt til þess að hann skrifaði Guðsgjafaþulu. Það hafði þó aldrei áhrif á pólitíska sýn föður míns sem kaus íhaldið jafnan í hvert sinn sem gengið var til kosninga. Áhrifin frá Laxness náðu aldrei til þess þáttar í lífi hans. Afi minn var hins vegar á öðrum meiði í pólitíkinni. Hann var einn af stofnendum Dagsbrúnar og Alþýðuflokksins. Ef ég lít aðeins til móðurættar minnar þá var móðurafi minn kaupmaður á Stokkseyri fram til um 1930 að hann flutti til Reykjavíkur og settist að á Óðinsgötunni. Hann var mikill andstæðingur Jónasar frá Hriflu og þegar hann var að hlusta á útvarpið þar sem Jónas kom oft fram á þeim árum þá reifst hann við útvarpið. Þörfin að mótmæla Jónasi var svo mikil að hann skeytti ekkert um að maðurinn á bak við röddina í útvarpstækinu heyrði ekki umvandanir hans. Ég man aðeins eftir honum. Hann var þá orðinn verulega sjóndapur að öllum líkindum vegna undirliggjandi sykursýki.“
Síðhærður komst ekki til Austur Þýskalands
Örn segir að það hafi aldrei verið spurning um að fara bókmenntaleiðina þegar kom að háskólanámi. „Faðir minn var alltaf að reyna að fá mig til þess að lesa bækur Halldórs Laxness. Ég var hins vegar meira fyrir að lesa ljóð á þessum tíma. Á árunum í MR las ég til dæmis talsvert af enskum ljóðum eftir Byron, Shelley og John Keats. Þessi ljóðalestur varð þó ekki til þess að ég heillaðist alfarið af enskum bókmenntum og snéri mér að íslenskunámi við Háskóla Íslands að stúdentsprófinu loknu. Ég fékk námsstyrk og fór eitt ár til Þýskalands en kom síðan heim aftur og lauk íslenskunáminu.“ Þegar Örn dvaldi í Vestur Þýskalandi freistaði hans þá aldrei að líta austur yfir. Hann viðurkennir það og segir að í boði hafi verið ódýrar rútuferðir til Berlínar. „Ég keypti mér far og hét af stað en á þessum árum var í tísku að ganga með sítt hár og talsverðan skeggvöxt. Ég hafi safnað nokkru af hvoru tveggja og líktist því ekki beint myndinni sem var í vegabréfinu mínu. Landamæravörður taldi að þetta gæti alls ekki verið sami maðurinn og mér var snúið frá.“ Elstu nemendurnir að verða sextugir Eftir háskólaprófið fór Örn að leita sér að vinnu og fékk fljótlega kennarastarf við Menntaskólann við Tjörnina eins og hann hét þá þegar hann var til húsa í gamla Miðbæjarskólanum en flutti síðan inn í Voga og heitir Menntaskólinn við Sund eða MS í daglegu tali. „Ég var þó aldrei nema í eitt ár þar vegna þess að þá bauðst mér kennslustarf við Menntaskólann við Hamrahlíð. MH var þá tiltölulega nýr framhaldsskóli og með talsvert öðru sniði en hinir hefðbundnu menntaskólar. Skólinn starfaði eftir sérstöku áfangakerfi en ekki gamla bekkjakerfinu sem tíðkast hafði og var vinsæll af nemendum sem margir nutu hins nýja fyrirkomulags. Nú er þetta orðið mun algengara á framhaldsskólastiginu en var og segja má að MH hafi verið brautryðjandi að ýmsu leyti. Ég kenndi þar í átta ár og þegar ég lít til baka þá sé ég að árin eru orðin nokkuð mörg vegna þess að elstu nemendur mínir eru að verða sextugir.“
Afdrifarík kynni við Lemarquis
En svo lá leið Arnar úr landi – til Lyon í Frakklandi þar sem við tóku kennslu- og rannsóknarstörf og þar vann hann meðal annars og varði doktorsritgerð um áhugaverðan tíma í sögu íslenskra bókmennta. Örn hneigðist að enskri ljóðagerð í æsku, dvaldi síðar í Þýskalandi en nú varð það Frakkland. Hvernig bar það til. “Það bar þannig til að ég kynntist frönskum manni sem býr hér á landi Gérard Lemarquis og við urðum góðir vinir. Ég fór einhverju sinni á árshátíð Alliance France ásamt fyrri konu minni Ingibjörgu Ólafsdóttur og Lemarquis eldaði fyrir árshátíðargesti. Upp úr því fór ég að nefna við hann að mig langaði til Frakklands. Ég væri orðinn leiður á kennslustarfinu og hefði áhuga á frekara námi. Þarna leiddi eitt af öðru sem endaði með því að við Ingibjörg og Egill sonur okkar sem þá var sex ára fórum til Lyon í Frakklandi og bjuggum þar í fimm ár. Ég stundaði nám en kenndi einnig með náminu – einkum sænskar og íslenskar bókmenntir. Árin í Lyon voru mjög góð. Gott að fara héðan og kynnast nýju umhverfi. Fjölskyldan stækkaði líka því Helga dóttir okkar Ingibjargar fæddist í Frakklandi. Við fórum því þrjú út en komum fjögur heim. Við kynntumst franskir matargerð og hefðum sem eru víðfrægar og við ferðuðumst líka mikið um. Austur til Alpanna og upp í Leirudal svo nokkurs sé getið. Þar er meðal annars að finna gamlar hallir aðalsmanna frá 16. og 17. öld og skála frá tíma Snorra Sturlusonar. Og Egill sem var sex ára þurfti að hefja sína skólagöngu í frönskum barnaskóla og skyldi eðlilega ekki orð í frönsku. Hann hafði aðallega verið að fletta frönskum myndablöðum og fyrsti veturinn var honum nokkuð erfiður. En krakkar hafa góða aðlögunarhæfni ekki síst þegar kemur að nýjum tungumálum og á öðru skólaárinu var hann búinn að ná tungumálinu og gat haldið í við skólafélaga sína. Ég lauk líka við doktorsritgerðina mína um tímabil Rauðra penna eins og þeir voru kallaðir vinstrisinnaðir rithöfundar um miðbik liðinnar aldar og varði hana í júní 1987 skömmu áður en að við komum heim. Þess má geta að ritgerðin kom síðar út og þá í endurskoðaðri útgáfu árið 1990.“
Erlendis í á þriðja áratug
Örn segir að þrátt fyrir nám og störf erlendis hafi verið erfitt að fá vinnu þegar hann kom heim. Ég byrjaði á að kenna útlendingum íslensku í Háskóla Íslands og það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig til fulls á því hvað þurfti til þess að komast að stöðum við háskólann. Það var að hafa sinnt stundakennslu um nokkurn tíma sem ég hafði eðlilega ekki gert þar sem ég hafði búið og starfað erlendis. Ég var því frekar atvinnulítill um tíma eða þar til að ég sá auglýsta stöðu sendikennara í Kaupmannahöfn. Fyrra hjónabandi mínu lauk um þetta leyti og ég slóg til sótti um og starfaði þar næstu sex árin. Þá flutti ég yfir til Osló og gegndi sambærilegri stöðu þar í nokkur ár. Það má segja að ég hafi búið erlendis frá þeim tíma og ef ég tek Frakklandsdvölina með þá hef ég dvalið að mestu utan lands í um 35 ár ef frá eru talin nokkur á níunda áratugnum.“
Frá konservativu heimili til marxisma
