Breiðhyltingar í miðju borgarlínunnar
Ein af aðalstöðvum fyrirhugaðrar borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu er í Mjóddinni í Breiðholti. Aðrar stórar samgöngustöðvar verða við Kringluna, Smáralind, Hörpu og BSÍ. Hugmyndin um borgarlínu byggist á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem var samþykkt 2015. Borgarlínan er nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi sem nú er unnið að undirbúning að á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Tveir kostir eru taldir koma til greina sem samgöngutæki á borgarlínunni – annars vegar strætisvagnar sem munu aka á sérstökum akreinum þar sem aðra umferð er ekki að finna eða léttlestir sem aka á teinum. Þegar rýnt er í kostnaðartölur má telja líklegt að vagnakerfið verði fyrir valinu fremur en lestakerfi þar sem verulegur munur er á kostnaði við að byggja eða leggja þessi kerfi. Gróflega er áætlað að kostnaður við að koma upp hraðvagnakerfi er 50 til 60 milljarðar en þá er ekki tekin með kostnaður við kaup á vögnum. Léttlestakerfi myndir kosta allt að 150 milljarða þegar miðað er við sambærilegar framkvæmdir í nágrannalöndum.
Notkun almenningssamganga hefur minnkað
Með borgarlínunni verður almenningssamgöngum gert hátt undir höfði eins og víðast hvar í borgum erlendis en hér hafa þær löngum átt undir högg að sækja. Árið 1962 voru Reykvíkingar um 75 þúsund talsins. Þá voru um 25 þúsund bílar í landinu. Á þessum tíma stigu um 17 milljónir manna upp í strætó á ársgrundvelli en í mörgum tilfellum getur verið um sama einstaklinginn að ræða sem ferðast með vögnunum jafnvel oftar en einu sinni á dag. Rúmri hálfri öld síðar eða árið 2015 fóru aðeins um 10,7 milljónir inn í strætisvagna. Á sama tíma voru um 178 þúsund bílar á höfuðborgarsvæðinu sem sýnir að hlutfallsleg notkun almenningssamgangna hefur minnkað verulega.
Dreifð byggð og sjálfseignarstefna
En hverjar eru ástæður þess að svo lítil áhersla hefur verið lögð á almenningssamgöngur. Höfuðborgarsvæðið er dreift miðað við flestar hefðbundnar borgarbyggðir. Í annan stað má nefna að um og upp úr 1960 þegar innflutningshöft voru afnumin af bifreiðum hófst mikil einkabílavæðing hér á landi. Íslendinga þyrsti í bíla og munu þau áhrif trúlega einkum hafa borist frá Bandaríkjunum eftir hersetuna á stríðsárunum þótt það hafi aldrei verið rannsakað til hlítar. Sjálfseignarstefna varð einnig snemma ríkjandi hér á landi. Bæði í húsnæði og í bílum.
Erlend áhrif og bankahrun
Undirrót þeirrar áherslubreytingu sem nú eru að verða má að einhverju leyti rekja til annarra landa. Til fólks sem hefur búið erlendis um lengri eða skemmri tíma og kynnst annarri umferðarmenningu. Bankahrunið 2008 leiddi af sér umtalsverða erfiðleika fyrir margar fjölskyldur og einstaklinga og farið var að horfa meira til fjölbreyttari samgönguhátta. Við þetta bætast spár um umtalsverða fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu eða á bilinu 40 til 70 þúsund fram til ársins 2040. Þá má nefna þéttingu byggðar en hugsunin að baki henni er einkum að ná aukinni hagkvæmni í rekstri sveitarfélaganna. Á undanförnum áratugum hefur svæði undir byggð á höfuðborgarsvæðinu vaxið um 130% en á sama tíma fjölgaði íbúum aðeins um 50%. Þetta sýnir hvernig byggðin hefur þanist yfir stærra og stærra landsvæði án þess að fjölgun íbúa hafi krafist þess. Eitt lykilatriða til að mæta fyrirsjáanlegri fólksfjölgun á næstu árum er að þéttingu byggðar verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli.