Dansgarður í Mjóddinni

— hefur tekið við rekstri Klassíska listdansskólans og Balletskóla Guðbjargar Björgvins. Þetta er skólastarf fyrir alla segir Hrafnhildur Einarsdóttir skólastjóri. —

Dansgarðurinn er nýtt verkefni sem byggist í kringum Klassíska listdansskólann og hefur einnig tekið við rekstri Ballettskóla Guðbjargar Björgvins á Seltjarnarnesi. Dansgarðurinn er með starfsstöðvar á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Í Mjóddinni þar sem lögð er áhersla á kennslu fyrir börn og unglinga en þeir sem lengra eru komnir, hyggja á eða eru komnir í framhaldsnám vinna að námi sínu á Grensásveginum þar sem Dansgarður hefur rúmgóða æfingasali til afnota. Á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi verður starfseminn með svipuðu sniði og verið hefur. Hrafnhildur Einarsdóttir er skólastjóri og stjórnandi Dansgarðsins, aðstoðarskólastjóri er Ernesto Camilo og Aude Busson er verkefnastjóri.

Hrafnhildur Einarsdóttir skólastjóri Klassíska listdansskólans og Dansgarðs.

Hrafnhildur er Breiðhyltingur, uppalin í Hólunum og stundaði nám við Klassíska listdansskólann á sínum tíma en hélt síðan til London þar sem hún lauk BA gráðu í dansi og danssmíði úr Laban í London vorið 2009. Frá þeim tíma hefur hún unnið að mörgum vekefnum á sviði danslistar bæði hér heima og erlendis.  

Jákvæð hvatning og uppbygging

Klassíski listdansskólinn var stofnaður af Guðbjörgu Astrid Skúladóttur 1994 og hefur verið einkarekinn dansskóli frá stofnun. Skólinn hefur ávallt lagt sérstaka áherslu á þjálfun einstaklingsins, fá hann til að þróa hæfileika sína frá upphafi, undir faglegri leiðsögn. Klassíski listdansskólinn býður upp á faglegt nám í klassískum ballet, nútímadansi, samtímadansi og skapandi dansi. Skólinn leggur áherslu á þjálfun nemenda í hinum hefðbundna, sígilda þætti listdansins, jafnframt því að kynna aðra dansstíla og útfærslur á sviði dansins. Jákvæð hvatning og uppbygging nemenda í minni námshópum er stór þáttur í starfi skólans.

Dans fyrir alla

“Ég er að þróa hugmyndir um að auka aðgengi að dansmenntun með því hugarfari að hafa eitthvað að bjóða fyrir ólíka dansara og stuðla að því að sem flestir fái að kynnast danslistinni Auk þess sem ég brenn fyrir að sinna persónubundnu og faglegu dansnámi í klassískum ballett og nútíma- og samtímadansi sem er mikilvægur undirbúningur fyrir atvinnumennsku í dansi,” segir Hrafnhildur. “Við höfum að undanförnu verið að bjóða nemendum í grunnskólum til okkar á svokallaða dansdaga undir nafninu Dans fyrir alla þar sem nemendur hafa fengið að dansa, smíða dans og hitta listamenn. Dansgarðurinn hefur einnig boðið upp á heimsóknir í leikskóla og unnið með hælisleitendum að dans- og stuttmyndagerð. Stuttmyndin sem við höfum unnið með hælisleitendum heitir Senlime og verður sýnd á dagskrá Rúv í vetur. Dansgarðurinn hefur einnig haldið áfram að þróa FWD Youth Company-Forward with Dance, sem er danshópur fyrir unga dansara sem eru búnir með framhaldsskóla. Danshópurinn er árangursríkur hópur og í ár tók hópurinn meðal annars þátt í Listahátið í Reykjavík og Unglingurinn Reykjavík Dance festival.”  