En þrátt fyrir þessa fjarveru frá föðurlandinu eru margir sem komnir eru á miðjan aldur sem muna vel eftir Erni. Í síðum frakka á reiðhjóli í Vesturbænum, á fundum hjá vinstri hreyfingunum eða útleggingum hans á Marxiskum fræðum í blöðum vinstrimanna. En hvað kom til að Örn sem kemur frá konservativu heimili – af fólki sem alltaf kaus íhaldið eins og hann kemst að orði gerðist einn af fremstu baráttumönnum fræða Karls Marx og Leon Trotsky hér á landi. Örn rifjar þá sögu upp. „Þannig var að þegar ég var á tuttugasta aldursárinu gerðist ég Þjóðvarnarmaður en þá starfaði flokkur með því nafni hér á landi og var svona til hliðar við Sósíalistaflokkinn sem síðar varð að Alþýðubandalagi. Þarna var ekki liðið það langt frá fullveldinu 1944 að fólk var mjög umhugað um þjóðerni og innan Þjóðvarnarflokksins var heilmikil þjóðernishyggja. Flokkurinn var stofnaður í mars 1953 og var svona óbeint framhald af Þjóðvarnarfélaginu sem starfaði á árunum frá 1946 til 1951. Eitt helsta stefnumál Þjóðvarnarmanna var að Ísland segði sig úr Atlandshafsbandalaginu og að ameríska herliðið færi af landi brott. Hugmyndafræði Þjóðvarnarmanna var byggð á þjóðernishyggju og félagshyggju en flokkurinn skar sig frá Sósíalistaflokknum vegna fylgni þess síðarnefnda við Sovétríkin. Ég safnaði undirskriftum gegn herstöðinni í Vesturbænum og ég man enn skelfingarsvipinn á sumu fólki þegar ég bar þetta erindi upp. Sumir umhverfðust hreinlega því vestræn samvinna átti sér mikið fylgi i þessum bæjarhluta. Þarna sá ég að það eina í stöðunni gegn herstöðinni væri að gerast kommúnisti. Ég gekk þá í Æskulýðsfylkinguna sem var hálfgerður útivistarhópur þar sem ekki var rætt mikið um pólitík. Þarna var fólk sem var í eðli sínu jafnaðarmenn – jafnvel hreinir kratar en áttu enga samleið sem Alþýðuflokknum sem var í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – flokkinn sem studdi hersetuna hvað fastast. Snemma á áttunda áratugnum fóru menn að koma heim frá námi á Norðurlöndunum sem höfðu kynnst ýmsum vinstri hreyfingum þar. Trodskyistar komu frá Svíþjóð og Maóistar sem lögðu Rauða kver og kenningar hins kínverska Maó formanns til grundvallar lífsskoðun sinni komu heim frá Noregi. Maóistarnir lögðu Fylkinguna næstum undir sig um tíma. Ég samdi lítið rit sem ég kallaði Kommúnismi eða kreddutrú 1976 og gaf það út sjálfur. Ég gerði þetta af vanefnum. Hannaði það í fjölritunarstofunni í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem ég kenndi á þeim tíma og það seldist fremur lítið. Um þetta leyti fór ég að kynna hér hugmyndir Trodskyista og snerist á sveif með þeim. Taldi að Trodskyisminn kæmist næst hinum hreina Marxisma eins og hann kemur fram í ritum Karls Marx. Fylkingin var orðin nokkuð Trodskysk á þessum tíma og þegar ég kom til Frakklands árið 1980 leitaði ég upp hóp þeirra og gekk í lið með þeim þótt mér fyndust Frakkarnir vera nokkuð kreddufullir – voru með alveg ákveðnar skoðanir á stjórnmálum og á heimsmálunum og lítinn sveigjanleika að finna í hugarheimi þeirra. Í Danmörku gekk ég til liðs við SAP Socialistisk Arbejederparti. Þetta eru fámenn samtök. Telja líklega um eitt hundrað manns. Þetta er svona samband heimilisleysingja á vinstri vængnum á Danmörku. Náði þó að fá sex menn kjörna á danska þingið þegar best lét.“
Skrifaði um Guðberg og er að ljúka við bók um Thor
