Allt að 130 íbúðir í Suður-mjódd
Ákvörðun hefur verið tekin um að heimila byggingu allt að 130 íbúða í Suður-Mjódd í Breiðholti. Áður lá fyrir heimild um byggingu 100 íbúða. Er þetta gert til þess að skapa svigrúm til að byggja smærri íbúðir – fjölga íbúðum án þess að byggja á stærra landsvæði eða auka byggingarmagn.
Þetta kemur fram í nýrri samþykkt um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 2010 til 2030 sem var samþykkt í borgarráði. Samkvæmt henni eru heimildir til íbúðabygginga á fjölmörgum byggingarsvæðum í borginni auknar í heild um allt að eitt þúsund íbúðir. Er þar fyrst og fremst um að ræða heimildir til að byggja smærri íbúðir en byggingarmagn ekki aukið að sama skapi. Meginmarkmið og tilgangur breytingartillagna á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 eru að mæta breyttum þörfum á húsnæðismarkaði og tryggja framfylgd Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og húsnæðisáætlana borgarinnar til skemmri tíma. Einnig til að skapa aukið svigrúm til uppbyggingar íbúða á völdum reitum, m.a. til að ýta undir byggingu smærri íbúða. Nú er unnið að því að byggja fjölbýlishús með allt að 50 íbúðum við Árskóga 1 til 3 í Suður Mjódd. Fyrirhugaðar 130 íbúðir munu bætast við þann fjölda. Suður Mjódd afmarkast af Reykjanesbraut, Breiðholtsbraut, Skógarseli og jaðri íbúðabyggðar við Þverársel og bæjarmörkum að Kópavogi.