Fjölbreytt kennsla

Hrafnhildur segir að aðgengi sé lykilatriði í hefðbundnu skólastarfi og kveðst hafa það að markmiði að gera danskennslu og viðburði aðgengilega fyrir ólíka hópa samfélagsins, óháð fjárhag eða menningarstöðu þeirra. Í vekefninu “Dans fyrir alla” séu danssmiðjur þátttakendum að kostnaðarlausu sem er kleyft vegna samstarfs við Reykjavíkurborg og List fyrir alla þar sem reynt er að mæta þörfum fólks frá fyrstu skrefum. Nú sé einnig í fyrsta skipti boðið upp á opið undirbúningsnám fyrir nemendur sem uppgötva dans á unglingsárunum en hafa áhuga á að fara í framhaldsnám í dansi. Hrafnhildur segir kennslu orðna fjölbreyttari því hún sé lykill í sköpunarferli ungra dansara. “Ég hika ekki við að fá gestakennara til að taka þátt með nemendum í dansverkum í samstarfi við innlenda og erlenda listamenn. Nemendur við skólann hafa einnig verið að ferðast með verk sín og ég get nefnd ferð útskriftarnema á stóra danshátíð í Kuopio í Finnlandi síðast liðið sumar og elsti hópur grunndeildar fór í sumarskóla til Bandaríkjanna. Þetta er mikilvægt til þess að nemendur fái tækifæri til að hitta og deila reynslu með dönsurum og kennurum um allan heim. Ég vil með þessum opnu og fjölbreyttu kennsluháttum þjóna betur þeim sem hafa ástríðu fyrir dansi og byggja upp vaxandi áhuga nemenda þar sem hver getur farið á sínum hraða og með sínum eiginleikum. Dansnám er frábær undirbúningur fyrir lífið, þar sem lögð er áhersla á að rækta líkama og sál, sköpunarferli og vinna með mismunandi kennurum og listamönnum.”

Dansinn er alþjóðlegt tungumál

Hrafnhildur segist hafa sérstakan áhuga á að ná til fólks af erlendum uppruna í Breiðholtinu. “Ég hef frétt af því að færri börn í Breiðholti nýti frístundastyrki sem eru í boði en í öðrum borgarhlutum. Ég veit ekki hvort börn sem eiga erlenda foreldra eru þar í meirihluta en það getur vel verið. Ef til vill eru foreldrar af öðru þjóðerni ekki nægilega upplýstir og fylgist eða ekki eins vel með. Einnig getur menningarmunur átt þátt í þessu. Fólk kemur frá ýmsum svæðum þar sem hlutir á borð við styrki til frístundaiðkunar eru óþekktir og fólk veit ekki um þá eða hvernig þeir virka. Þarna þarf að auka upplýsingar og kynna þessa möguleika fyrir fólki. Ég tel dansinn vera eitt af því sem getur sameinað fólk frá mismunandi menningarsvæðum líkt og fótbolti. Dansinn er alþjóðlegt tungumál.”

Mjóddin kjörin staður til að nýta frístundastyrkina

Hrafnhildur segir að Mjóddin sé kjörinn staður til þess að bjóða börnum og foreldrum að nýta frístundastyrkina í dansi þar sem hver og einn tekur þátt út frá áhuga sínum og getu.”Það er gott fyrir börn að byrja snemma í dansi. Um fimm ára og jafnvel yngri – allt niður í þriggja ára aldur. Við erum með þriggja ára börn á námskeiðum en það er þó ekkert sem segir að eldri krakkar geti ekki komið og byrjað að læra, og við höfum góða reynslu af slíku og höfum náð virkilega góðum árangri með nemendum sem byrja seinna að dansa. Sumir halda áfram fram á unglings- og jafnvel fullorðins ár en aðrir snúa sér að öðrum viðfangsefnum eins og gengur, en búa þó alltaf að dansnáminu. Krakkar finna sig misjafnlega í dansinum eins og öðru.”

Mjóddarmamma – dansdagur í vor

Eitt af því sem Dansgarðurinn er að fást við er undirbúningur að viðburði eða dansdegi í Mjóddinni sem fengið hefur heitið Mjóddarmamma. Dansgarðurinn fékk styrk frá Reykjavíkurborg til þess að koma þessu verkefni á fót. Hrafnhildur segir að það sé nú að þróast og taka á sig form en hugmyndin að því er að taka Mjóddina yfir í einn dag og bjóða upp á dansveislu þar sem vegfarendur geti tekið þátt í að dansa. Enn er ekki búið að tímasetja viðburðinn en það verður gert þegar undirbúningur er kominn lengra á veg og það verður kynnt í Breiðholtinu og jafnvel víðar. Hrafnhildur segir nauðsynlegt að lífga upp á Mjóddina með skemmtilegum viðburðum og bendir á að dansinn sé tilvalinn að því leyti. Hún segir að Klassíski listdansskólinn hafi ef til vill ekki verið nægilega sýnilegur og nafnið hugsanlega fælt einhverja frá. Talið að skólastarfið væri ekki fyrir alla. “Með nýja nafninu – Dansgarðurinn viljum við gefa með sterkari hætti til kynna að við bjóðum upp á fjölbreytt skólastarf fyrir alla.” 

You may also like...