Örn starfaði í Osló um þriggja ára skeið en hélt þá aftur til Kaupmannahafnar 1997 þar sem hann hefur dvalið síðan eða í tvo áratugi. Hann segir það hafa verið gaman að staldra við í Osló og fá tækifæri til þess að kynnast Norðmönnum. Eftir Noregsdvölina hefur Örn aðallega sinnt ritstörfum og fengist nokkuð við þýðingar. Hann starfaði meðal annars sem dómtúlkur í málum nokkurra Íslendinga sem náðust við að flytja eiturlyf frá Hollandi. En snúum okkur að bókunum sem Örn hefur ritað. „Já – árið 1992 kom út bókin Kóralforspil hafsins þar sem ég fjalla um módernisma í íslenskum bókmenntun og Seiðblátt hafið kom út árið 2008.“ Örn hefur einnig ritað bók um Guðberg Bergsson rithöfund og verk hans og er nú að leggja lokahönd á bók um Thor Vilhjálmsson svo nokkurra sé getið. „Ég man að ég hitti Guðberg einhverju sinni í Austurstrætinu þegar ég var að skrifa bókina um hann. Ég hafði einhverju sinni skrifað gagnrýni um hann í DV sem ég veit ekki hvort hann var ánægður með. En þarna tókum við tal saman og ég sagði honum frá því að ég væri að endurlesa bækur hans mér til mikillar ánægju, sem tók mig nærri þrjú ár og væri í miðjum bókarskrifum. Guðbergur er auk þess að vera afkastamikill rithöfundur einn fremsti þýðandi þjóðarinnar og hefur meðal annars gert bókmenntir frá hinum spænskumælandi heimi aðgengilegar Íslendingum. Bókin um Guðberg var um 300 blaðsíður en ég geri ráð fyrir að bókin um Thor verði um 180 síður. Það er gaman að skrifa um Thor en erfitt að nálgast sumar bóka hans einkum þær eldri.“
Hún kom og síðan höfum við verið saman
Örn kynntist síðari konu sinni Peries í Danmörku en hún er frá Kenía í Afríku. Hvernig bar það til að afrísk kona varð fyrir valinu. „Það er saga að segja frá því,“ segir Örn og lítur brosmildur upp. „Ég hafði ekkert verið að velta því fyrir mér að eignast konu aftur en fór svo að hugsa um að maður ætti kannski að fara út og leita einhvers félagsskapar stað þess að sitja heima og horfa á sjónvarpið. Ég ákvað að rölta út á kaffihús kvöld nokkurt í því skini að hitta ef til vill eitthvert fólk. Þegar ég kom þangað sátu tvær þeldökkar konur við borð. Ég gaf mig á tal við þær og spurði hvort ég mætti tylla mér hjá þeim. Ég náði í þrjá bjóra fyrir okkur og settist svo hjá þeim. Við áttum þarna ágætt spjall og mér tókst meðal annars að fá upp hjá annarri þeirra – þeirri sem mér leist betur á hvar hún ynni. Og svo hófst símatímabilið. Hún vann hjá Rauða krossinum og ég fór að hringja í hana. Í fyrstu vildi hún ekkert með mig hafa. Kannaðist varla við að við hefðum hist. En ég gafst ekki upp. Hringdi aftur og aftur í heila viku og að lokum kannaðist hún við að hafa hitt mig á kaffihúsinu sem að endingu leiddi til þess að hún féllst á að hitta mig aftur á sama stað. Hún kom og síðan höfum við verið saman.“
Nýtt að kynnast Kenía
Örn segir að það hafi verið nýtt fyrir sér að kynnast Kenía. „Ég hef farið sex sinnum þangað og þetta er að mestu mjög fallegt land. Liggur við austurströnd Afríku og miðbaugurinn gengur í gegnum landið. Kenía er ívið stærra en Frakkland – um 580 þúsund ferkílómetrar að stærð og þar búa um 28 milljónir manna. Suðurhluti landsins er mjög gróðursæll og þar eru mun fleiri íbúar. Ég hef haft tækifæri til þess að kynnast fjölskyldu Peries og haft gaman af því og nú er ég reyna að læra swahili sem er bantu tungumál og talað um miðja autanverða Afríku einkum í Kenía, Uganda og Tansaníu. Kannski er ég orðinn of gamall til þess að takast á við nýtt og frábrugðið tungumál en ég hef mjög gaman af því,“ segir Örn Ólafsson um leið og hann yfirgefur Háskólatorgið og heldur út í regngrátt Reykjavíkurhádegið.